miðvikudagur, ágúst 23, 2017

Hennes & Mauritz og sjómaðurinn sem hvarf


Eins og það er nú auðvelt að finna samfélagsmiðlum, og reyndar fjölmiðlum líka, allt til foráttu þá er aðhaldið sem þessir miðlar veita kjörnum fulltrúum, embættismönnum og fyrirtækjaeigendum (svo dæmi séu tekin) algerlega ómetanlegt. Asnalegi innkaupapokinn fékk ekki lengi að standa á Lækjartorgi áður en hann var púaður burt. Embættismenn og borgarstjórn hrukku við þegar almenningur jafnt sem háskólaprófessorar gagnrýndu að auglýsing á ensku skuli hafa verið stillt upp á þessum miðpunkti miðbæjarins. Mér fannst reyndar að gagnrýnin hefði ekki síður mátt beinast að þessum sífellda undirlægjuhætti Reykjavíkurborgar við stórfyrirtæki. Rétt eftir aldamótin fékk símafyrirtæki að leggja sautjánda júní undir sig, og kókakólalestin er af einhverjum annarlegum ástæðum orðin fastur liður fyrir jólin. Núna er tískuverslun að fara að opna búð (í öðru bæjarfélagi) og þá finnst engum í borgarapparatinu neitt athugavert við það að auglýsa það (á ensku) á besta stað.

Ekki hef ég átt erindi um miðbæinn og því ekki séð téðan innkaupapoka. En þegar ég sá myndir af ferlíkinu þá hitnaði mér í hamsi. Hugsanlega hefði ég skrifað tölvupóst eða hringt í Reykjavíkurborg til að kvarta ef sjómannamyndin hefði ekki verið víti til varnaðar. (Tek það fram að mér fannst sjómannamyndin, þótt hún væri ekki glæsilegt listaverk, afar viðeigandi á húsgafli sjávarútvegsráðuneytisins sem er steinsnar frá Reykjavíkurhöfn. Sakna myndarinnar þarafleiðandi en vísa annars á Godd því ég er sammála því sem hann segir.)

Það er svo merkilegt með sjómannamyndamálið að það snýst að mestum hluta um það að einn maður tók sig til og kvartaði undan myndinni, og það nægði til að hún var tekin niður. Nú væri ég svosem alveg til í að í hvert sinn sem eitthvað fer í taugarnar á mér dugi til að ég hringi eða skrifi tölvupóst nokkrum sinnum og þá verði mér að ósk minni. En ég hefði samt haldið að það þyrfti meira til, margir þyrftu að kvarta eða málið færi fyrir fund, þetta varðaði jú risastóra mynd sem skiljanlega margir hafa skoðun á, og manni finnst að einn eða tveir embættismenn eiga ekki að taka ákvarðanir um slíkt. En það sem verra er að þegar fjölmiðlar fóru að grafast fyrir um hversvegna myndin var tekin þá var ákveðið að nafngreina manninn sem kvartaði — og senda fjölmiðlum tölvupóstana frá honum! Fyrr má nú vera opin stjórnsýsla.

Það var auðvitað einstaklega heppilegt að sá kvartgjarni reyndist vera landsþekktur maður og allaballi í þokkabót. Í allt sumar hefur samfélagið logað stafna á milli, fyrst vegna ráðningar sjálfstæðismanna í Landsdóm og svo vegna þagnarhjúpsins sem sjálfstæðismenn hafa varpað yfir meðmælendur barnaníðingsins innmúraða og innvígða. Allaballanum var því kastað fyrir ljónin: Þetta viljið þið er það ekki, nafngreina menn!

Og skyndilega varð sjómaðurinn raunamæddi orðinn tákn fyrir kommúnískar ofsóknir, gott ef ekki hatur vinstrafólks á sjómannastéttinni í heild. Ekkert um að borgarbúum sé fullkomlega frjálst að kvarta undan því sem gerist í nærumhverfi þeirra (hversu asnaleg sem kvörtunin er) og hvað það eigi að þýða að siga fjölmiðlum á fólk fyrir að kvartanir þess beri árangur. Eða hvað embættismönnunum gekk til að vísa á allaballann.

En heppileg var smjörklípan.

Þetta tengist svo aftur innkaupapokanum, og löngun minni til að kvarta undan þessu kapítalistadekri borgarinnar, á þann hátt að ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að hringja og kvarta. Hvað þá skrifa tölvupóst sem gæti endað á vefsíðum fjölmiðla, virkum í athugasemdum að leik. Þannig snýst opna upplýsingasamfélagið uppí andstæðu sína því óttinn við að gera sig að fífli með því að vera opinberaður sem kverúlant getur þaggað niður í jafnvel kvartsárustu sálum.


Efnisorð: , , , ,