mánudagur, ágúst 06, 2012

Bleiki fíllinn, þrjár kærur komnar

Það er alveg rétt hjá Guðrúnu í Stígamótum að þær þrjár konur sem kærðu til lögreglu eru að öllum líkindum ekki þær einu sem var nauðgað á þjóðhátíð um helgina. Enda koma fjölmargar konur árlega til Stígamóta sem aldrei hafa kært. Það eru því enn ekki öll kurl komin til grafar.

Hvernig var það annars á þjóðhátíð þetta árið, var ekkert tjald á staðnum eða einhver vettvangur fyrir konur þar sem þær gátu talað um kynferðisofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir, svona svipað og þegar Stígamót voru á staðnum? Áttu konur kannski bara annaðhvort að kæra eða þegja? Ég verð að viðurkenna að mig grunar að með því að hafa enga slíka aðstöðu hafi markvisst verið að lækka töluna sem fjömiðlum yrði gefin um 'konur sem var nauðgað á þjóðhátíð'. Það var greinilega þannig niðurstaða sem átti að fást þegar þjóðhátíðarnefnd losaði sig við Stígamót.

Eftirlitsmyndavélavæðingin er gott skref í rétta átt en myndavélarnar ná ekki inn í hvert tjald. Það er heldur ekki nóg að geta borið kennsl á nauðgara og aðra ofbeldismenn og neglt niður ferðir þeirra eftirá, betra væri að koma í veg fyrir að glæpir séu framdir. Átakið bleiki fíllinn átti að ná til þessara manna en virðist ekki hafa gert það. Líklega var farið of seint af stað. Við feministar erum með áróður gegn nauðgunum allt árið og dugir ekki til. Nokkrar vikur fyrir verslunarmannahelgi nægja ekki til að breyta hugsunarhætti og hegðunarmynstri nauðgara.

Páli Scheving tókst ekki að breyta sínum hugsunarhætti og nú hefur hann hrökklast burt úr formannssæti þjóðhátíðarnefndar. Það voru þó góð tíðindi.

Efnisorð: ,