miðvikudagur, október 31, 2012

Birtingarmyndir bakslagsins

Það hefur verið sérlega ömurlegt að fylgjast með þeim meðbyr sem kvenfyrirlitning hefur í hópi unglinga. Hver framhaldsskólinn á fætur öðrum kemst í fjölmiðla fyrir andstyggilegar uppákomur og auglýsingar þar sem konur eru fyrst og fremst álitnar kynlífshjálpartæki skólabræðra sinna. (Ekki að 'fullorðna fólkið' sé til fyrirmyndar, sbr. verkfæratískusýning Würth fyrirtækisins, þar sem ekki má á milli sjá hvor sýnir meira dómgreindarleysi og kvenfyrirlitningu, forsvarsmaður fyrirtækisins eða auglýsingastofan Pipar sem sá um uppákomuna.)

Svo er öðrum konum hótað fyrir að voga sér að koma fram opinberlega. Virðist litlu skipta fyrir hvað, Hildi Lilliendahl er sannarlega hótað fyrir að vera með feminískar skoðanir á lofti en svo fær einhver stelpa alveg viðbjóðslega nauðgunarhótun, bara af því bara. Bara af því að það þykir einhverju kallógeði í lagi að hóta konum því að þeim verði nauðgað.

Á sama tíma kemur í ljós að starfsmenn skemmtistaða er svo vanir (eða hlynntir) því að nauðgunarlyfjum sé laumað í drykki gesta að þeir kippa sér ekkert upp við ábendingar um slíkt, en stelpur á djammaldri lenda æ oftar í því að vera byrlað eitur og svo er bara hipsumhaps hvort þær sleppa við að vera nauðgað meðan þær eru nær meðvitundarlausar eftir að hafa drukkið ólyfjanina. Eflaust bíða nauðgararnir tilvonandi átekta til að sjá hver fellur í gildruna og hvort hún ráfar um ein eða hvort fólk henni vinveitt tekur eftir ástandi hennar.

Það er ljós í myrkrinu að fylgjast með 'ég þarfnast feminísma' herferðinni, það er sannarlega gott að það er til fólk sem styður ekki slíka framkomu við konur eins og ofangreind dæmi sýna. En það sem fólk skrifar á spjöldin um ástæður þess að feminisma er þörf er sumt frekar dapurlegt, þá á ég við að það er sorglegt að enn verði fyrir fordómum, mismunun og ofbeldi. Og þegar ég sá myndbandið sem fylgdi pistli Þyrnigerðar Láfu (ég hafði séð það áður en það er jafn hræðilegt fyrir því) varð ég miður mín yfir því sem þar ber fyrir augu, að verða vitni að því að hópar karlmanna ráðast á konur, káfa á þeim og tæta utan af þeim fötin. Eins og tekið er fram í mynbandinu er hegðun strákanna — sem skeyta engu um hræðsluvein kvennanna — eftirherma af því sem fyrir þeim er haft, í tónlistarmyndböndum og klámi.

Enda þótt kynferðisofbeldi gegn konum, hótanir og önnur kvenfyrirlitning hafi alltaf tíðkast þá ætti það, eftir áratuga jafnréttisbaráttu, að heyra sögunni til. Jafnréttisbarátta og kynlífsbylting 68 kynslóðarinnar hefði átt að leiða til þess að við værum öll jöfn hvort sem það væri á vinnumarkaði, við heimilisstörf og barnauppeldi eða í kynlífi, en andstaða karlveldisins við breytingar á kynjahlutverkum er gríðarlega mikil. Vopnin sem gripið hefur verið til er fyrst og fremst klámiðnaðurinn og allar hans mismunandi birtingarmyndir.

Klámiðnaðurinn og klámvæðing samfélagsins er slík að fjöldi karla er tilbúinn að koma fram undir nafni á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum og verja klámnotkun, strippstaðaheimsóknir og vændiskaup, og kalla alla kvenfyrirlitningu grín (sbr. framhaldsskólaauglýsingarnar), og nauðganir misskilning eða lygaþvætting hefnigjarnra kvenna.

Og ákkúrat núna, eftir að hafa fylgst með ofangreindum atvikum og séð þetta myndband aftur, fallast mér hendur. Það eru bara of margir karlmenn sem vilja ekki jafnrétti, þeir vilja niðurlægingu kvenna.



Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, október 25, 2012

Um hin sönnu vísindi

Feministar sem ræða samfélagsleg, efnahagsleg og pólitísk málefni á kynjapólitískum nótum á opinberum vettvangi gera það hver á sínum forsendum. Sumar fjalla fyrst og fremst um uppeldismál, aðrar um sýnileika kvenna í fjölmiðlum, eða um klámvæðingu, kynjakvóta, konur í íþróttum og þar fram eftir götunum. Margir feministar skrifa um allt þetta og hefur hver sitt lagið á, sumar beita jafnvel fyrir sig háði (sem iðulega misskilst). Fæstir feministar, hvort sem þeir tjá sig með grein á Knúzinu, á blogg eða facebook eða með athugasemd við fréttir og greinar, líta svo á að um fræðilega ritgerð sé að ræða, þar sem vísa þarf í frumheimildir og setja mál sitt fram með formlegum hætti. Enda ber þeim ekki skylda til þess: internetið er umræðuvettvangur sem lýtur ekki akademískum kröfum.

Þó virðist sem sumir sem haldnir eru andfeminisma ræði um skrif feminista eins og um vísindarit sé að ræða. En vísi feministar í rannsóknir og kenningar eru þær slegnar útaf borðinu sem ómerkilegar og gert lítið úr fræðimönnunum að baki þeim. Sást þetta vel í umræðum um klámráðstefnuna sem haldin var um daginn þar sem reynt var að gera aðalfyrirlesarann Gail Dines ómerka orða sinna, og sagt að hún „gefi sig út fyrir að vera vísindamaður“ enda þótt hún hafi doktorspróf og gegni prófessorsstöðu við háskóla. En fyrir andfeministum virðist slíkt algert ómark ef doktorsgráðan er ekki úr réttri fræðigrein; félagsfræði er ein þeirra greina sem ekki hlýtur náð fyrir augum andfemininsta.

Akademían, háskólasamfélagið, hefur að sumra mati — sérstaklega þeirra sem hallir eru undir raunvísindi — tekið stórlega niður fyrir sig í rannsóknum á mannlegri hegðun og samfélagi manna. Það sem truflar þá helst er aðferðafræðin sem beitt er í þessum rannsóknum á manninum og samfélaginu í greinum sem teljast til félagsvísinda. Þá á ég við greinar eins og félagsfræði, sálfræði og kynjafræði (svo ekki sé minnst á þá sem hatast beinlínis út í kynjafræði og kalla hana „gervivísindi“ og „djöflafræði“). Þessar fræðigreinar nota reyndar ‘viðurkenndar aðferðir’ að einhverju leyti, svokallaðar megindlegar rannsóknaraðferðir, þ.e. rannsóknir og tilraunir sem hægt er að setja fram með tölfræðilegum niðurstöðum og eru raunvísindamönnum þóknanlegar. En vei þeim fræðigreinum þegar þær notast við eigindlegar rannsóknir.*

Í eigindlegum rannsóknum er ekki lengur talið hve margir einstaklingar köstuðu sér fyrir björg (15% köstuðu sér fram af bjarginu, 35% nutu bara útsýnisins en 50% nenntu ekki útúr bílnum) heldur er talað við fólk sem á síðustu stundu var hindrað í að kasta sér framaf. Viðtal við 5 eða 50 slíka þar sem rannsakandi gerir grein fyrir hvað þeir eiga sameiginlegt og hvernig þeir (eða rannsakandinn, og miðar þá við kenningar fræðimanna og aðrar rannsóknir) telja að koma megi í veg fyrir að fólk kasti sér fram af bjargi (setja upp girðingu) — eða líði þannig að það sjái sér ekki annarra kosta völ (sálfræðihjálp, félagsleg aðstoð) er að mati einhverra þá bara asnaleg rannsókn.** Nei, sé ekki hægt að nota prósentutölur, gröf og línurit (m.ö.o. nota útreikninga) þá eru þetta ekki alvöru vísindi.

Það ber vott um talsverðan hroka raunvísindanna að líta niður á greinar sem skoða manninn og fjölbreytilega hegðun hans. Samfélag manna er flóknara en svo að það sé hægt að setja það upp í jöfnu eða reikna það út með óyggjandi niðurstöðu.*** Samfélög breytast, það gerir stærðfræði ekki. Samfélög á Vesturlöndum hafa t.a.m. tekið gríðarmiklum breytingum frá iðnbyltingu og sér ekki fyrir endann á þeim. Þetta er rannsakað af fræðimönnum sem sumir hafa hreinlega þurft að finna upp nýjar aðferðir til að fjalla um viðfangsefni sín.

En vilji fólk óbreytt ástand, þá er auðvitað gott að ríghalda í stærðfræðinginn stærðfræðina sína. Við hin skoðum mannlífið með fjölbreyttari hætti.

___

* Um muninn á megindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum má lesa á Vísindavefnum. Þar segir einnig: „Þótt oft hafi ríkt átök milli fræðimanna um ágæti megindlegra rannsóknaraðferða umfram eigindlegar, og öfugt, eru margir nú á þeirri skoðun að nota þurfi báðar aðferðir til þess að byggja upp heildstæða þekkingu á sviði félagsvísinda.“

Eigindlegar rannsóknir eru reyndar líka gerðar í heilbrigðisvísindum, sbr. þessi skilgreining á megindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum sem ég tók úr B.Sc. ritgerð í hjúkrunarfræði — sem er þá líklega „djöflafræði“ úr því hún notast við eigindlegar rannsóknir (umfjöllunarefnið er að auki um þjónustu ljósmæðra, öllu djöfullegra verður það ekki).

„Fylgjendur megindlegra rannsóknaraðferða vinna samkvæmt þeirri trú að sannleikurinn sé algjör og að það sé einungis einn raunveruleiki sem hægt sé að skilgreina með góðu mælitæki. Rannsakendur trúa því að mannleg hegðun sé hlutlæg, ákveðin og mælanleg.

Eigindleg rannsóknaraðferð er notuð til að lýsa og stuðla að skilningi á mannlegri upplifun líkt og sársauka, umhyggju, ánægju og þægindum. Þar sem mannlega upplifun er erfitt að mæla virðist eigindleg rannsóknaraðferð vera gagnleg. Eigindleg rannsóknaraðferð einblínir á uppgötvanir og skilning á heildinni sem er nálgun í samræmi við hugmyndafræði heildrænnar hjúkrunar. Fyrirbærafræði (Phenomenology) er ein tegund eigindlegra rannsóknaraðferða. Fyrirbærafræði er bæði heimspeki og rannsóknaraðferð sem ætlað er að auka skilning á mannlegum fyrirbærum m.a. til að bæta mannlega þjónustu eins og t.d. heilbrigðisþjónustu. Grunnhugmynd hennar er að eðli heimsins er ekki þekkt, við getum aðeins vitað hvernig fólk skynjar heiminn. Markmið fyrirbærafræðinnar er því að lýsa reynslu eins og einstaklingurinn upplifir hana og segir frá. Fyrirbærafræði lítur svo á að einstaklingurinn og umhverfið sé ein heild, þannig að umhverfið móti einstaklinginn og einstaklingurinn móti umhverfið.“

[Ég sleppi úr tilvísunum í heimildir, en játa hér með að ég hef enga heimild fyrir því að draga þessa örugglega ágætu ritgerð (ég las hana ekki) inn í deilur um „gervivísindi“ og „djöflafræði“. Þá stytti ég textann talsvert til að ofgera ekki lesendum sem stendur ógn af djöflum.]

** Hér er dæmi um hvernig eigindleg rannsóknaraðferð var notuð til að öðlast þekkingu á viðhorfum pólskra íbúa Reykjavíkur. Einhver myndi segja að nægilegt væri að senda þeim spurningalista (megindleg aðferð) og láta svör við honum duga sem fullnaðarsvar, enda óþarft að elta ólar við hvort Pólverjum „finnist“ að þeim sé mismunað, slíkt er bara túlkun.
„Tekin voru eigindleg viðtöl við 6 pólska borgarbúa sem allir hafa þegið þjónustu á Þjónustumiðstöðvunum. Viðtölin veittu innsýn í upplifum viðmælenda á þjónustu hjá þjónustumiðstöðvunum, bæði hvað varðar viðmót félagsráðgjafa og túlka. Helsta niðurstaða rannsóknarinnar var sú að auðvelt aðgengi að þjónustunni er fólki afar mikilvægt, ekki síst vegna þess að misvísandi upplýsingar geta orðið til þess að einstaklingum finnist sem þeim sé mismunað.“

*** Á morgun, föstudag, verða haldnir fjölmargir fyrirlestrar um atvinnuleysi, dvöl barna í Kvennaathvarfinu, einelti, lestrarvenjur, flóttamenn, fötlun, innflytjendur, kreppu, kynleiðréttingaraðgerðir, líkamsímynd ungmenna, nepalskar konur, rasisma, samkynhneigð, stöðu kynjanna, umönnun aldraðra, utangarðsfólk, þingræði, þjóðfélagsbreytingar og margt fleira. Sumt af þessu er eflaust byggt á afar hæpnum rannsóknum, allavega að mati þeirra sem eiga bágt með að sætta sig við að þær eru viðurkenndar af háskólasamfélaginu.

Viðbót: Anna Bentína Hermansen skrifar ágæta grein um sama efni („Um „gervivísindi“ kynjafræðinnar„) sem birtist 13. nóvember á Smugunni.

Efnisorð: , , , ,

þriðjudagur, október 23, 2012

Hrósa skal því sem til afreka telst

Um daginn las ég grein eftir nemanda í MA þar sem kvartað var yfir því að fjölmiðlar flyttu bara slæmar fréttir af nemendum skólans (þ.e.a.s. fréttir um það sem nemendur gera af sér, en eins og formaður nemendafélags VMA benti á þykir nemendum ekkert að hegðun sinni en þeim þykir hinsvegar ægilega slæmt að hún rati í fjölmiðla). Umkvörtunin sneri semsagt að því að aldrei væri sagt frá því sem þau gerðu vel eða þegar þau hegðuðu sér vel.*

Mér þykir undarleg þessi árátta að vilja komast í fjölmiðla, fyrir næstum hvað sem er. En jæja, þessi nemandi vill komast í fjölmiðla fyrir það sem vel er gert. Hún telur upp að þau hafi farið í utanlandsferð. Og ég segi, fyrir mitt leyti: takk fyrir að pissa ekki í laugina. Þið eigið sannarlega hrós skilið, þvílíkt afrek!

En úr því að ég er farin að hrósa fólki fyrir það sem ég hélt að væri sjálfsögð hegðun:

Evrópumeistarar stúlkna í hópfimleikum eiga hrós skilið fyrir að hafa ekki komið með niðrandi athugasemdir um Dani áður en gengið var til keppni, og hefðu þær þó getað rætt maðkað mjöl svo undan sviði. Hrósa ber þeim fyrir að ráðamenn allt upp í ráðherra voru ekki dregnir í fjölmiðla til að minnka skaðann sem hefði getað skapast af ummælum þeirra. Gott hjá stelpunum að verða okkur ekki til skammar. Hrós fyrir það.

Ásdís Kristjánsdóttir — fyrsti Íslendingurinn til að ljúka keppni á heimsmeistaramóti í Ironman á Hawaii — á sömuleiðis hrós skilið fyrir að hafa ekki fundið eyjarskeggjum allt til foráttu. Hrós fyrir það.

Annie Mist Þórisdóttir heimsmeistari í CrossFit á ennfremur hrós skilið fyrir að hafa engan móðgað og að enginn þurfti að biðjast afsökunar fyrir hönd þjóðarinnar þó hún hafi verið á ferð í lastabælinu Los Angeles.

Að þessum hrósyrðum loknum (sem greinilega er ekki vanþörf á, miðað við hegðun sumra íþróttamanna á erlendum vettvangi) óska ég ofangreindum íþróttakonum til hamingju með íþróttaafrek sín.** Það verða víst færri til að muna eftir þeim í lok árs þegar íþróttafréttamenn (les: boltaáhugamenn) útnefna íþróttamann ársins. Nema þeir taki sig til og geri eitthvað verulega hrósvert (les: sjálfsagt), eins og að veita einhverja af þessum verðugu konum titilinn.

___

*„Við komum heim með hrós frá fararstjórum, kennurum og hótelstarfsfólki um góða umgengi, lítil læti og yfir heildina góða hegðun, en hvað kom mikið um það í fréttum.“

** Ásdís synti 3.8km sjósund, hjólaði 180 km á hjóli og hljóp svo maraþon. Sama daginn. (Ég þarf nú bara að leggja mig eftir að hafa skrifað þetta.)



Efnisorð:

fimmtudagur, október 18, 2012

Þjóðaratkvæði 20. október

Eftir að hafa lesið allan bæklinginn sem Lagastofnun Háskóla Íslands skrifaði um tillögur stjórnlagaráðs hef ég séð á tillögunni nokkra galla. Þeir eru þó ekki nægilega margir eða miklir til að ég hafni stjórnarskrárdrögum, kostirnir eru fleiri en svo.

Ég taldi plúsana, mínusana og spurningarmerkin (sem ég setti þar sem ég var ekki viss, finnst mér t.d. að þingsályktunartillögur sem ekki hafa hlotið lokaafgreiðslu eigi að falla niður við lok þings?) sem ég hafði krotað á spássíurnar og þar var hlutfallið greinilega plúsunum í vil.

Mínusarnir lentu flestir við tillögur um málskot til þjóðarinnar og þingmál að frumkvæði kjósenda (65. og 66.grein), sem flokkast sem spurning nr. 6 við þjóðaratvæðagreiðsluna. Mér finnst hlutfall kjósenda sem geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu allt of lágt (10%), mér finnst að það yrði að vera stór hluti landsmanna en ekki bara einhver fámennur hópur sem gæti farið fram á slíkt. Frekar vil ég sleppa því. Þá finnst mér alls ekki góð hugmynd að kjósendur geti lagt fram þingmál eða frumvörp á Alþingi.

Stóran plús fengu tillögur stjórnlagaráðs um bann við herskyldu (31. grein: „Herskyldu má aldrei í lög leiða“)og um dýravernd. Þar er talað um dýrategundir í útrýmingarhættu og vernd dýra gegn illri meðferð (36. grein; sjá brýningar Árna Stefáns Árnasonar hér og hér).

Þá kætti mig að sjá í 72. grein að stjórnvöldum sé óheimilt að ábyrgjast fjárhagslegar skuldbindingar einkaaðila. Ég veit að flestum verður hugsað til bankanna og Icesave en ég mín fyrsta hugsun tengdist DeCode og ríkisábyrgðinni sem Davíð Oddsson tryggði því fyrirtæki. Sömuleiðis kætti mig að sjá í 79. grein þessa setningu: Forseti skal ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil.

Margt annað gæti ég talið upp sem mér fannst jákvætt eða umhugsunarvert, en svör mín við spurningum þeim sem ég fæ að taka afstöðu til í kosningunum á laugardag eru þessi.

1. Já — ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

2. Já — ég vil að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign. Eða með orðalagi Guðmundar Andra (sem lýsti bæði með og móti röksemdum): „óveiddur fiskurinn í sjónum verði ekki áframhaldandi grundvöllur að stigvaxandi stéttaskiptu lénsveldi hér eða peningafabrikka með óljósri ávísun.“

3. Nei — ég vil ekki að gert sé ráð fyrir þjóðkirkju í stjórnarskránni því ég vil ekki þjóðkirkju.

4. Nei — ég vil ekki að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er. Ég tel persónukjör verða að vinsældarkeppni fræga fólksins en bakvið það standi e.t.v. hagsmunaöfl sem muni stýra því. Og, eins og Guðmundur Andri orðaði það þá er „persónukjör til þess fall[ið] að ýta enn frekar undir dellumakerí athyglissjúklinga í ræðustól Alþingis“

5. Já — ég vil að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt — það er réttlætismál.

6. Nei — ég vil ekki að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu (ekki nema hlutfallið sé mun hærra en stjórnlagaráð leggur til).

Ég hefði þó gjarnan viljað fá að kjósa um fleiri greinar tillagna stjórnlagaráðs. Aðallega vona ég þó að kjörsókn verði góð og þegar upp er staðið fáum við nýja og betri stjórnarskrá.

Efnisorð: , , , , ,

þriðjudagur, október 16, 2012

Ráðstefna gegn klámi

Ég sé að klámverjendur skrifa á margar síður núna og býsnast yfir klámráðstefnuninni. Þeirra helsta lausn á málinu er að fólk fræði börn sín um kynlíf, en klámið skuli látið óáreitt, enda skaði það engan.

Hvað segja þessir karlmenn sonum sínum? Hverskonar kynfræðslu veita karlmenn sem eru svona uppteknir af skaðleysi kláms? Segja þeir ekki bara sonum sínum að klám sé ok og normalt að fá útrás yfir því?

Svarið er semsagt ekki að foreldrar (klámsjúkir pabbar) sjái um kynfræðsluna og skólarnir geta bara frætt börnin takmarkað ef annað viðhorf mætir þeim heima. Pabbinn sem horfir á klám og börn hans vita það, svo og að hann hatast útí feminista og 'kéllingar' almennt (það geta þau t.d. séð á facebook), hann er eftir alltsaman fyrirmynd sona sinna. Börn geta því miður ekki valið sér foreldra.

Klámið sem pabbarnir og synirnir horfa á er líka öðruvísi en fólk gerir almennt ráð fyrir. Lýsingar Gail Dines á því sem fram fer í klámmyndum eiga ekkert skylt við 'fólk að geraða'. Konur í klámmyndum eru beittar ofbeldi (sumar eru þar ekki viljugar, aðrar eru þar vegna félagslegra- eða efnahagslegra örðugleika, næstum allar hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi) og niðurlægðar á ýmsan máta. Þessu skemmta karlar sér yfir (og yfirfæra á konurnar sem þeir fara í rúmið með; lýsingar á atburðum og orðfærið nota þeir svo þegar þeir tala um að senda menn á nafngreinda feminista). Börn og unglingar sjá þessi ósköp og halda að tíðkist í samskiptum karla og kvenna og reyna að herma eftir (eða í tilviki stelpna: reyna að standast þá þolraun að stunda kynlíf með strákum sem hafa alla sína visku um kynlíf úr klámmyndum). Klám hefur semsagt slæm áhrif á alla, allt samfélagið, sbr. yfirskrift greinar Ögmundar Jónassonar „Klámiðnaðurinn: ógnun við almannaheill.“

Ef sett væri í lög að ekki varsla kláms væri ólögleg — eins og gildir um barnaklám* — þá mætti skylda starfsmenn tölvuverkstæða til þess að láta lögreglu vita þegar þeir verða varir við klámefni á tölvum, eins og þeir verða að gera þegar þeir verða varir við barnaklám. Það og að niðurhal á klámi (ljósmyndum, hreyfimyndum o.s.frv.**) væri ólöglegt, þá væri hægt að nota sömu aðferðir og notaðar eru til að nappa menn fyrir ólöglegt niðurhal og barnaklám (sbr. barnaklámhringir).

Ekkert af þessu kemur algerlega í veg fyrir klámframleiðslu, klámdreifingu og klámneyslu, en það hefði fælingarmátt. Um leið og það hefði fælingarmátt yrði það síður álitið eðlilegt að horfa á klám. Þar af leiðir myndi eftirspurn minnka og framleiðsla dragast saman. Það er kannski draumsýn að klámframleiðsla leggist af en það væri strax skárra að minnka klámneyslu, rétt eins og það er betra að bannað að kaupa vændi. Það er ekkert normal við það að ala upp börn í samfélagi sem segir við pilta að þeir eigi að líta á konur sem kjötskrokka sem koma megi fram við að vild en stelpum að þær séu bara kjötskrokkar sem engu máli skipta.

Fyrir alla muni þarf að reyna að stemma stigu við klámneyslu, fullorðinna jafnt sem barna.
___


* 210. grein hegningarlaganna (210. gr., 210 gr. a. og 210. gr. b) fjallar um klám, annarsvegar klám með fullorðnum í aðalhlutverkum, hinsvegar barnaklám.

Klám með fullorðnum í aðalhlutverkum: Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum …Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt.

Barnaklám: Hver sem framleiðir, flytur inn, aflar sér eða öðrum eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti

** Ef ég hefði verið á ráðstefnunni hefði ég spurt Sigríði Hjaltesteð aðstoðarsaksóknara hjá lögreglunni að því hvort tölvur karla sem eru til rannsóknar fyrir kynferðisbrot séu alltaf rannsakaðar, eða bara þegar þeir eru sakaðir um kynferðisofbeldi gegn börnum. Þó engin lög séu (enn) sem banna vörslu klámefnis með fullorðnu fólki, og klámeign kæmi þessvegna ekki (enn) til refsiþyngingar, þá væri allavega fróðlegt að hafa tölfræðina, sjá fylgni kláms (og hverskonar kláms) og nauðgana.

Kannski er þetta nú þegar verklagsregla, en ég man bara eftir einu dæmi þar sem ráða mátti af því sem kom fram í dómnum að nauðgarinn hafi stundað klámáhorf. Hann er sagður hafa verið með „óeðlilega kynferðislega fantasíu sem hafi tengst hugsunum um konur sem hefðu þvaglát og hafi sú ímynd örvað hann kynferðislega.“ Hversu mikið klámefni hafði hann hlaðið niður með slíku efni? Byrjuðu órar hans eftir að hann fór að horfa (markvisst) á klám eða sótti hann í klám til að sjá konur pissa? Sömuleiðis: sækja nauðgarar í klám eða hvetur klám til nauðgana? (Mitt svar er já og já, en hér er ég að tala um að löggan gæti gert á þessu úttekt.)


Efnisorð: , , , , ,

sunnudagur, október 14, 2012

Lagst á eitt til að vernda frægan kynferðisbrotamann (enn einu sinni)

Nú hefur komist upp um frægan breskan fjölmiðlamann (sem ég hafði aldrei heyrt um áður), sem er reyndar dauður, og kynferðisofbeldi sem hann beitti fjölda stúlkna undir lögaldri um áratugaskeið.

Enda þó margir hafi haft spurnir af athæfi hans, yfirmenn hans hjá BBC þar á meðal, og lögreglu margoft borist vísbendingar og kærur, gerði aldrei neinn neitt í málinu. Hvorki stofnunin sem hann vann hjá né lögreglan. Fórnarlömbum hans var ekki trúað, því hann var frægur og frægðinni fylgja þau völd að beri einhver fram ásakanir á frægðarmenni er viðkomandi umsvifalaust ásökuð um að vilja vera fræg sjálf (athyglissýki) eða vilja peninga (þetta þekkjum við úr umræðu um Dominique Strauss-Kahn og Egil Gillz Einarsson).*

Jimmy Savile var stjórnandi vinsældalistatónlistarþáttarins Top of the Pops í tuttugu ár,frá árinu 1964. Gengu þegar sögur af því á sjöunda áratugnum að hann væri með skólastelpur (oftast um 14 ára gamlar) í búningsherberginu hjá sér og ætti við þær kynferðisleg samskipti. Fleiri starfsmenn eða frægðarmenn munu hafa tekið þátt í því sem fram fór í búningsherbergi hans þ.á.m. Gary Glitter, sem síðan hefur hlotið dóm fyrir barnaníð, svo og einhver enn ónefndur leikari sem enn mun vera starfandi en hefur enn ekki verið nafngreindur. Savile var með aðra þætti bæði í útvarpi og sjónvarpi hjá BBC áratugum saman eftir þetta.

