mánudagur, maí 01, 2017

1. maí 2017

Á baráttudegi verkalýðsins hugsum við um:

Misskiptingu auðs
Bæði á heimsvísu og á Íslandi safnast auðurinn á æ færri hendur. Þeir ríku eiga allt, og nota auðinn til að sanka meira að sér; eiga fyrirtækin sem við verslum við, fjölmiðlana sem við lesum, tryggingafélögin, olíufélögin, húsnæðið — og ef þeir fá sínu framgengt spítalana líka og vegina. Á meðan situr sí stækkandi hópur láglaunafólks, öryrkja og aldraðra neðst á botninum og rétt skrimtir. Á vart ofan í sig og á hvað þá fyrir lyfjum eða tannlæknaheimsókn. Þeir ríku heimta lægri skatta eða flytja fjármuni úr landi, þá er enn minna til samneyslunnar fyrir hina, og þar af leiðandi minna til að bæta félagslega stöðu þeirra fátækustu.

Húsnæðismál
Staðan í húsnæðismálum er slík að annarsvegar eru alltof fáar íbúðir til sölu eða leigu, og hinsvegar sú að söluverð á íbúðum og húsaleiga hefur hækkað langt umfram getu flestra þeirra sem vilja kaupa eða leigja. Það var óráð að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið, nú sést best hvers er að sakna.

Það þarf að setja bönd á leigufélög hrægamma sem blóðmjólka leigjendur og keyra upp húsnæðisverð. Hemja útleigu til ferðamanna (þeir hljóta að geta gist á hótelum, til þess eru þau). Ríki og bær þurfa einnig að hefja uppbyggingu húsnæðis þar sem allir — en þú sérstaklega þeir efnaminnstu — eiga möguleika á mannsæmandi húsnæði til frambúðar.

Atvinnulausa, öryrkja og aldraða
Fólk sem af einhverjum ástæðum er atvinnulaust þarf samt sem áður að borga húsaleigu eða afborganir af húsnæði. Það þarf að borða, greiða rafmagn og hita, halda jól, komast milli staða. Atvinnuleysisbætur þurfa að gera ráð fyrir að fólk lifi mannsæmandi lífi. Sama gildir um ellilífeyri og örorkubætur.

En það er ekki nóg að bæta fjárhag þessara hópa heldur eiga þeir skilið að talað sé um þá af virðingu en ekki fyrirlitningu. Það ætti ekki að vera áfellisdómur yfir manneskju að missa heilsu eða vinnu, ekki frekar en að eldast.

Vinnuþrælkun
Það verður sífellt augljósara að margir fyrirtækjaeigendur, hvort sem þeir eru í veitingarekstri, með hótel eða reisa hús (og eflaust margir fleiri) hika ekki við að ráða fólk til starfa og borga þeim langt undir taxta, láta það vinna án afláts, skila ekki opinberum greiðslum af laununum þeirra. Ekki fær fólkið greitt í veikindafríi og ekkert orlof. Starfsfólkið þarf jafnvel að búa í húsnæði atvinnurekandans, og þá kannski við ömurlegar aðstæður og húsaleigan dregin af kaupinu. Uppsagnir fara fram fyrirvaralaust og þá sérstaklega ef fólkið vogar sér að kvarta eða leita til stéttarfélags. Í sumum tilfellum er um hreint mansal að ræða.

Þetta gera sum fyrirtækin aftur og aftur, því þetta er ekki óvart, heldur líta þau á fólk sem einnota vörur sem má henda og fá nýtt í staðinn. Það eru semsagt til fjölda fyrirtækja, stórra og smárra sem markvisst níðast á fólki í gróðaskyni.

Launamismunun
Það er vitað mál, enda þótt einstaka fulltrúar karlveldisins þræti fyrir það, að konur fá almennt talað minni laun en karlar. Því þarf sannarlega að breyta og vonandi verður jafnlaunavottun hjá hinu opinbera skref í þá átt.

Annar launamunur er svo einnig kynbundinn og það er sá sem metur hefðbundin kvennastörf minna en hefðbundin karlastörf. Leikskólakennarar og sjúkraliðar eru í umönnunarstörfum og það er verðlagt minna en að störf í fjármálaheiminum.

Svo er það líka launamunurinn milli þeirra sem þurfa að beita fyrir sig verkalýðsfélögum til að hækka kaupið, þeirra sem geta fengið kauphækkun með því að 'vera nógu fylgin sér' í viðræðum við yfirmanninn, og svo aftur þeirra sem fá launin sín skömmtuð ríflega hjá mannúðarsamtökunum sem kallast Kjararáð.

Frjálshyggju
Hugmyndafræðina sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur (með dyggri aðstoð meðreiðarsveina í ríkisstjórnum allt frá forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar) troðið uppá landsmenn. Það er samkvæmt þessari hugmyndafræði sem heilbrigðiskerfið og menntakerfið eru svelt og ríkiseignir eru seldar. Frjálshyggja boðar að markaðurinn eigi að ráða, og segir að heilbrigðisþjónusta og menntastofnanir eigi að vera einkarekin með hagnaði. Sama gildir um nánast alla innviði samfélagsins að undanskildu félagslega kerfinu því það hyglir að mati frjálshyggjunnar þeim sem ekkert eiga skilið og því á að leggja það niður. Frjálshyggja er fyrir þá sem geta og eiga; henni kemur ekki við hvað verður um hina.

Samstöðu
Góð vísa er aldrei of oft kveðin og kvæðið hans Martin Niemöller byrjar á þessu gamalkunna stefi: fyrst tóku þeir sósíalistana en ég sagði ekkert því ég var ekki sósíalisti. Þið munið hvernig kvæðið endar. Við verðum hvert og eitt að reyna að hafa áhrif á samfélag okkar, ekki síst varðandi þau málefni sem snerta okkur ekki beint.

Við eigum að láta húsnæðisskort annarra skipta okkur máli, líka lág laun og lélegan lífeyri.

Við eigum ekki að láta málefni öryrkja og aldraðra okkur í léttu rúmi liggja bara vegna þess að við erum heil heilsu og bráðung enn. Röðin kemur að okkur.

Við eigum í fyrsta lagi að kjósa flokka sem hafa hag almennings í fyrirrúmi (þ.m.t. ungt fólk, aldrað fólk, öryrkja, innflytjendur) en þjóna ekki fyrirtækjunum eða auðugasta fólkinu. Við eigum að mæta í kröfugöngur og á mótmæli. Safna undirskriftum gegn óréttlæti. Við eigum líka að sýna samstöðu okkar í ræðu og riti. Tala máli bótaþega, ræða endurreisn verkamannabústaðakerfisins, fordæma vinnumansal og misskiptingu auðs. Það þarf (vonandi) ekki byltingu (hvað þá blóðuga) því við höfum margar aðrar leiðir til að berjast fyrir því að bæta hag fjöldans og þá um leið þeirra sem minnst mega sín.

Um þetta ættum við að hugsa og fyrir þessu ættum við að berjast.



Efnisorð: , , , , , , , , , ,