laugardagur, ágúst 18, 2012

Gömul karlremba segir frá

Eins og kunnugt er þykir fjölmiðlafólki fátt áhugaverðara en annað fjölmiðlafólk og þessvegna er Jónas Haraldsson er tekinn í smá viðtal í Fréttablaðinu í dag í tilefni af afmæli sínu. Jónas þessi er ritstjóri Fréttatímans, snepils sem ég hef forboðið að komi inn fyrir dyr heima hjá mér.

Meðan ég þó las Fréttatímann fóru pistlar Jónasar verulega í taugarnar á mér. Ég man ekki hvort ég klippti einhverja þeirra út til að geta vísað í þá (og ekki ætla ég inná vef blaðsins) þannig að líklega get ég ekki birt hér beinar tilvitnanir. Er ekki annars nóg að þeir hafi farið í taugarnar á mér, þarf ég nokkuð að koma með sannanir? Það vill til að Jónas segir sjálfur undan og ofan af efni pistla sinna í viðtalinu í dag: „Þessi pistlar snúast dálítið um samskipti kynjanna og yfirleitt hefur konan betur á endanum.“

Frá mínum bæjardyrum séð eru þessir pistlar argasta afturhald. Þeir snúast um að Jónas, sem fulltrúi karla á miðjum aldri, sé vonlaus í öllu sem viðkemur heimilishaldi: þvottum, eldamennsku, innkaupum, þrifum, undirbúningi jólanna og hvað það nú allt er.* Konan þarf sífellt að leiðbeina honum, setja ofaní við hann og redda hlutum fyrir horn sem hann er búinn að klúðra. Svo er hann bara sæll í sinni fávisku og athafnaleysi, með þessa líka ágætu konu sem sér um allt fyrir hann. Þetta stef má líka sjá í fjölmörgum sjónvarpsþáttaröðum sem fjalla um heimska eiginmanninn og (grönnu fallegu) eiginkonuna sem er í stökustu vandræðum með þetta ofvaxna barn en elskar hann samt og getur ekki án hans verið.**

Þegar Jónas var ungur maður var kvennahreyfingunni að vaxa fiskur um hrygg. Meðan konur af hans kynslóð menntuðu sig, ruddust út á vinnumarkaðinn og börðust fyrir jafnrétti, virðist hann (og nú tala ég ekki um hann einan heldur sem fulltrúa sinnar kynslóðar) hafa einbeitt sér að því að vera stikkfrí inni á heimilinu. Ég hef heyrt um karlmenn af þessari kynslóð sem öxluðu fjölskyldulíf og heimilishald til jafns við sambýliskonur sínar (eða næstum því), það voru semsagt til karlmenn sem vildu ekki feta í fótspor feðra sinna heldur vildu öðruvísi tilveru sem ekki fólst í því að vera gestir á eigin heimili. En svo voru greinilega til menn eins og Jónas. Og eins og það sé ekki nógu slæmt þá finnst honum það bara fyndið, gerir það að skemmtiefni hve vonlaus hann sé á heimilinu og konan þurfi að hugsa fyrir hann.

Jónas er auðvitað of gamall og hallærislegur til að vera fyrirmynd ungra karlmanna, en því miður hafa sumir þeirra tekið upp ósiðina eftir honum. Þeim fer þó fækkandi og verður ekki saknað. Ekki frekar en ég sakna pistlanna hans Jónasar.

___
* Nú hef ég örugglega talið upp eitthvað sem hann er snillingur í, ég lærði ekki pistlana utanað. Ef ég finn einhvern þeirra þá breyti ég eftilvill textanum, svo Jónas fari nú ekki í mál við mig.
** Sumir karlar sem vilja jafnrétti hafa gagnrýnt þessa karlímynd sjónvarpsþáttanna og segja þetta vera niðurlægjandi fyrir karla, því hún sýni karla sem heimska og óhæfa. Þeir líta alveg framhjá því að sjónvarpsþáttakarlarnir fá allt sem þeir vilja án þess að leggja neitt á sig. Mörgum karlmönnum þykir það örugglega meira eftirsóknarvert en niðurlægjandi. Ofangreindur Jónas lætur a.m.k. vel af sinni tilveru.

Efnisorð: ,