miðvikudagur, mars 08, 2017

8. mars : Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Kvennasamtök í Bandaríkjunum hafa boðað til allsherjarverkfalls í dag, 8. mars. Það verður áhugavert að fylgjast með hvernig til tekst. Mig grunar sterklega að það verði ekki (miðað við höfðatölu) nærri eins tilkomumikið og fyrsta íslenska kvennaverkfallið 1975. Vonandi verður það þó fjölmennt og víðtækt svo að hrikti í karlrembustjórnmálum þar vestra.

Staða kvenna í heiminum er misslæm en hvergi í heiminum er þó fullu jafnrétti náð. Ekki í Svíþjóð og ekki hér. Það sem vantar uppá er tildæmis að enn hefur ekki tekist að vinna bug á launamun, niðrandi viðhorfi til gáfna og hæfni kvenna, kynferðislegri áreitni, kynferðislegu ofbeldi, og hlutgervingu kvenna. Konur fá enn ekki sömu tækifæri og karlar sem lýsir sér tildæmis í því að aðeins fáar konur komast í háar stöður.

Kjarninn skoðaði nýlega stöðu kvenna á Íslandi og komst að því að enda þótt konur séu
„49,7 prósent landsmanna. Þær stýra samt einungis fimmtungi allra fyrirtækja landsins og sitja í fjórðungi stjórnarsæta. Í efstu lögum fjármálageirans eru þær enn ákaflega sjaldséðar.“
Sex af 50 stærstu fyrirtækjum landsins er stýrt af konum. Það gera tólf prósent. Hlutfallið í fjármálakerfinu er 9% og hjá ríkisstofnunum 39%. Rúmlega níu af hverjum tíu æðstu stjórnenda sem stýra peningum eru karlar. Litlar sem engar breytingar hafa orðið á hlutfallinu árum saman.

Konur eru 39 prósent forstöðumanna hjá stofnunum ríkisins. Hlutfallið hefur hækkað úr 37 prósentum í fyrra og 29 prósentum árið 2009. Konur eru nú samtals 60 talsins meðal 154 forstöðumanna hjá ríkinu.
„Ef jafnræði hefði verið á milli kynja á framboðslista Sjálfstæðisflokksins, stærsta flokks landsins, væru konur í meirihluta á Alþingi. Af 21 þingmanni flokksins eru hins vegar einungis sjö konur. Sterk staða kvenna á þingi er þó ekki endurspegluð við ríkisstjórnarborðið. Af ellefu ráðherrum eru sjö karlar en fjórar konur.“*
Í stuttu máli sagt: Karlar stýra peningum og halda völdum.

AUGLÝSINGABIRTINGARMYND KVENNA
Hér að ofan var vísað í fróðlega úttekt Kjarnans á stöðu kvenna í stjórn fyrirtækja og opinberra stofnana. Einnig hefur komið í ljós að „Auglýsingabransinn er karllægur og hefur verið lengi,“ einsog segir í frétt á Vísi.
„Þrátt fyrir að kynjahlutfall á stofum innan SÍA sé jafnara nú en fyrir fimm árum hallar mjög á konur eftir því sem hærri stöðugildi eru skoðuð. Grafískir hönnuðir eru 40 prósent konur innan veggja SÍA, 26 prósent eru hönnunarstjórar og 23 prósent eru listrænir stjórnendur. Hafa þessi hlutföll ekki breyst síðustu ár, ekki frekar en framkvæmdastjórastöðurnar sem allar eru skipaðar karlmönnum.“
Það skildi þó ekki vera að fjölmenni karla á auglýsingastofum endurspeglist í þeirri áherslu sem er oft á konur sem viðföng í auglýsingum, útlit þeirra og kynþokka?

LÍKAMSVIRÐING
Sigrún Daníelsdóttir skrifaði undir lok árs 2016 um „af hverju það er mikilvægt að hafa frelsi til að velja hvernig þú vilt birtast öðrum, með eða án farða“. Með öðrum orðum, um þessa „ósögðu kröfu um að konur þurfi að vera með varalit til að geta talað“. Fín lesning.

Af því tilefni er gott að rifja upp það sem Eliza Reid, sem þá var ekki orðin forsetafrú, sagði:
„Ég vil heldur ekki að börnin mín fái þá hugmynd að konur megi ekki láta sjá sig utandyra án þess að vera málaðar og uppstrílaðar þannig að ég vil alls ekki gera það að einhverju aðalatriði.“

