mánudagur, október 01, 2012

Hlekkjað hugarfar presta

Ég hef áður minnst á hve hvimleitt það er þegar síða sem ég hef vísað á er horfin eða frétt/grein sem þar átti að finna hefur gufað upp. Það þýðir að hlekkur sem ég hef sett á síðuna er dauður og þarmeð heimild mín fyrir því sem ég var að skrifa eða viðbótarstuðningur við röksemd mína.

Þegar ég las frétt um fégráðuga prestinn í austur í Hreppum staðfesti það auðvitað bara skoðun mína á prestum — sem er fyrir neðan allar hellur.

Jafnframt rámaði mig í að ég hefði skrifað bloggfærslu um presta og hugðist benda á kvæði sem ég hélt að væri þar sem útskýrir álit mitt á prestum en þá reyndist það ekki í bloggfærslunni. Þar var þó (eða átti að vera) vísað á síðu þar sem kvæðið er að finna. En hlekkurinn reyndist dauður. Það er auðvitað óþolandi svo að hér bæti ég úr því, skrifa upp kvæðið sem stóð á síðunni sem er horfin og bý til hringtilvísun þar sem gamla bloggfærslan mun vísa á þessa og þessi á þá gömlu (hafi ég útskýrt þetta á óljósan hátt er hverjum sem er heimilt að greiða úr flækjunni í boði hússins).

Hér er semsagt kvæðið sem ég las sem barn og mótaði álit mitt á prestum.

Hrafnamóðirin

Á kirkjuturni hrafnamóðir
hreiður sér bjó;
hún bjóst við að geta alið þar
börnin sín í ró.

Og þó hún væri svartari
en vetrarnáttmyrkrið,
bjóst hún við, að kirkjan
veitti börnunum sínum frið.

En eitt sinn, er hún sat þar
og undi sér vel,
lét klerkurinn skotmanninn
skjóta hana í hel.

Og dauð á litlu börnunum
hún blæðandi lá
kristinna manna
kirkjuturni á.

Við það gladdist klerkurinn,
en glaðari þó hann varð,
er skotmaðurinn hreytti
hreiðrinu nið'r í garð.

En lesi klerkur messu
og lofi drottins nafn,
þá flögrar yfir kirkjunni
kolsvartur hrafn.

(Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)

Efnisorð: , ,