fimmtudagur, mars 02, 2017

Þarf ekki háskólapróf, of margir óæskilegir einstaklingar með svoleiðis

Kjarninn skýrir frá því að samkvæmt nýjum reglum Fjármálaeftirlitsins þurfi nú stjórnarmenn og framkvæmdastjórar fjármálafyrirtækja ekki lengur að hafa háskólapróf.

Það má auðvitað ekki bitna á klárum körlum ef þeir eru alveg sjálflærðir í bisness eða kláruðu aldrei háskólanám. Það verður auðvitað að greiða götu þeirra. En ekki mismuna þeim í þágu einhverra kerlinga. Mikilvægt nefnilega að passa að konur brussist ekki til að troða sér í æðstu stöður, flaggandi háskólagráðum í gríð og erg. Háskólagráður hvað.

Því einsog ég hef sagt a.m.k. tvívegis áður, þá er það engin tilviljun að háskólagráður missa gildi sitt þegar mikill fjöldi kvenna hefur lokið langskólanámi. Þá er bara reglunum breytt: þarf ekki háskólapróf!

Fyrsta skipti sem birtist hér pistill um hvernig leikreglum er breytt til að útiloka konur var árið 2007.
Annar pistill var skrifaður fyrir ári.

Því miður gefst mér eflaust tilefni til að benda á þetta oftar.

Efnisorð: , ,