KVENMORÐ
„Kvenmorð (e. femicide) eiga sér stað um allan heim. Hugtakið er skilgreint með þeim hætti að rekja megi morðið til kynferðis, þ.e. kona er myrt vegna þess að hún er kona. Í vestrænum ríkjum er yfirleitt um að ræða morð í nánum samböndum en kvenmorð geta tekið á sig aðrar birtingarmyndir, dæmi um það eru kynferðisglæpir, svokölluð „heiðursmorð“, morð tengd heimanmundi, þvinguð sjálfsmorð og kerfisbundin eyðing kvenkynsfóstra. Hér í okkar fámenna landi deyr kona af völdum kynbundins ofbeldis u.þ.b. þriðja hvert ár."
Svona hefst grein eftir Freydísi Jónu Freysteinsdóttur dósent í félagsráðgjöf og Halldóru Gunnarsdóttur kynjafræðing, og verður ekkert meira upplífgandi eftir þetta. Þessar upplýsingar vöktu þó furðu:
„Á Íslandi er gögnum um kvenmorð ekki safnað sérstaklega og þær upplýsingar ekki að finna í útgefnum gögnum ríkislögreglustjóra.“
Freydís og Halldóra taka þátt í evrópsku verkefni sem miðar að því að finna leiðir til að fyrirbyggja að kvenmorð eigi sér stað, og þær leggja áherslu á að það sé mikilvægt að breyta skráningu „þannig að umfang vandans sé ljóst því þá er frekar við honum brugðist.“

FJÓRÐA BYLGJAN OG STÖRF SEM SKIPTA MÁLI
Í fróðlegri grein eftir Öldu Lóu Leifsdóttur í Fréttatímanum mátti lesa um bandarískar kvenréttindakonur og segir þar að þær boði 4. bylgju feminisma.
„Mótmælin [sem þær boða til í dag] eru viðbragð við kapítalisma og nýfrjálshyggju og viðbragð við femínisma sem þróaðist á tímum nýfrjálshyggjunnar og hvatti konur áfram í keppni um forstjórastóla frekar en samstöðu gegn ofríki fyrirtækja og hnattvæðingu.“
Það er þó mikilvægt að mínu mati að konur keppist um „forstjórastóla“ því hver einasta kona (og helst fjöldi kvenna) sem tekur sér sess þar sem áður voru eingöngu karlar á fleti fyrir, er annarsvegar mikilvæg fyrirmynd (að konur geti allt) og sýnir einnig körlum að sú hugsun sé úrelt að þeir einir geti og megi stjórna heiminum. Að því sögðu stend ég auðvitað líka með „verkakonum og konum í þjónustu- og umönnunarstörfum, konum í engum störfum og konunum sem gátu aldrei tekið þátt í rússíbanareiðinni um best launaða starfið“.

Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu (margir karlmenn sjá rautt þegar þeir heyra nafn hennar og starfsheiti og sitja um að níða niður allt sem hún segir) bendir á að:
„Launamunur kynjanna haggast lítið (hvað sem hver segir) en hann felst ekki aðeins í því að fólki sem vinnur jafn verðmæt störf sé mismunað eftir kyni heldur einnig í því hvernig störf eru metin. Þau störf sem fluttust út af heimilunum endur fyrir löngu eru enn metin til færri fiska en þau sem t.d. tengjast vélum að ekki sé nú talað um peninga. Verðmætamat samfélagsins elur á launamisrétti.“

Af því tilefni er ágætt að rifja upp gamlan pistil sem Erla Björg Gunnarsdóttur skrifaði um móður sína sjúkraliðann. Þá var verkfall sjúkraliða (og annarra heilbrigðisstétta) í uppsiglingu, en í pistlinum eru talin upp ýmis verk móður hennar:
„Í fjörutíu ár hefur mamma mín farið í vinnuna á kvöldin og á nóttinni. Um helgar og á páskunum. Á afmælinu mínu og þegar það er opið hús í skólanum. Við höfum haldið jól á öllum tímum og stundum fengið okkur snarl á miðnætti. Þegar mamma kemur heim úr vinnunni.

Í vinnunni hjálpar hún alls konar fólki. Sem er veikt og hrætt. Ráðherrum og kennurum. Ógæfufólki og óperusöngvurum. Hún hjálpar þeim í föt og á klósettið. Að borða og þvo sér. Hlustar á áhyggjur þeirra. Klappar á öxlina og gerir grín til að létta lundina. Hún hughreystir áhyggjufulla aðstandendur. Segist ætla að hugsa vel um fólkið þeirra. Og hún breiðir yfir þá sem tapa baráttunni.“
Það eru svona konur sem við eigum að heiðra. Bæði með hærri launum og mikilli virðingu.

FÓSTUREYÐINGAR/ÞUNGUNARROF

Nefnd sem unnið hefur unnið að heildarendurskoðun á lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir hefur komið með margar tillögur um breytingar á lögunum, og m.a. lagt til að ekki þurfi lengur tveir fagaðilar að gera greinargerð til að heimila fóstureyðingar. Reyndar vill nefndin ekki lengur tala um fóstureyðingu heldur nota orðið þungunarrof.

Ítarlegri upptalningu og skýringar á tillögum nefndarinnar má lesa hér, og fagna innilega á meðan.

___

* Orðrétt samantekt en mikið niðursoðin úr fjórum pistlum (1, 2, 3, 4) beggja ritstjóra Kjarnans, Þórðar Snæs Júlíussonar og Þórunnar Elísabetar Kjartansdóttur.

Eldri pistlar sem birtir hafa verið á blogginu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna:
2008, 2010, 2011, 2013,2014, 2015.

Efnisorð: , , , , , , , , , ,