mánudagur, mars 27, 2017

Mývatn

Um árabil hefur allt slæmt verið að frétta af Mývatni. Lífríki vatnsins hefur verið ógnað í áratugi af mannavöldum. Að vísu er deilt um hve mikinn skaða mannana verk gera og hvað sé hægt að flokka undir náttúrulegar sveiflur eða önnur uppátæki náttúrunnar. En okkur ber að láta náttúruna njóta vafans, og hreinsa upp eftir okkur það sem er sannarlega okkar, og forðast eftir megni að gera illt verra. En í staðinn hefur gistirýmum fjölgað um á annað hundrað herbergi við Mývatn.

Lífríki Mývatns undir miklu álagi, eins og segir í frétt Svavars Hávarðssonar síðastliðið vor:
- Óhemju magn blábaktería í Mývatni tvö síðastliðin sumur er skýrt merki ofauðgunar í vatninu af mannavöldum.
- Niðurstöður mælinga í fyrrasumar sýndu tólffalt það magn sem talið er óhóflegt í leiðbeiningum WHO.
- Engum vafa er talið undirorpið að athafnir manna hafi aukið bakteríuvöxtinn svo óhóflega með losun næringarefna í Mývatn – og þar komi meðal annars til frárennsli frá þéttbýli, áburðargjöf og iðnrekstri.
- Kúluskítur sem er friðlýst tegund virðist vera horfinn úr Mývatni.
- Bleikja er á undanhaldi á svæðinu – stofninn er svo gott sem horfinn.
-Hornsílastofn Mývatns mældist afar lítill í fyrrasumar.
- Mikill ferðamannastraumur setur aukaálag á vistkerfi svæðisins bæði hvað varðar fráveitur og ágang á náttúruverndarsvæði.*

Í fimm ár hefur ár hefur Umhverfisstofnun hvatt til þess að gripið sé strax til aðgerða, en ekkert hefur verið að gert. Á síðasta ári kom í ljós að frárennslismál voru til skammar, fráveituvatn og skólp látið gossa útí vatnið eins og enginn væri morgundagurinn. En vegna þess að ferðamenn sækja Mývatn heim í stórum stíl þá eru helstu framkvæmdir við vatnið ekki þær að laga frárennslismál heldur fleiri og stærri hótel.

Jafnvel þótt búið sé að skilgreina hve nálægt vatninu má byggja – ekki nær bakkanum en tvö hundruð metra — heimtuðu Icelandair Hotels sem eiga hótel Reykjahlíð sem stendur nær vatninu en það, að fá að byggja meira, stærra. Það átti að sjöfalda gistiplássið þarna alveg við vatnsbakkann. Sveitarstjórnin var tilbúin að breyta aðalskipulaginu til að koma til móts við þessar fyrirætlanir (reyndar var sveitarstjórnin klofin í málinu) og lóðaeigendur sitthvoru megin við hótelið voru líka alveg til í að leyfa að aukið byggingamagn á vatnsbakkanum en undirskriftalisti íbúa Mývatnssveitar** og úrskurður Umhverfisstofnunar komu í veg fyrir það. Það að hóteleigendur hafi ætlað að leggja í þessa framkvæmd ber auðvitað fyrst og fremst gullgrafaræði ferðaþjónustunnar vitni, en erfiðara er að átta sig á hvað sveitarstjórn og landeigendum gekk til.

Aðeins eitt hótel á svæðinu er sagt vera með fullkomna skólphreinsun – Hótel Laxá, nýjasta hótelið við vatnið (það er reyndar hótelið sem fjallað var um í Kastljósi þar sem afrennslismál hótelsins sérstaklega rædd en þau eru í algjörum ólestri og svindlað á reglugerð):
„Öll önnur hótel og önnur gistiaðstaða uppfyllir ekki þessi skilyrði, og að óbreyttu verður ekki annað séð en þau verði að leggja niður starfsemi sína. Gróft sagt er bara eitt löglegt gistiúrræði í Mývatnssveit,“
— og það er semsagt ekki Hótel Reykjahlíð sem uppfyllir kröfur um fráveitu, en samt átti að leyfa eigendum þess að stækka hótelið.

Í Kastljósþætti tók Helgi Seljan viðtöl við mann og annan og kom þá eitt og annað uppúr dúrnum, svosem einsog hagsmunaárekstrar oddvita Skútustaðahrepps sem einnig er hóteleigandi, og er síst með sín mál í betri farvegi en önnur hótel á svæðinu.*** Kannski skýrir það eitthvað linkindina gagnvart stækkunaráformum og nýjum hótelbyggingum sem fara á svig við reglugerðir eða hunsa þær alveg.

Sif Sigmarsdóttir súmmeraði stöðu Mývatns upp svona:
„Síðustu mánuði hafa borist fregnir af bráðri hættu sem stafar að lífríki Mývatns. Skútustaðahreppur hefur unnið að því að setja upp hreinsistöð við vatnið til að takmarka mengun í fráveitu sem rennur í náttúruperluna. Svo virðist hins vegar sem sveitarfélagið ráði ekki fjárhagslega við verkið. Landvernd hefur því skorað á ríkisstjórnina að aðstoða Skútustaðahrepp við að koma fráveitumálum sveitarfélagsins í ásættanlegt horf svo koma megi í veg fyrir að lífríkið þurrkist út.

