fimmtudagur, ágúst 23, 2012

Snarklikkaður en sakhæfur

Á morgun verður kveðinn upp dómur yfir kristna rasistanum og hægrisinnaða andfeministanum Anders Behring Breivik. Sekt hans er augljós: hann myrti 77 manns og slasaði 240, fyrst í sprengjuárás og svo með byssu að vopni þar sem hann sallaði unglinga niður augliti til auglitis.

Deilt hefur verið um hvort Breivik sé geðveikur eða ekki. Hann er auðvitað snarklikkaður en sú greining er aðeins á færi almennings, geðlæknar nota víst aðra flokkunaraðferð. Mér þykir líklegt að Breivik verði úrskurðaður sakhæfur og dæmdur til eins langrar fangelsisvistar og norsk lög leyfa. En kannski má halda honum lengur á réttargeðdeild heldur en í fangelsi, ef svo er þá skil ég vel ef hann verður sagður ósakhæfur og lokaður þar inni. Sannarlega á þessi maður aldrei aftur að fá að vera úti á meðal fólks.

Breivik á sér eflaust marga skoðanabræður sem hata tilhugsunina um fjölmenningarsamfélag og álíta hvíta karlmanninn öllum öðrum æðri. Hann sagði reyndar í stefnuyfirlýsingu sinni (þessari 1500 blaðsíðna löngu) að Hitler hefði skemmt málstað rasista með því að ganga fram af fólki með útrýmingarbúðunum. Nú hefur Breivik sjálfur talsvert skemmt fyrir skoðanabræðrum sínum sem líklega hafa sumir áttað sig á að það eru takmörk fyrir hve hægt er langt að ganga. Almenningsálitið snýst þeim sannarlega ekki í vil með morðum á almennum borgurum, hvað þá unglingum.

Morðin í Osló og Útey dugðu samt ekki til þess að skoðanabræður Breiviks skiptu um skoðun (þó baráttuaðferðirnar séu aðrar). Það sést best á andfeministunum sem hér á landi eru enn að reyna að brjóta feminismann á bak aftur — sem er eitt markmið Breiviks.

Það er spurning hvaða greiningu andfeministarnir fengju.

___
Viðbót: Breivik var úrskurðaður sakhæfur og var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Hann verður í öryggisgæslu sem þýðir að þegar refsivist lýkur er hægt að framlengja gæsluna fimm ár í senn til æviloka. Hann mun því aldrei aftur ganga laus.
(Ég breytti fyrirsögninni í samræmi við dóminn og bætti tölu slasaðra við textann.)

Efnisorð: , , , , ,