föstudagur, september 14, 2012

Stórfyrirtækjum allt!

Á leið minni eftir Miklubrautinni rak ég augun í nýstárlegar merkingar, skilti sem bentu til að undirgöngin við Lönguhlíð væru neðanjarðarlestastöð. Ég hugsaði með mér að þetta væri einhver listrænn gjörningur (Kjarvalsstaðir eru þarna í næsta nágrenni) og svosem sniðugt útaf fyrir sig. Vorkenndi þó túristum sem kannski myndu halda að þarna væri í rauninni hægt að ná lest.

Síðan sá ég auglýsingu í strætóskýli sem með sama neðanjarðarlestarmerki — og áttaði mig þá á að það sem ég hafði haldið að væri sprell á listrænum forsendum var í rauninni auglýsing fyrir Icelandair. Auglýsing sem sett er niður í borgarlandslaginu eins og hún eigi heima þar, eins og það sé ekkert sjálfsagðara en leggja almannarými undir dulbúnar auglýsingar.

Það er líklega flestum Reykvíkingum í fersku minni þegar borgarstjórn leyfði einkafyrirtæki (Vodafone) að setja mark sitt á 17. júní hátíðahöldin árið 2003 svo um munaði. Ég þekki ekki nokkra manneskju sem hafði ekki skömm á þessu tiltæki. Eftir hrun var þessi einkavæðing 17. júní talin ein af einkennum markaðsvæðingar stjórnmálanna, eða hvað það var nú kallað þegar peningamenn gátu svínbeygt allt þjóðfélagið til að sitja og standa eins og þeim sýndist.

Talandi um hrun, það er eins og mig minni að Icelandair (sem einu sinni hét Flugleiðir og svo FL Group) hafi komið þar nokkuð við sögu (FL Group átti hlut í Glitni og Glitnir átti hlut í FL Group), þá undir stjórn Hannesar Smárasonar. En nú hefur semsagt borgarstjórn, borgarráð eða hver það er innan borgarapparatsins sem vélar um almannasvæði, ákveðið að það sé nú bara gaman að leyfa stórfyritæki að setja upp auglýsingar á nýjum og óvæntum stöðum. Enda er fyrir mestu að greiða götu fyrirtækja svo þau græði sem mest. Því eins og við vitum þá hagnast allt samfélagið á svona góðum fyrirtækjum, bara ef þau fá að leika lausum hala.

Mikil er skömm þeirra sem leyfðu þetta.

Efnisorð: ,