mánudagur, maí 22, 2017

Staða jafnréttismála á Íslandi á vordögum 2017

Nýjasta nýttið hjá ríkisstjórninni er að breyta brennivín-í-búðir frumvarpinu snarlega á síðustu dögum þingsins og reyna að þvinga það í gegn; allt til að koma á bara einhverri einkasölu áfengis svo hægara verði að fullfremja verknaðinn síðar.

Markaðsviðhorfin blífa hjá ríkisstjórninni enda er hún hægrisinnaðasta ríkisstjórnin hingað til og hafa þó frjálshyggjuviðhorf einkennt aðrar ríkisstjórnir á undan þessari (fyrir utan þessa einu vinstristjórn, blessuð sé minning hennar). Afleiðingar frjálshyggjustefnunnar sjást meðal annars í stöðu heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og samgöngumálum, og viðhorf núverandi ríkisstjórnar birtast í fjármálaáætluninni sem sannarlega viðheldur þeirri stefnu að svelta, svelta og svelta allt sem hægt er — til þess að geta einkavætt það og grætt á því.

En ég ætlaði ekki að tala um það heldur stöðu jafnréttismála á tímum ríkisstjórnarinnar núverandi og fyrirrennara hennar sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð einnig að.

Ríkisstjórnin hefur fleiri karlráðherra en kvenráðherra. Ein ástæða þess er sú að Sjálfstæðisflokkurinn bauð fram karla í efstu sætum í næstum öllum kjördæmum. Bjarn Ben setur upp strákslega brosið og skreytir kökur í útlöndum og þar með sjálfan sig sem jafnréttisssinnaðan en rífur næstum jafn mikinn kjaft yfir að hafa brotið jafnréttislög og hann reifst við Jóhönnu; en finnst þó hann ekki eiga að segja af sér þótt hann hafi krafist þess af henni.

Dómarar sem stendur til að ráða við nýstofnaðan Landsrétt eru í yfirgnæfandi meirihluta (2/3) karlar. Dómsmálaráðherra finnst það í lagi því hún er á móti því „að líta sérstaklega til kynjasjónarmiða við skipan dómara“ enda er hún er uppteknari af að vera frjálshyggjumanneskja en hagsmunum kynsystra sinna. Það er óskandi að þingið hindri þessa ráðstöfun.

Frumvarp sem Brynjar Níelsson (dyggilega studdur af feministahatandi samtökum umgengnisforeldra) leggur fram gengur útá að fangelsa mæður í fimm ár — og svipta þær þannig samvistum við börn sín — ef þær hafa gerst uppvísar að því að svipta feður barnanna samvistum við þau. Þetta er einstaklega barnvænleg stefna: fyrst færðu ekki að sjá pabba þinn og svo færðu ekki að sjá mömmu þína; það köllum við réttlæti. Sembeturfer virðist „stjórnarandstaðan með VG í fararbroddi“ ætla að ná að koma í veg fyrir að þetta frumvarp verði að lögum (a.m.k. með þessu refsiákvæði), kannski vegna þeim er umhugað um að börnin verði ekki svipt því foreldrinu sem þau augljóslega hafa verið í meiri samvistum við, en hugsanlega líka vegna þess að þau sjá hefnigirnina og kvenhatrið skína af þessu baráttumáli Brynjars.

Í tíð vinstristjórnarinnar var kaup á vændi gert refsivert. Dómskerfið hefur afturámóti tekið eindregna afstöðu með vændiskaupendum og hlíft þeim við opinberum réttarhöldum og nafnbirtingu. Þegar stjórn Sigmundar Davíðs (úff, muniði?) tók við stjórnartaumunum og Bjarni Ben stýrði fjármálum og misgæfulegt Sjálfstæðisfólk stýrði og starfaði í Innanríkisráðuneytinu sáluga var dregið úr rannsóknum á vændiskaupum (á síðustu þremur árum aðeins níu mál). Auðvelt að réttlæta að skera það niður við trog þegar allar stofnanir eru sveltar hvorteðer.

Löggan segir: „Við þurfum að forgangsraða mannskapnum. Þar setjum við kynferðisbrot og brot gegn lífi og líkama efst í forgangsröðunina.“ Kynferðisbrotamál í forgangi (það liggur við að maður fari að hlæja) — er það ekki bara sagt til að geta réttlætt að gefa algjöran skít í vændiskaupamálin? Og eru vændismál ekki kynferðisbrotamál og brot gegn líkama? En jújú, löggæslan er fjársvelt, og þá má ekki splæsa of mikilli vinnu í mál sem snúa að konum.

Á meðan er staðan þannig að hér grasserar vændi sem aldrei fyrr, konur eru fluttar inn í tonnavís og seldar Íslendingum og ferðamönnum, og enginn skiptir sér af. Frelsi markaðarins — í boði frjálshyggjuríkisstjórnarinnar.

Lengi vel leit út fyrir að jafnt og þétt færðumst við nær jafnrétti. Með þessari ríkisstjórn er ólíklegt að við þokumst neitt framar.

Efnisorð: , , , , , , ,