föstudagur, ágúst 18, 2017

Með leyfi MAST

Það eru bara örfáir dagar síðan hér var skrifað um kaldranalegt viðmót hrossaeigenda í garð góðhesta sinna. Ekki er frétt dagsins um meðferð á hestum fyrir norðan til að bæta álitið á hestaeigendum eða yfirvöldum sem eiga að fylgjast með aðbúnaði hrossa.

Hrossabændur á Skriðulandi í Hörgársveit við Eyjafjörð, fóðruðu graðhesta sína svo illa að þeir flúðu sveltið og til fjalla að leita sér matar. Þar flugust hestarnir á (við aðra hesta og/eða innbyrðis) og voru stórslasaðir á eftir, ofan á illu meðferðina af hendi bændanna. Þá var gripið til þess bragðs — með leyfi yfirvalda í gervi MAST — að skjóta fjóra þeirra því þeim væri ekki við bjargandi. Í stað þess að fara að dýraverndarlögum um hvernig lóga skal skepnum þá var notuð einhver villidýraveiðiaðferð og hestarnir skotnir í bóginn. Allt bendir til að þeir hafi ekki drepist strax heldur hlaupið um helsærðir, en MAST segir að þeir hafi drepist en hræin verið dregin út og suður til að hinir hestarnir sæju þau ekki; merkilegt að færa þau þá ekki á einn stað í stað þess að dreifa þeim um allt.

Eftirlifandi fimm graðhestar í eigu bændanna eru taldir í góðum höndum — þ.e.a.s. MAST lítur greinilega svo á — og þessvegna fá dýraníðingarnir — sem MAST hefur þó áður þurft að hafa afskipti af vegna aðbúnaðar — að halda hross áfram.

Það er hreinlega ekkert í þessari sögu —eða neinni þeirri sögu sem viðkemur MAST — sem bendir til þess að forstjóri eða yfirdýralæknir séu starfi sínu vaxin. Það er óeðlilegt að fólk sem á að framfylgja ströngustu reglum hverju sinni um dýrahald og aðbúnað dýra leyfi illa meðferð á skepnum árum saman og láti bændur (eða verksmiðjuframleiðendur sem höndla með dýr) alltaf njóta vafans. Og þessi meðferð á lifandi og dauðum hrossum þarna fyrir norðan gerir útslagið.

Það verður að reka forstjóra og yfirdýralækni MAST úr starfi strax.




Efnisorð: ,