þriðjudagur, febrúar 28, 2017

Febrúaruppgjör 2017

Þótt febrúar sé stuttur þýðir það ekki að hann sé eitthvað minni um sig þegar kemur að hinu sívinsæla mánaðamótauppgjöri.

Forsetinn gerði þau mistök að grínast við menntaskólanema norðan heiða og endaði á að þurfa að útskýra - aftur og aftur - að hann hefði ekki vald til að banna ávexti og hefði í rauninni ekki áhuga á því heldur. Eina gagnið sem sú vitleysa hafði var að héreftir passar maður sig á að trúa ekki uppá erlenda þjóðarleiðtoga öllu því sem er sagt að þeir hafi fyrirskipað. Nema Trump, honum er trúandi til alls.

Óskarsverðlaunahátíðin breyttist í flokksþing Framsóknarflokksins þegar rangur sigurvegari var tilkynntur.

Ríkisútvarpið sem liggur undir ámæli um að vera fánaberi pólitískrar rétthugsunar fékk Jón Baldvin Hannibalsson og Óttar Guðmundsson í viðtalsþætti í sömu vikunni.

Bjarni Ben hefur enn ekki játað að hafa falið skýrslur til að þurfa ekki að ræða þær í kosningabaráttunni. Óttarr Proppé hefur enn ekki tekið ákvörðun um að láta undan þrýstingi Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar um að leyfa Klínikinni að reka heilbrigðisstofnun á reikning skattborgara með hagnað eigenda að leiðarljósi.

Enn var rætt um húsnæðisvandann en ekkert gert. Enn var rætt um ágang ferðamanna en ekkert gert.

Páll Stefánsson ljósmyndari skrifaði stuttan og sláandi texta um flóttamenn í Bangladess, en samkvæmt Páli telja Sameinuðu þjóðirnar það vera „langversta flóttamannavandamál í heiminum í dag. Mun verra en í Sýrlandi. Þarna er verið að fremja þjóðarmorð á þessari 1,5 milljóna manna múslimsku þjóð sem býr í nyrstu strandhéruðum Búrma.“ Um þetta hafði ég ekki heyrt áður, svo ég muni til.

Sömuleiðis berast hræðilegar fréttir frá Suður-Súdan þar sem lýst hefur verið yfir hungursneyð. Er það í fyrsta sinn í sex ár sem lýst er yfir hungursneyð í heiminum. Ríkisstjórn landsins sem og Sameinuðu þjóðirnar greina frá því að um hundrað þúsund Suður-Súdanar séu við það að svelta. Þá séu milljónir á barmi hungursneyðar. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) segir nærri fimm milljónir líða sáran skort. Einnig hefur verið varað við hungursneyð í Jemen, Sómalíu og norðausturhluta Nígeríu undanfarin misseri. Hungursneyð er formlega lýst yfir þegar að minnsta kosti tuttugu prósent heimila líða sáran skort og geta lítið við því gert, vannæring hrjáir meira en þrjátíu prósent íbúa og fleiri en tveir af hverjum tíu þúsund deyja úr hungri á degi hverjum (orðrétt en stytt úr frétt á Vísi).

Auk þess að rækta með sér mannvonsku sem lýsir sér t.a.m. með stríðum er mannfólkið í óða önn að eyðileggja jörðina. Það er því upplífgandi að lesa frétt frá NASA um að sjö plánetur hafa fundist. Á meðan jarðarbúar byrja að pakka mæli ég með að hlusta á The Planets eftir Holst, sem er einmitt tónverk um sjö plánetur: Mars, Venus, Merkúr, Júpíter, Satúrnus, Úranus og Neptúnus. Ég legg til að nýju pláneturnar, að því gefnu að mannkynið leggi þær undir sig í framtíðinni, fái nöfn dauðasyndanna sjö. Pant flytja á letiplánetuna.

Sif Sigmarsdóttir minntist einmitt á frétt NASA í stórgóðum pistli þar sem hún ræðir trúleysi. Þar vitnar hún í rithöfundinn Ann Druyan sem var ítrekað spurð hvort eiginmaður hennar sálugi, Carl Sagan, hafi tekið trú á dánarbeði. Svar hennar, sem Sif kallar magnþrungna en jarðbundna ástarjátningu er trúleysisyfirlýsing dauðans! Þið lesið hana hér.

Brennivín-í-búðir frumvarpið hefur verið mikið rætt, ekki síst á þinginu í dag. Þessi skrifuðu í blöðin og lögðu skynsamleg orð í belg.

— Guðjón S. Brjánsson Samfylkingarþingmaður og Gunnar Ólafsson heilsuhagfræðingar skrifuðu saman grein sem er stútfull af mikilvægum staðreyndum málsins.

— Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG bendir m.a. á hagsmuni stórverslunarinnar í landinu en það er ekki síst þaðan sem krafan um brennivín í búðir kemur.

— Ögmundur Bjarnason geðlæknir hæðist miskunnarlaust að frjálshyggjumönnum, sbr. þetta:
„Hlýtur þá að liggja næst fyrir að ráðast gegn þeirri blindu forræðishyggju að takmarka áfengiskaup við aldur neytenda, þvert á eftirspurn og kröfur markaðarins. Heimurinn er jú fullur af peningum og allskonar og fásinna að láta það dragast að drekka þau vín sem hægt er að drekka strax.“
— Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir nálgast málið m.a. út frá börnum sem þjást vegna áfengisneyslu foreldra sinna.

Talandi um óhamingjusamar fjölskyldur. Magnús Guðmundsson skrifaði feikifínan leiðara um mikilvægi þýðingastarfs og hið snautlega fjármagn sem Miðstöð íslenskra bókmennta er skammtað til að styrkja þýðingar. Magnús byrjar (og endar) leiðarann á upphafsorðum Önnu Kareninu (í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar):
„Allar hamingjusamar fjölskyldur eru hver annarri líkar, en óhamingjusöm fjölskylda er jafnan ógæfusöm á sinn sérstaka hátt.“

Fjölskyldur og annað fólk verður einhverstaðar að búa, og Gunnar Smári skrifaði leiðara um húsnæðisekluna á höfuðborgarsvæðinu. Hann vill „uppbyggingu félagslegs íbúðakerfis sem hýst getur 30 til 40 þúsund fjölskyldur“, og segir að „eyðilegging verkamannabústaðakerfisisns undir síðustu aldamót er ein skammarlegasta pólitíska aðgerð sögunnar“. Orð að sönnu.

Björn Einarsson öldrunarlæknir hefur unnið á sjúkrahúsum sem veita líknarmeðferð og skrifaði í byrjun febrúar tvær greinar um líknarmeðferð, aðstoð við sjálfsvíg eða beina líknardeyðingu. (Fyrri og seinni grein.) Þetta er mikilvæg umræða og umhugsunarefni.

Bjuggust þið við að þetta endaði á léttum nótum?

Efnisorð: , , , , , , ,