fimmtudagur, maí 25, 2017

Lausnin á vanda Landspítalans

Nichole Leigh Mosty, formaður velferðarnefndar Alþingis, sakar forstjóra Landspítalans um að stunda „pólitíska baráttu“ og vill setja stjórn yfir Landspítalann svo orku fagfólks sé varið í annað en að „betla pening“ af fjárveitingarvaldinu, segir í frétt Stundarinnar.

Forstjóri Landspítalans eyðir eflaust allt of miklum tíma í að hamast í fjárveitingarvaldinu til þess eins að fá boðlegt rekstrarfé fyrir spítalann. Hugsanlega er það vel meint hjá Nichole að vilja létta af honum þessu stússi svo hann geti einbeitt sér að öðru því sem felst í starfi hans sem æðsti stjórnandi háskólasjúkrahúss, stærsta spítala landsins.

Eflaust væru líka forstöðumenn fleiri ríkisstofnana fegnir því að þurfa ekki sínkt og heilagt að réttlæta fjárþörf stofnana sinna og berjast gegn enn meiri niðurskurði. Ætlar Nichole að skipa sérstaka stjórn yfir allar þessar stofnanir til þess að hjálpa þeim að ná eyrum fjárveitingavaldsins?

Ætli það kosti ekki talsverð býsn af peningum að hafa svona stjórn til þess eins að vera milliliður um að „betla pening af fjárveitingarvaldinu“? Eða er stjórninni sem Nichole sér fyrir sér yfir spítalanum aðallega ætlað að þagga niður allt raus um hræðilegar afleiðingar ef ríkisstjórnin heldur áfram að svelta spítalann; slíta sambandið við fjölmiðla og fjárveitingavald.

Svo er kannski bara hægt að spara launakostnað spítalastjórnarinnar og bæta þess í stað verulega við upphæðina sem spítalanum er ætlaður á fjárlögum næstu árin. Það myndi minnka betlið verulega. Og sama mætti gera fyrir hinar ríkisstofnanirnar líka, takk.


Efnisorð: