miðvikudagur, mars 22, 2017

Fátæktarumræðan

Útvarpsþáttaröð Mikaels Torfasonar um fátækt er ekki hálfnuð en hefur nú þegar skapað mikla umræðu, sem því miður snýst meira um skoðanir þingmanna og ráðherra á þáttastjórnandanum og hvernig þeim líður undir skömmum hans heldur en hvernig eigi að taka á efnahagslegri og félagslegri mismunun. Í útvarpsþáttunum (sem nálgast má í Sarpinum og á hlaðvarpinu) ræðir Mikael við fátækt fólk um hvernig það varð fátækt og hvernig það sé að lifa við fátækt. Sumir viðmælenda hans eru í láglaunastörfum, einhverjir á bótum, sumir í félagslegu húsnæði, aðrir á almennum leigumarkaði.*

Egill Helgason bauð Mikael í Silfrið á sunnudaginn en fyrir í settinu sátu Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur, Gunnar Smári ritstjóri Fréttatímans, og Bjarkey Olsen þingmaður Vinstri grænna, en Jón Steindór Valdimarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og nú þingmaður Viðreisnar hvarf af vettvangi til að rýma fyrir Mikael. Umræðan hafði snúist um húsnæðismál en Jón Steindór var mjög á skjön við aðra, vildi ekki „félagsvæða allt kerfið“ (þ.e. félagslega uppbyggingu húsnæðis), fannst við hafa það „býsna gott“ og vildi tala um upptöku evrunnar (drepa málinu á dreif) meðan hin þrjú höfðu haldið uppi skynsamlegum málflutningi: Gunnar Smári ræddi m.a. fátækt; Bjarkey talaði fyrir mannsæmandi húsnæði og algildri hönnun; og Ragnar var með ágætar pælingar um kverktaka annarsvegar og viðlagasjóðshús hinsvegar auk þess að mæla með norrænu velferðarkerfi og blönduðu hagkerfi.

Þegar þeirri annars ágætu umræðu (að undanskildu öllu því sem Jón Steindór sagði) lauk var Jóni Steindóri skipt út fyrir Mikael Torfason. Sá síðarnefndi var greinilega snöggreiður yfir ummælum Jóns og fannst greinilega óþarfi að bjóða honum í þáttinn. Síðan brast á með ræðu svo enginn annar komst að (ekki er ljóst hvort Egill ætlaðist til að samræður héldu áfram eða hvort Mikael var eingöngu kominn til að kynna þáttinn) enda lá Mikael mikið á hjarta. Hann skammaðist tildæmis útí ríkisstjórnina, réttilega:
Mikael var mjög harðorður í garð ríkisstjórnarinnar, sem hann kallaði „ríkisstjórn atvinnulífsins“, og þá sérstaklega Þorsteins Víglundssonar, félagsmála- og jafnréttisráðherra. „Hann vill engin lög á leigufélög. Vegna þess að rétturinn til að græða á fátæku fólki er svo ríkur. Það er eignarréttur kvótakóngsins, sem græddi tvö þúsund milljónir í fyrra á því að leigja fátæku fólki sem hefur ekki efni á að kaupa sér íbúð,“ sagði Mikael. „Íslenskir kjósendur eiga líka bara að skammast sín, fyrir að kjósa verstu ríkisstjórn sem við höfum kosið.“ (úr frétt á rúv.is)
Líklega vegna þess að Mikael skammaðist bæði útí Þorstein Víglundsson félagsmálaráðherra og Jón Steindór sárnaði launuðum stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar enn meir og í kjölfar þáttarins hrökk Nichole Mosty í vörn (einsog þegar hún varði Bjarna Ben eftir að hann hafði sjálfur játað í skýrslufeluleiksmálinu) og talaði einsog hinir fátæku viðmælendur Mikaels í útvarpsþáttunum væru ekki eins illa staddir og þeir vildu vera láta (ég lýsti vanþóknun minni á Nichole í síðasta pistli og náði ekki að hækka í áliti hjá mér við þessi viðbrögð hennar). Pawel Bartoszek skammaðist líka útí Mikael og félagsmálaráðherrann tók einnig þátt í að skjóta sendiboðann (meira um það síðar), í stað þess að leggjast yfir málefni fátæks fólks eða lofa bót og betrun. Hið síðarnefnda er sennilega óþarfa bjartsýni, Stundin bendir á að ekki er stakt orð um fátækt í stjórnarsáttmálanum.

