fimmtudagur, júní 01, 2017

1. júní 2017

Í nótt var fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar samþykkt. Sveltistefna frjálshyggjuaflanna hefur verið lögfest. Það er uppskrift að áframhaldandi ójöfnuði í samfélaginu þar sem þeir verst settu varla skrimta, og einnig að erfiðum eða enn erfiðari rekstri opinberra stofnana.

Síðdegis í dag gerðist það svo að dómsmálaráðherra fékk samþykki stjórnarflokkanna fyrir að koma 'rétta fólkinu' í dómarastörf (engum sögum fer af því hvort Brynjar þurfti að kyngja ælunni þegar vinir hans samþykktu að eiginkona hans fengi starfið) — sumir líklega sér þvert um geð rétt eins og Brynjari var mjög á móti skapi að samþykkja jafnlaunavottunarfrumvarpið — en sérhagsmunaflokkar breyta ekki vana sínum.

„Um er að ræða umfangs­mestu skipun dóm­ara í Íslands­sög­unni, og afar mik­il­vægt að hún yrði óum­deild og nyti trausts.“* Landsréttur mun verða skipaður dómurum (sem eru hæfir og næstum jafn margar konur og karlar, samt passað að það sé einum karli fleiri en ekki einni konu fleiri) sem um alla framtíð hafa þann stimpil á sér að að hafa fengið vinnu útá flokksskírteini og til þess að fólk með rangt (eða ekkert) flokksskírteini kæmist ekki að. Virðingin fyrir réttinum hefur nú þegar minnkað, og hefur hann þó ekki tekið til starfa.

eftiráskýring (sem þingmenn Viðreisnar reyndu sérstaklega að halda á lofti) að dómsmálaráðherra hafi bara verið að jafna kynjahlutföllin heldur ekki vatni enda er hún hreinlega andsnúin handaflsstýrðum eða lögboðnum aðferðum við að leiðrétta kynjamun.

Þetta er ekki eina pólitíska ákvörðunin í dag sem mun draga óheillavænlegan dilk á eftir sér. Vart var atkvæðagreiðslu á Alþingi lokið þegar Trumpfíflið hélt ræðu þar sem hann lýsti því að aðrar þjóðir hefðu bara tekið þátt í Parísarsamkomulaginu til þess að pönkast á Bandaríkjunum í því skyni að velta því úr sessi sem mesta viðskiptaveldi heims. Og eitthvað fleira þusaði hann sem ganga átti í augun á kjósendum hans. Þetta með loftslagsbreytingarnar fékk minni athygli hjá honum. Reyndar sagði að hann að Bandaríkin væru hreinasta land í heimi og það skipti engu þótt mengunin væri aukin, hitastig jarðar myndi bara hækka örlítið. Þaraðauki fengi Kína að menga að vild en Bandaríkin mættu ekkert gera; og þetta væri orsök fátæktar og atvinnuleysis í Bandaríkjunum. Með því að hafna Parísarsamkomulaginu yrði allt gott á ný. Og svo bætti Trump því við að honum væri mjög annt um umhverfismál.

Dómsmálaráðherra og Alþingi sáu til þess að þetta var vondur dagur fyrir dómskerfið. Trump og hans vondu ráðgjafar sáu til þess að þetta var vondur dagur fyrir alla jarðarbúa.


___
* Þessari tilvitnun er viðbót, og er hún fengin úr öflugum pistli Þórðar Snæs Júlíussonar sem birtist 2. júní á Kjarnanum þar sem hann rekur málið og segir m.a.: „Það sem átti sér stað í gær er risa­mál. Það var sam­þykktur gjörn­ingur sem er ömur­legur og óheið­ar­leg­ur. Borð­leggj­andi er að rök­stuðn­ingur ráð­herr­ans gengur ekki upp heldur eru önnur sjón­ar­mið sem ráða ákvörðun henn­ar. Trú­verð­ug­leiki Lands­rétt­ar, dóms­kerf­is­ins og Alþingis hefur beðið hnekki.“
https://kjarninn.is/skodun/2017-06-01-flokkarnir-sem-gengu-hurd/

Efnisorð: , , , , , , , ,