mánudagur, febrúar 27, 2017

Andersen og Lind

Ég vorkenni alltaf hálfpartinn konum sem hafna feminisma, finnst eins og þær eigi eftir að vakna upp einn daginn og skammast sín (mörg dæmi um það svosem að stelpur hafni 'kynjakvótum' og hlæi að launamun þar til þær fara útá vinnumarkaðinn fyrir alvöru og reka sig á; sjá þá skyndilega óréttlætið sem þeim hafði verið margbent á). En þegar konur eru komnar í háar stöður í atvinnulífinu eða pólitík (auðvitað komast þær langt í lífinu enda greiða karlmenn frekar götu) og eru jafn forstokkaðar og verstu karlrembur í afstöðu sinni til kvennabaráttu og félagslegs raunveruleika þorra kvenna, þá finnst mér það ekkert fyndið lengur. Þegar konur sem hafa gert frjálshyggju að leiðarljósi lífs síns eru í viðtölum trekk í trekk og spúa útúr sér frjálshyggju- og karlhyggjuviðhorfum (við fögnuð karlrembusvína) þá er mér ekki skemmt.

Líklega ætti ég að skrifa langa ritgerð um þvæluna úr Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur og Sigríði Á. Andersen (hef reyndar eitthvað skrifað um þá síðarnefndu) en ég er svo heppin að Guðmundur Andri Thorsson skrifaði heilan pistil um pung-ummæli Heiðrúnar Lindar, en þegar hún ræddi um launakjör kvenna sagði hún að konur „vantar dálítinn pung“. Mér finnst pistill Guðmundar Andra ágætt svar (þótt ég taki ekki undir lofgjörð hans til pungsins) við þessari þvælu, og vísa því bara á pistil hans.

Annars finnst mér Hugleikur Dagsson hafa náð kjarna ummæla Heiðrúnar Lindar með þessari teikningu.





Efnisorð: , , ,