Fátækt er semsagt komin á dagskrá, enda þótt flestir vilji heldur einbeita sér að sendiboðanum, en í þarsíðasta pistli hér á blogginu var einmitt meðal annars rætt um fátækt og hér hefur einnig verið rætt um og vísað í ótal greinar Björgvins Guðmundssonar um bág kjör aldraðra. Mikael Torfason er heldur ekki fyrsti fjölmiðlamaðurinn til að fjalla um fátækt frá ýmsum sjónarhornum (ekki að ég vilji vanþakka framtak hans). Fréttatíminn hefur t.a.m. mikið skrifað um málefnið. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifaði leiðara síðastliðið sumar um „gamla bitra konu“ sem missti vinnuna og getur ekki framfleytt sér á lífeyrisgreiðslum, „þrátt fyrir að hafa greitt í sjóðinn lungann úr starfsævinni“. Í nóvember síðastliðnum fjölluðu fjölmiðlar um skýrslu Rauða krossins (sem olli nokkru uppþoti og skýrsluskrifarinn mikið skammaður; kunnuglegt stef) þar sem fram kom að hundruð barna í Reykjavík búa við fátækt og bága félagslega stöðu.

Breiðholt (þar tekur Mikael útvarpsviðtöl sín) var sérstaklega nefnt í skýrslu Rauða krossins en í framhaldinu var gagnrýnt að hverfið væri „talað niður“. Bent var á að margt er vel gert af hálfu borgaryfirvalda í Breiðholti og sérstaklega rætt um fjölskylduverkefnið Tinnu sem er úrræði fyrir unga einstæða foreldra sem hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu til lengri tíma (við þetta verkefni ku Nichole Mostly hafa unnið áður). Og auðvitað er það ekki þannig að Breiðholtið sé slæmt þótt þar búi hæst hlutfall fátækra.**

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra kvartaði semsagt undan Mikael og þá sérstaklega því að:
„Mátti helst á máli hans skilja að ríkisstjórn sú sem tók við fyrir tveimur mánuðum síðan bæri ein ábyrgð á því velferðarkerfi sem hér hefur verið byggt upp á undanförnum áratugum.“
Þarna tekst Þorsteini að skauta framhjá því að á undanförnum áratugum hafa nánast alltaf (nema á versta krepputímanum) verið hægri stjórnir, og þær hafa verið afar áhugalausar um að bæta kjör láglaunafólks og bótaþega. En Þorsteinn er trúr hugmyndaheimi sinnar últra-hægri ríkisstjórnar og getur ekki fest hugann lengi við fátækt þótt hún sé umræðuefnið, og þessvegna fer hann með möntruna sem sífellt heyrist úr þeim herbúðum um að:
„kaupmáttur hafi aukist mikið á undanförnum árum, launajöfnuður sé mikill hér á landi, atvinnuleysi lítið og að skuldir heimilanna hafi lækkað verulega."***
Hann sleppir auðvitað þessu með gríðarlega hækkun húsaleigu, og matarskattinn sem síðasta ríkisstjórn hækkaði jafnframt því sem hún lækkaði bætur.

Nei, þá líst mér betur á hvatningu Katrínar Jakobsdóttur formanns Vinstri grænna sem skrifaði pistil undir yfirskriftinni: Gætum við sameinast gegn fátækt? Þar segir hún:
„Fátækt er birtingarmynd kerfis sem ýtir undir misskiptingu. Kerfis þar sem tölurnar sýna svart á hvítu að sköttum hefur verið létt af hinum tekjuhæstu en skattbyrði hinna tekjulægri hefur þyngst á síðustu árum. Kerfis þar sem félagslegt húsnæði hefur verið sett á markað með þeim afleiðingum að venjulegt fólk, hvað þá fátækt fólk, á í vandræðum með að koma sér þaki yfir höfuðið sem samt eru skilgreind mannréttindi. Kerfis þar sem greiðsluþátttaka sjúklinga hefur aukist á undanförnum árum og áratugum og er nú hærri hér en til að mynda í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Kerfis þar sem fullorðnu fólki yfir 25 ára aldri er nú gert erfiðara fyrir að sækja sér menntun.

Fátækt er blettur á ríku samfélagi eins og Íslandi.Stjórnvöld ættu að hafa skýra sýn og aðgerðaáætlun um útrýmingu hennar og vera reiðubúin að sækja þá fjármuni sem þarf til að styrkja velferðarkerfið og bótakerfið – við vitum öll að þeir eru til.“

Leiðari Gunnars Smára, sem hann skrifaði í nóvember eftir útkomu skýrslu Rauða krossins, er of langur til að birta hér í heilu lagi, en hann er sögulegur og greinandi að hætti hússins, lausnamiðaður og hvass: í stuttu máli sagt alveg frábær.
„Við höfum ekki um langan tíma viljað ræða um fátækt sem afleiðingu félagslegrar stöðu. Það var gert af tillitssemi við hina auðugu svo þeir gætu lifað í þeirri trú að auður þeirra væri afleiðing persónulegra yfirburða þeirra. Og ef hinn ríki er ríkur fyrir eigin verðleika, en ekki vegna þess að samfélagsgerðin færir til hans auð; þá er hinn fátæki ekki fátækur vegna veikrar félagslegrar stöðu heldur vegna persónulegra veikleika; hann er ekki nógu duglegur, útsjónarsamur og fylginn sér.“
Þarna kristallast munurinn á þeim sem eru einstaklingshyggjusinnar (sem ég kalla yfirleitt frjálshyggjumenn í stíl við áherslur þeirra á frelsi markaðarins) og svo félagslega þenkjandi fólks sem lítur til samfélagsgerðarinnar, og vill þá helst bæta hana til hagsbóta fyrir alla í samfélaginu, ekki síst þau verst settu. Við í seinni hópnum höfnum því að auðmenn séu bara svona flinkir og að fátækt fólk sé bara aumingjar, en lítum svo á að kökunni sé vitlaust skipt.

Og nei, þjóðarkökunni er ekki best skipt þegar kökuskreytingarmeistarinn kemst með puttana í hana.


___
* Leigumarkaðurinn, undir stjórn hrægammaleigufélaga á borð við Gamma og Heimavelli (sjá orð Mikaels um kvótakónga), þrautpínir leigjendur svo ráðstöfunartekjur fólks fara nánast allar í húsnæðiskostnað og aðrar nauðþurftir sitja jafnvel á hakanum.

** Fréttatíminn hefur fjallað um Efra-Breiðholt og fólkið sem þar býr, og í viðtali Fréttablaðsins við Önnu Láru Orlowska fegurðardrottingu Íslands ber stöðu hverfisins á góma.
„[Anna Lára] segir Fellahverfið fyrst og fremst fjölskylduhverfi. Það eigi ekki skilið það orðspor sem það hefur fengið á sig í gegnum tíðina. Þar sé ekki meira um afbrot og ofbeldi en í öðrum hverfum borgarinnar þótt margir íbúa séu af öðrum uppruna og hafi ekki jafnmikið á milli handanna og aðrir. „Ég upplifi þetta hverfi sem öruggt hverfi. Hér er mikið af fjölskyldufólki og hér búa afar mörg börn. Því er alltaf slegið upp í fréttum þegar það kemur eitthvað fyrir í Breiðholtinu en á meðan er lítið fjallað um það góða og uppbyggilega sem gerist hér,“ bendir hún á. „Hér í grenndinni er öll þjónusta til staðar, skólar, verslanir og stofnanir. Þetta er gott hverfi og það mætti oftar veita því góða athygli.“


*** Ég segi eins og Þórður Snær í hlaðvarpsþættinum Kvikunni: „Mikael Torfason, af öllum mönnum, er orðinn Hrói höttur fátæka fólksins á Íslandi, mætir í Silfrið og heldur eldmessu um fátækt og gott og vel, málið er komið á dagskrá. Á sama tíma er alltaf sama jarmið: „Fátækt? Á Íslandi? Sjáið jöfnuðinn, sjáið jöfnuðinn í tekjunum! Sjáið skuldastöðuna, hvað hún hefur batnað skuldastaða heimila, fyrirtækja!“

Efnisorð: , , , , , , , , ,