Ómar Ragnarsson skrifaði grein í Fréttablaðið í vikunni þar sem hann sendi út neyðarkall fyrir hönd lífríkisins í Mývatni. Þar varaði hann við „kyrkingu einstæðs og heimsfrægs lífríkis“ sem hann sagði komna vel á veg. Hætta er þó á að neyðarkalli Ómars verði ekki svarað. Í grein sinni rifjaði hann upp að fyrir fjórum árum hefði hann sent út sams konar neyðarkall í sama blaði. Hann spyr: „Heyrir enginn? Hlustar enginn?“

Flestar þær greinar sem hér hefur verið vitnað til eru úr greinaflokki Svavars Hávarðssonar um Mývatn (hann var fyrir vikið tilnefndur til blaðamannaverðlauna) og voru flestar skrifaðar í maí í fyrra (t.d. þessi sem heitir „Staðreyndir öskra á aðgerðir við Mývatn“). Þá var stutt í að þáverandi umhverfisráðherra skilaði skýrslu um „viðbrögð stjórnvalda við þeim djúpstæða vanda sem kominn er upp við Mývatn“, í sömu frétt segir að á þinginu hafi komið fram
„þverpólitískur vilji til þess að stjórnvöld brygðust tafarlaust við, og sú krafa að tafarlaust kæmi til fjárveiting til handa Skútustaðahreppi til að hefja umbætur á fráveitumálum sveitarfélagsins – einum af þeim þáttum sem mannshöndin getur sannarlega haft áhrif á í hinu flókna samspili sem sambúð manns og náttúru er við Mývatn.“
Magnús Helgason spurði í leiðara hvort sérlögin um Mývatn og Laxá væru ekki afdráttarlaus um að stjórnvöldum beri einfaldlega skylda til að bregðast við strax. Það var í maí í fyrra.

Í dag segir svo frá því að enginn þeirra þriggja ráðherra — Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra, Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og Jón Gunnarsson ráðherra sveitarstjórnarmála — sem hafa völdin í hendi sér gagnvart fráveitumálum við Mývatn, hafi tekið af skarið. Ekkert fé hefur verið lagt til umbótanna en Skútustaðahreppur ræður ekki við það verkefni einsamalt. Það er því ekkert að gerast sem bætir ástandið. Og í sumar er von á fleiri túristum og meira skólpi frá hótelunum við Mývatn.

Pistill Sifjar, sem vitnað var til hér að ofan, endar svona:
„Það er rangt hjá vísindamönnunum í Oxford að helstu hættur sem stafa að mannkyninu séu vélmenni, kjarnorkusprengjur eða farsóttir. Mesta ógn sem fyrirfinnst á jörðinni nú um stundir er okkar eigið andvaraleysi. Spyrjið bara Ómar Ragnarsson og lífríkið í Mývatni.“

___

* Úr frétt Svavars Hávarðssonar 13. maí 2016: „Fráveitumál í Mývatnssveit og ofauðgunarástand í Mývatni hefur verið á dagskrá Heilbrigðiseftirlits Norðurlands Eystra (HNE) um árabil. Í fundargerð heilbrigðisnefndar HNE frá 7. maí 2014 er að finna ályktun sem er að stórum hluta sú sama og birtist á þriðjudag. Var hún skrifuð eftir málþing um þann vanda sem við er að glíma, en áður en óhemju magn blábaktería mældist í Mývatni tvö síðastliðin sumur, þar sem niðurstöður mælinga sýndu tólffalt það magn sem talið er óhóflega mikið í leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
„Í erindi Árna Einarssonar líffræðings kom fram að mjög stór breyting hefur orðið í Mývatni undanfarin ár; þörungamotta á botni vatnsins er algerlega horfin; líklega vegna næringarefnamengunar af mannavöldum. Ástæða þessa er líklega að það vantar birtu í vatnið; bakteríur í vatninu grugga það og skyggja þannig á botninn […] er nauðsynlegt að byggja vönduð hreinsivirki fyrir skólp fyrir þéttbýlið í Reykjahlíð, Voga og Skútustaði og víðar þar sem byggð er þétt á vatnasvæði Mývatns.“

** Á svipuðum tíma og íbúar við Mývatn söfnuðu undirskriftum gekkst Landvernd fyrir undirskriftasöfnun þar sem farið var fram á að stjórn Landsvirkjunar stöðvaði framkvæmdir við fyrirhugaða Bjarnarflagsvirkjun og vinni nýtt mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar.

Andri Snær skrifaði þetta í mars 2013:
„Hvernig eru áhyggjur manna af borunum Landsvirkjunar of nærri Mývatni, áhrifum á ferksvatnsstrauma inn í vatnið, áhrif á grunn lífríkisins sem gerir Mývatn að einhverju sérstæðasta vatni í veröldinni? Hvernig haga menn sér nærri slíkri perlu – er von á næstu dánartilkynningu eftir 10 ár: Mývatn er dautt?

Nú liggur fyrir risavaxin meðgjöf af hálfu ríkisins til Kísilverksmiðju á Bakka. Hún þarf aðeins 10% af orku sem álver þyrfti á að halda en samt sem áður þarf að taka gríðarlega áhættu nærri bökkum Mývatns, til að ná í þessa litlu orku.“

*** Kastljósþáttinn má sjá hér, og hér má lesa uppskrifaðan texta hans. Daginn eftir kom forstjóri Umhverfisstofnunar í Kastljós. Einnig er vert að skoða aðrar fréttir af Mývatni á ruv.is. Þess má geta að sveitarstjórnarmaður í Skútustaðahreppi var mjög óánægður með Kastljósþáttinn, og gerði við hann miklar athugasemdir.

Efnisorð: ,