laugardagur, mars 11, 2017

Fyrir fiskana

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las um átakið „Lyfjaskil-taktu til“ (sem lauk reyndar í gær) þar sem Lyfjastofnun hvetur fólk til að skila ónotuðum lyfjum í apótek, að ekki alls fyrir löngu var mér verkjapilla þar sem ég var gestkomandi og kvartaði yfir hausverk. Þegar ég afþakkaði fór gestgjafinn að skoða betur á pakkningarnar og sá þá að verkjatöflurnar voru næstum runnar út og sagði sisvona að þetta yrði sennilega ekki notað fyrir þann tíma og tilkynnti að hann myndi bara sturta þessu í klósettið. Ég bað hann að gera það ekki og minnti hann á fiskana í sjónum sem fengju líklega fullmikið af lyfjum nú þegar. Og nú sé ég að Lyfjastofnun segir einmitt um slíka óábyrga förgun: „Það eru t.d. hormónalyf sem að hafa haft áhrif á þroska kynfæra í fiskum og rannsóknir hafa sýnt fram á þetta oft og víða.“

Átakið um lyfjaskil snýr ekki síst að öryggi í meðferð lyfja (svo börn komist ekki í þau) en það er líka mikilvægt að koma því á framfæri að apótek taka við lyfjum til eyðingar. Líklega er aðalástæða þess að fólk hendir lyfjunum í ruslið eða sturtar þeim í klósettið einfaldlega sú að það hefur ekki verið almenn vitneskja að apótekin taki við þeim.

Við mættum örugglega öll taka okkur á með þetta. Það er stutt síðan ég byrjaði að skila lyfjum og tómum lyfjapakkningum í apótek; hingað til hef ég alltaf hent þeim í ruslið — en reyndar aldrei í vaskinn eða klósettið. Fiskarnir sko.



Efnisorð: