sunnudagur, apríl 09, 2017

Skál fyrir fermingarbarninu!

Þetta mun vera dagur sem þjóðkirkjan notar til ferminga. 13-14 ára börn eru látin 'staðfesta skírnina' (sáttmáli sem var gerður fyrir þeirra hönd þegar þau voru ómálga börn) og þeim lofað gjöfum og veislu í staðinn. Eða sko, foreldrarnir lofa og uppfylla. Kirkjan lofar hinsvegar eilífu lífi í stuði með guði. Allsendis óvíst um efndir.

Aldrei slíku vant ætla ég samt ekki að gagnrýna kirkjuna (það er samt alltaf ástæða til að gagnrýna kirkjuna) heldur aðeins ræða þetta með veisluna.

Sem barn las ég í Æskunni (sem Stórstúka Íslands gaf út) að áfengi hefði verið haft um hönd í fermingarveislum sem vakti mér nokkra furðu og spurði foreldra mína sem sögðu mér að áður fyrr hefði þetta verið algengt en það hefði verið barist gegn þessum ósið (í dag yrði það kallað vitundarvakning) og nú heyrði áfengisdrykkja í veislum til heiðurs óhörðuðum unglingum sögunni til.

Rannveig Guðmundsdóttir þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar ræddi þetta í grein í Mogganum árið 2000.
„Fyrir nokkrum árum var skorin upp herör gegn áfengi í fermingarveislum.
Mörgum kom á óvart að það þætti ástæða til að hafa uppi slík varnaðarorð, aðrir þekktu til þess að áfengi væri haft um hönd bæði við fermingu og skírn. Það virðist sem sú herferð hafi borið árangur hvað fermingarveislurnar varðar því það varð talsverð umræða í þjóðfélaginu um þessi mál. Fullorðin kona sagði frá því að hún hefði endað grátandi úti í skúr á fermingardaginn sinn meðan gleði annarra var í algleymingi inni. Síst hefur þetta fólk ætlað að særa fermingarbarnið á stóra deginum hennar. Þeir sem búnir eru að missa stjórn á neyslu sinni þola ekki einu sinni kampavínsglas hversu góð sem áformin eru“

En fyrir fáeinum vikum las ég umfjöllun á rúv.is um fermingar, og þar kom þetta fram.
„Marentza Poulsen veitingamaður, sem annast veisluþjónustu fyrir fermingar, segir að margt hafi þó breyst. „Ég held að fólk sé farið að einfalda þetta og það hefur ekki eins mikið fyrir þessu og ekki eins mikið stress í kringum þetta þannig að það er ekki eins mikið fyrir þessu haft.“

Fermingarveislurnar séu orðnar stærri og fjölmennari, en minni áhersla lögð á umgjörðina. Veislan sé meira eins og ættarmót.

Æ fleiri bjóða upp á áfengi í veislunni. Þá er kökuhlaðborðið á hröðu undanhaldi og margir kjósa að hafa standandi veislu. „Þar sem er boðið þá upp á fordrykk - nú erum við ekkert endilega að tala um áfengi, en það er líka farið að veita áfengi meira en var gert fyrir 10 árum síðan.“

Er þetta í rauninni orðið algengt eða eru svona yfirlýsingar hluti af sókn áfengisiðnaðarins? Eða hverjum öðrum en því batteríi datt í hug að endurvekja þennan gamla ósið?

Það væri líka áhugavert að vita hvaða fólk er það sem býður vín í fermingarveislum. Alkóhólseraðir foreldrar, frjálshyggjumenn? Eða er það fólk sem trúir áróðrinum sem dynur úr öllum áttum að áfengi sé eðlileg neysluvara (sem veitingamaðurinn tekur þátt í: hún er að boða að þetta sé mikið tekið) og vill tolla í tískunni og hafa áfengi við hvert tækifæri?

Er þetta fólk meðvitað eða ómeðvitað að taka þátt í einhverri herferð til að efla „áfengismenningu“ og normalísera áfengi? Það þarf auðvitað að koma unglingunum í skilning um að alltaf þurfi að hafa áfengi um hönd; þeir eru neytendur framtíðarinnar.

Fyrri kynslóðir fólks (sem í stórum stíl hafði hætt skólagöngu um fermingu og farið að vinna fyrir sér, jafnvel í erfiðisvinnu) litu svo á að með fermingunni væri unglingurinn kominn í fullorðinna manna tölu. Áfengisneysla þá eðlilegt framhald og um að gera að bjóða fermingarbarninu áfengi til að vígja það í heim fullorðinna. En þessum fyrri kynslóðum tókst þó að hætta að detta í það í fermingarveislum og bara yfirleitt að drekka áfengi í návist fermingarbarnsins á þessum degi hið minnsta. Og í áratugi hafa fermingarveislur verið lausar við áfengi.

Þeir foreldrar sem núna ferma börnin sín, og finnst eins og það gæti verið góð hugmynd að veita áfengi í fermingarveislu barnsins síns, ættu að hugsa sig vandlega um. Og hætta snarlega við.


Efnisorð: , , , ,