sunnudagur, febrúar 26, 2017

Silfur fyrir fleiri en Egil

Silfur Egils er aftur komið í Sjónvarpið á sunnudagsmorgnum, nema nú heitir það ekki lengur Silfur Egils heldur bara Silfrið. Egill Helgason er nefnilega ekki lengur einn með þáttinn því Fanney Birna Jónsdóttir er nú með þáttinn á móti honum. Í dag var Fanney ein og tók þá viðtal við Sóleyju Bender pró­fessor við hjúkr­un­ar­fræði­deild HÍ sem er formaður starfshóps á vegum velferðarráðuneytisins sem skilaði nú fyrir helgina af sér skýrslu um „heildarendurskoðun á lögum um fóstureyðingar auk fleiri mála“.

Í skýrslunni „er í fyrsta lagi lagt til að í stað þess að nota hugtakið fóstureyðing verði hugtakið þungunarrof notað.“ Einnig að ekki þurfi lengur tvo fagaðila til að heimila þungunarrof eins og nú er.

Undir „fleiri mál“ flokkast tillögur um fræðslu og ráðgjöf um kynheilbrigði, og aukið aðgengi að getnaðarvörnum fyrir unglinga. Þá er lagt til að lækka megi lágmarksaldur til að fara í ófrjósemisaðgerð niður í 18 ár (er 25 nú).

Samkvæmt heilbrigðisráðherra er tillögunum ætlað að vera grundvöllur við gerð frumvarps að nýrri löggjöf um þessi mál, segir jafnframt í frétt á Vísi.

Í viðtalinu í Silfrinu sagði Sóley Bender meira og minna það sama og í frétt Vísis, svo orð hennar komu ekki mikið á óvart. Það sem kom mér aftur á móti á óvart þegar ég horfði á Silfrið, var að Sóley væri yfirhöfuð í þættinum. Því hvenær hefði Egill Helgason lagst svo lágt að ræða svo kvenmiðað efni eins og þungunarrof eða álíka vitleysu úr feministum? Það eru mikil tíðindi að fjallað sé um þetta málefni í Silfrinu, og það jákvæða framtak skrifast algjörlega á Fanneyju.

Því öfugt við það sem margir halda (fram) þá skiptir kyn þáttastjórnenda máli — sem og annarra stjórnenda.

Efnisorð: , , ,