föstudagur, ágúst 04, 2017

Hinn bróðirinn, enn verri

Fyrir rúmum hálfum mánuði var birt hér smáræði um Brynjar Níelsson. Gústaf bróðir hans ákvað í dag að tjá sig um Róbert Árna Hreiðarsson sem nú er kallaður Robert Downey. Gústaf er þekktur fyrir að vera hlynntur vændi og nektardansstöðum* og hefur lengi viðrað hómófóbískar og rasískar skoðanir sínar. Í dag tók Gústaf sig til og blandaði sér í umræðu sem Guðmundur Brynjólfsson stofnaði til á Facebook (hér er aftur á móti notast við endursögn DV) og sagði þá þetta:
„Hefurðu lagt það á þig, Guðmundur, að lesa dóminn? Mér dauðbrá. Af honum má draga þá ályktun að fórnarlömbin hafi spilað á veikleika Róberts og gert hann sér að féþúfu. Ég ætla ekki að hirða um að velta mér upp úr heimilis- og uppeldisaðstæðum þessara stúlkna. Þetta er komið nóg.“
Auðvitað eru þetta svívirðileg ummæli og auðvitað verður uppi fótur og fit þegar einhver verður uppvís af því að hafa þessa skoðun og vera svo sannfærður um ágæti hennar að hann er tilbúinn að viðra ruglið úr sér á almannafæri.

En.

Gústaf er ekkert einn um þessa skoðun. Strax í athugasemdakerfinu við fréttina eru menn sem verja þessar skoðanir. Og sannarlega eru til menn — hvort sem þeir eru sjálfir barnaníðingar eða ekki — sem sýna öllum kynferðisbrotamönnum (þeir myndu líklega segja „meintum kynferðisbrotamönnum“) mikinn skilning. Sjá sökina hjá fórnarlambinu. Hugsa alltaf útfrá þörfum/hvötum/réttindum karlsins en aldrei útfrá skorti fórnarlambsins á löngun, áhuga eða rétti á að vera látin í friði. Rétt eins og vændiskonur táldraga kynsvelta karla, að mati Gústafs og skoðanabræðra hans, eru barnungar stelpur með því einu að vera ungar og sætar „að spila á veikleika“ karla. Konan frá barnsaldri er klækjakvendi og karlar saklaus fórnarlömb þeirra.

Í athugasemdakerfinu er ein kona sem ver Gústaf sem best hún getur: „Gústaf Níelsson er klárlega ágætis manneskja“ segir hún og fer svo að fabúlera um að barnaníðingar séu ekkert vondir, „nema aðeins þegar það snýr að misnotkun á börnum“. Hún vorkennir reyndar barnaníðingum hvað allir eru reiðir útí þá: „Heiftin er líka svo yfirgengileg að mér blöskrar hve stór orð eru notuð því barnaníðingar eiga líka aðstenendur, börn og foreldra.“
Róbert Árni notaði reyndar nafn sonar síns þegar hann var að ljúga sig inn á unglingsstelpur svo hann hefur líklega litlar áhyggjur af áhrifum alls þessa á börnin sín. En Bergljót hrekkur í gamalkunnuga vörn; hún er systir Geira í Goldfinger, og hefur ekki eytt fáum stundum í að verja hann (hún þreyttist einmitt ekki á að segja hvað hann væri góður maður) og nektarstaðina sem hann rak. Og þá eins og nú er hún í liði með köllum sem telja allt kvenkyns vera nytjaskepnur körlum til afnota með einum eða öðrum hætti.

Burtséð frá Bergljótu þessari þá eru það yfirleitt karlar sem viðra þessar skoðanir. Það er að vissu leyti jákvætt að Gústaf skuli vera svo heimskur (eða siðblindur) að hann er tilbúinn að segja upphátt skoðun sína í þessu máli. Það er mikilvægt að vita að það er til fólk (yfirleitt karlmenn) sem verja allar gerðir annarra karla sama hvaða sakir eru bornar á þá — sama hvað sannast á þá. Sama þótt þeir hafi verið dæmdir. Hvort sem það eru menn sem berja eiginkonur sínar, nauðga konum eða börnum — þeim er alltaf fundið eitthvað til afsökunar. Í þessu tilviki að unglingsstúlkur hafi í röðum „spilað á veikleika“ manns sem hafði í fórum sínum myndbandsspólur og ríflega hundrað ljósmyndir á tölvu sem sýndu börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt. Voru kannski börnin á þessum myndum líka að gera sér Róbert Árna Hreiðarsson að féþúfu?

Gústaf er samt rakið ógeð, bara svo það sé nú alveg á hreinu.


___
* Í athugasemdum við DV-fréttina mátti finna slóð á grein sem Gústaf skrifaði þegar hann var starfsmaður strípistaðarins Bóhem. Gunnar Waage sem vísar á greinina kynnir hana með þessum orðum: „Gústaf er gamall áhugamaður um eitthvað sem hann kallar; réttindi karla til að kaupa vændi. Á sínum tíma sem starfsmaður Bóhem mælti hann svo í grein í Morgunblaðinu:
"Hinn rauði þráður í röksemdafærslu hinna femínísku grillufangara er sá, að vændiskonur séu tilneyddar til starfans; Þær séu fórnarlömb melludólga og því sé rétt að refsa þeim sem vill greiða fyrir blíðu kvenna og draga þannig úr eftirspurninni, jafnvel þótt sá karl sem í hlut á eigi engan annan kost til að njóta kynferðislegra blíðuhóta, en að greiða fyrir."

Efnisorð: , , ,