Eitt af því sem hefur komist upp varðandi Jimmy Savile, þessa frægu og dáðu fjölmiðlastjörnu, er að hann hafi eftir að hann varð frægur gerst sjálfboðaliði á barnaspítulum þar sem hann beitti stúlkubörn kynferðisofbeldi. Starfsfólk vissi um athæfi hans en enginn sagði neitt eða þorði að segja neitt.

Ekkert bendir til að ásókn hans í stelpur undir lögaldri hafi verið vegna þess að honum var meinað að kvænast eða eiga í kynferðissamböndum við fullorðnar konur, heldur valdi hann að fara í aðstæður þar sem hann hafði aðgang að varnarlausum börnum og unglingsstúlkum. Að sama skapi hafa kaþólskir prestar (og sundlaugaverðir, íþróttaþjálfarar og fleiri sem velja sér störf þar sem þeir eru einir með börnum) valið sér starfsvettvang. Það er semsagt ekki vegna þess að kaþólskir prestar mega ekki kvænast, að þeir fá ekki eðlilega útrás fyrir kynhvöt sína, sem þeir leita á börn. Kaþólsku prestarnir hafa sér það til afsökunar (ekki að mig langi að afsaka þá) að hafa sjálfir alist upp í kirkjunni (og sumir sjálfir verið beittir ofbeldi þar) og þekkja því þann vettvang sem vænlegan til að fá útrás fyrir hvatir sínar. Ekkert er í sögu Jimmy Savile (sem ég veit til en gæti komið fram síðar) sem segir til um hversvegna hann valdi barnasjúkrahús sem vettvang glæpa sinna, en þar hafði hann ótakmarkaðan aðgang að sjúkum og fötluðum börnum í nafni frægðar sinnar og 'óeigingjarnra' sjálfboðaliðastarfa.

Nú hafa a.m.k. tíu konur stigið fram sem segja að Jimmy Savile hafi áreitt þær eða nauðgað á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, þá var ein þeirra fjórtán ára. Lögregla rannsakar nú mál tuga kvenna og teygja sum málin sig aftur til 1959. Fjölmiðlar hafa greint frá fórnarlömbum allt niður í tíu ára en flestar ásakanirnar fjalla um ásókn Savile í 13-16 ára stelpur. (Margir karlmenn munu afsaka þá hegðun hans, enda þykir mörgum eðlilegt að vilja þær ungar — svo ekki sé talað um alla þá sem segja að ungar stelpur á þeim aldri viti ekkert skemmtilegra en draga karlmenn sem eru áratugum eldri á tálar.**) Árið 1971 framdi ein stelpnanna sjálfsmorð, þá fimmtán ára gömul. Í dagbók hennar kom fram að hún hafði verið 'notuð' kynferðislega af ýmsum frægðarmennum Top of the Pops þáttanna, þar sem hún hafði komið fram sem dansari. Þar á meðal kom nafn Jimmy Savile fram. Lögreglan afskrifaði dagbókina á þeim forsendum að hún væri fantasía. Orð unglingsstúlku máttu sín lítils gegn stofnunum á borð við lögreglu og BBC.

Það er ábyrgð stofnana samfélagsins að loka þá inni til eilífðarnóns sem uppvísir verða að því að nauðga börnum, káfa á þeim, taka af þeim nektarmyndir eða brjóta gegn þeim með öðrum hætti; sömuleiðis að hvetja til slíks eða eiga barnaklám (sem er hvatning til ofbeldis gegn börnum). Það að frægir einstaklingar — eða bara Jón af götunni — skuli komast upp með kynferðisbrot gegn börnum oft og mörgum sinnum, eða eins og í tilviki Jimmy Savile áratugum saman, ætti aldrei að fá að gerast.

Yfirmenn Savile hjá BBC munu hafa fengið vitneskju um athafnir hans árið 1973 ef ekki fyrr. Íslenska þjóðkirkjan vissi lengi um hegðun Ólafs Skúlasonar en varði hann samt og reyndi að gera konurnar sem kærðu hann tortryggilegar og stinga bréfi frá dóttur hans, þar sem hún lýsti kynferðisofbeldi af hálfu föður síns, oní skúffu. Í báðum tilvikum neituðu menn að horfast í augu við sannleikann þar til níðingurinn var dauður (og þjóðkirkjan talsvert lengur). Í báðum tilvikum segir fólk: Veriði ekki að níða látinn mann. Sannarlega hefðu þessir kynferðisbrotamenn átt að sæta refsingu í lifanda lífi, en stofnanirnar sem vernduðu þá verða að minnsta kosti að læra sína lexíu, þó ekki væri nema öðrum til viðvörunar.

Almenningur mætti líka hugsa sinn gang næst þegar frægur karlmaður er ásakaður um kynferðisbrot, en ekki verja hann og æpa: „saklaus uns sekt er sönnuð“. Eða var Jimmy Savile saklaus allan tímann, bara af því að engum tókst að fá hann dæmdan?

___

* Egill Gillz sagðist líka vera fórnarlamb samsæris, sama segir Julian Assange. Enn ein afsökun frægðarmenna er að þeir séu fórnarlömb kjaftasagna þegar fréttist um athæfi þeirra, sbr. grenj Sigmundar Ernis sem nú afneitar vændiskúnnanum í sér á síðum DV.

** Hér kemur Roman Polanski upp í hugann og það sem ég hef skrifað um hann og Lólítu-afsökun karlmanna.

[Ég hirði ekki um að setja tengla á allar þær fréttir sem ég hef lesið um Jimmy Savile, breskir fjölmiðlar eru uppfullir af þeim. Ég las aðallega The Telegraph (sem er hægri sinnað) og The Guardian (sem hallast til vinstri; ég sá ekki merkjanlegan mun á fréttum þessara tveggja fjölmiðla um málið) auk Wikipedia-síðunnar um Savile og síðu sem eingöngu fjallar um hinar níðingslegu gjörðir hans.]

Efnisorð: , , , ,

laugardagur, október 13, 2012

Lof og last (og þó)

Lof og last samantektin er með breyttu sniði núna, ég er eitthvað svo helvíti jákvæð þessa dagana.

LOF

Maklegur nauðgunardómur yfir nuddara sem gerði allt það sem enginn nuddari á að gera.

Maðurinn sem fékk nóg af karlmönnum sem míga hvar sem þeir standa. (Týpískt að löggan meðhöndlaði hann sem sökudólginn í málinu, en jæja, það var kannski langt gengið að nota sveðju.)

Góður pistill eftir Arndísi Bergsdóttur um veg staðalmyndanna sem varðar leiðina að skaðlegri karlmennsku

Götuheitin Bríetartún, Guðrúnartún, Þórunnartún og Katrínartún. Nafngiftirnar eru til heiðurs fyrstu konunum sem settust í bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1908, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, Guðrúnu Björnsdóttur, Katrínu Magnússon og Þórunni Jónassen. (Tími til kominn, ég var farin að halda að ekkert yrði af þessu, svo langt sem liðið er frá því að samþykkt var að breyta götuheitunum.)

Samstarfsverkefni Menntaskólans á Akureyri og menntaskóla í Nuuk. „Lengst af hafa Íslendingar horft til annarra landa til samstarfs af ýmsu tagi en þess sem næst okkur liggur, nefnilega til Grænlands. Hugmyndin er að verkefnið stuðli að auknum áhuga framhaldsskólanemenda, bæði á Akureyri og í Nuuk, á nágrannalöndum sínum og nágrönnum.“

Julia Gillard forsætisráðherra Ástralíu fyrir að láta karlrembu heyra það. Karlrembur allra landa mættu taka þetta til sín.

Fín hugvekja félagsmálaráðherra um klám. Margar spurningar sem við þurfum að svara, ekki bara hver fyrir sig heldur samfélagið allt.


Efnisorð: , , , , , , ,

laugardagur, október 06, 2012

Sannarlega segi ég yður

Þegar ég skrifaði um Hreppaprestinn gráðuga um daginn rifjaðist upp fyrir mér starfsbróðir hans sem jók ekki heldur virðingu fyrir prestastéttinni.

Árið 2003, sama ár og 17. júní hátíðahöldin voru „í boði“ símafyrirtækis, birtist auglýsing í dagblöðum og á strætóskýlum. Þá sat ríkisstjórn Davíðs Oddssonar að völdum eins og hún hafði gert í rúman áratug, bankarnir höfðu verið einkavæddir, framkvæmdir höfðu hafist við Kárahnjúkavirkjun og neysla var mikil.

Maðurinn á auglýsingamyndinni er kunnur maður í íslensku samfélagi. Hann var um þessar mundir vinsæll prestur og sást oft í fjölmiðlum við prestsstörf. Hann er þó ekki í embættiserindum á myndinni, heldur að auglýsa morgunkorn.

Það vakti nokkra furðu þegar þessi áberandi þjónn kirkjunnar tók þátt í þessari auglýsingaherferð* og þótti sitt hverjum. Mörgum fannst fyrst og fremst ólystugt að sjá einhvern með fullan munninn** en öðrum þótti óviðeigandi að kirkjunnar maður væri að taka þátt í að selja vörur, sama hver varan væri.

Þessi tiltekna vara****er framleitt af einu af stærstu matvælafyrirtækjum Bandaríkjanna, risafyrirtækis sem selur vörur sínar um allan heim. Það var því ekki af samúð með lítilmagnanum sem presturinn lagði auglýsingaherferðinni lið.

Tengsl kirkju og auðvalds á sér langar rætur. Hér á landi eru kirkja og ríki líka í nánu sambandi, eitt trúfélag hefur forgang umfram önnur og er kallað „þjóðkirkja“. Kirkjan hefur sem stofnun vald til að telja fólki trú um að einn lífstíll sé öðrum æðri. Hér gengur presturinn erinda auðvaldsins og selur neysluvöru. Enda þótt hann sé ekki í prestskrúða er hann auðþekktur og einmitt fyrir að vera prestur.

Alla 20. öldina og það sem af er þessarar aldar hafa margar gerðir hugmyndafræði slegist um yfirráðin. Auk þeirra sem hér hafa verið nefnd, kapítalismi og kirkjan, sem sannarlega hefur gengið vel að fá fólk á sitt band, þá sést á myndinni fulltrúi þess sem er líklega sterkasta valdið: hinn hvíti karlmaður. Þegar þessar þrjár stofnanir taka saman höndum, kirkjan, kapítalisminn og karlveldið, þá er slagkraftur áróðursins margfaldur

___

* Aðrar auglýsingar fyrir sömu vöru en með öðru fólki voru líka birtar víða á tímabili.

** Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir sagði t.d. á bloggsíðu sinni 2. september 2003, „ég vil ekki þurfa að horfa á forstig meltingarinnar hjá Pálma Matt., Audda og Ásthildi Helgadóttur. Ég gríp ekki fyrir augun þegar ég er að aka, en mig hefur sjaldan langað minna í Cheerios.“

*** Eða var séra Pálmi sem fulltrúi hins geistlega valds að flytja þau skilaboð frá yfirmanni sínum um hvaða morgunkorn safnaðarbörnin eigi að neyta? Hér legg ég áherslu á orðið „börn“ í þessu samhengi, en presturinn hefur fermt fjölda barna gegnum tíðina. Einu sinni var fermingarundirbúningur kallaður „að ganga til spurninga“, ætli Pálmi hafi spurt fermingarbörnin hvort þau borðuðu rétta morgunkornið?

**** Cheerios kom á markaðinn 1941, fyrst undir öðru nafni (Cheerioats) en 1945 var Cheerios nafnið fest í sessi (skrifað Seríós uppá íslensku). Framleiðandi þess er General Mills, bandarískt fyrirtæki sem stofnað var uppúr 1860. General Mills hefur ætíð verið mjög meðvitað um mátt fjölmiðla, stofnaði eigin útvarpsstöð 1924 og bjó ýmist til fígúrur (Betty Crocker) eða kom þeim á framfæri (Ronald Reagan), styrkti fyrstu sjónvarpsauglýsinguna sem sýnd var í auglýsingahléi á amerískum fótboltaleik árið 1939 og hélt úti eigin sjónvarpsþáttum fram á sjötta áratug síðustu aldar.



Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, október 04, 2012

Dagur dýranna

Í dag er Dagur dýranna haldinn í fyrsta sinn hér á landi. Stórgóð hugmynd. Af því tilefni er samkoma fyrir dýravini suður í Hafnarfirði. Það er ekki eins góð hugmynd. Ekki vegna þess að hún er haldin í Hafnarfirði heldur vegna þess að hún er haldin í kirkju. Ekki nóg með þar heldur á þar einhver djákni að tala og svo mun prestur biðja fyrir dýrunum.

Ef þessi samkoma væri ekki haldin í kirkju og hefði ekki á sér kristilegt yfirbragð sæti ég eflaust á fremsta bekk, í klappstýrubúningnum. En mig langar ekki rassgat að vera meðal dýravina undir þessum kringumstæðum.

Það er furðulegt að geta ekki haldið dag dýranna hátíðlegan á hlutlausum vettvangi og án guðræknishjals. Vonandi verður staðarval og dagskrá endurskoðuð að ári, þá mæti ég á staðinn.* En á þetta fyrirbæri mæti ég ekki og styð ekki þetta framtak að óbreyttu.

___
* Tekið er fram að „Dagurinn er haldinn hátíðlegur óháð trúarbrögðum og stjórnmálaskoðunum.“ Miðað við staðarval nú má búast við að hann verði haldinn í Valhöll næsta ár. Þá áskil ég mér rétt á að endurskoða ákvörðun mína.


Efnisorð: ,

mánudagur, október 01, 2012

Hlekkjað hugarfar presta

Ég hef áður minnst á hve hvimleitt það er þegar síða sem ég hef vísað á er horfin eða frétt/grein sem þar átti að finna hefur gufað upp. Það þýðir að hlekkur sem ég hef sett á síðuna er dauður og þarmeð heimild mín fyrir því sem ég var að skrifa eða viðbótarstuðningur við röksemd mína.

Þegar ég las frétt um fégráðuga prestinn í austur í Hreppum staðfesti það auðvitað bara skoðun mína á prestum — sem er fyrir neðan allar hellur.

Jafnframt rámaði mig í að ég hefði skrifað bloggfærslu um presta og hugðist benda á kvæði sem ég hélt að væri þar sem útskýrir álit mitt á prestum en þá reyndist það ekki í bloggfærslunni. Þar var þó (eða átti að vera) vísað á síðu þar sem kvæðið er að finna. En hlekkurinn reyndist dauður. Það er auðvitað óþolandi svo að hér bæti ég úr því, skrifa upp kvæðið sem stóð á síðunni sem er horfin og bý til hringtilvísun þar sem gamla bloggfærslan mun vísa á þessa og þessi á þá gömlu (hafi ég útskýrt þetta á óljósan hátt er hverjum sem er heimilt að greiða úr flækjunni í boði hússins).

Hér er semsagt kvæðið sem ég las sem barn og mótaði álit mitt á prestum.

Hrafnamóðirin

Á kirkjuturni hrafnamóðir
hreiður sér bjó;
hún bjóst við að geta alið þar
börnin sín í ró.

Og þó hún væri svartari
en vetrarnáttmyrkrið,
bjóst hún við, að kirkjan
veitti börnunum sínum frið.

En eitt sinn, er hún sat þar
og undi sér vel,
lét klerkurinn skotmanninn
skjóta hana í hel.

Og dauð á litlu börnunum
hún blæðandi lá
kristinna manna
kirkjuturni á.

Við það gladdist klerkurinn,
en glaðari þó hann varð,
er skotmaðurinn hreytti
hreiðrinu nið'r í garð.

En lesi klerkur messu
og lofi drottins nafn,
þá flögrar yfir kirkjunni
kolsvartur hrafn.

(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)

Efnisorð: , ,