laugardagur, júlí 28, 2012

Frábið mér peningagutta hvaðan sem þeir eru

Ég hef ekki náð að æsa mig neitt verulega yfir fyrirhuguðum kaupum (nú leigu) Huang Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum. Hef
verið frekar svona á móti þeim en ekki fundist sannfærandi þessar samsæriskenningar um hvað liggi að baki áhuganum á ákkúrat þessu landssvæði. Enn síður hefur mér geðjast að útlendingahatrinu eða hreinlega rasismanum sem skín í bakvið andúð sumra á Huang.

Það var ekki fyrr en ég las stórfróðlega samantekt Láru Hönnu að ég varð verulega mótfallin málinu. Þessi klausa hér gerði útslagið.

Zhongkun Grímsstaðir ehf. er félagið sem mun „leigja“ Grímsstaðajörðina af GáF ehf., félagi sem sex sveitarfélög stofnuðu til að skuldsetja sig upp í rjáfur. Ætlunin er nefnilega að fá lánaðan tæpan milljarð hjá Nubo Huang til að borga einkaaðila fyrir jörðina. Sveitarfélögin verða sem sagt skuldbundin Nubo Huang fjárhagslega, líka það sveitarfélag sem hefur skipulagsvald á svæðinu.

Þetta kallar Þorsteinn Pálsson að sveitarfélögin séu að leppa kaupin. Því hvað annað er það þegar þau fá lánað hjá sama manninum og þau ætla að leigja jörðina? Og þessa líka upphæðina! Það er líka ágætt hjá Þorsteini* að benda á rannsóknarskýrslu alþingis í þessu sambandi og spyrja þessarar spurningar um viðskipti Huangs: „Getum við verið viss um að það sem hér er að gerast feli í sér bót á viðskiptasiðferði, stjórnsiðum og vinnulagi? “

Nú er Lára Hanna með aðra samantekt** þar sem málið skýrist heldur betur. Huang*** er fyrst og fremst að ásælast allt þetta flæmi til þess eins að veðsetja það. Peningana sem hann fær að láni út á jörðina ætlar hann svo að nota í annað. Eða með orðum Guðmundar Andra Thorssonar: „Þetta er bara peningagutti að gíra sig upp.“

Svona fjármálagjörningar eru okkur ekki ókunnir því hér fór allt á hliðina fyrir fjórum árum með fulltingi manna sem stunduðu þá linnulaust (og ekki má gleyma að útgerðarmenn veðsettu óveiddan fisk). Hvað gerist ef bankar ganga að hinni veðsettu 300 ferkílómetra jörð? Það er vond tilhugsun.

Hafi verið óæskilegt í mínum huga að Huang Nubo nái yfirráðum yfir Grímsstaðajörðinni þá er það gjörsamlega óhugsandi nú.

___
* Afsakið að ég skuli vitna með jákvæðum hætti í Sjálfstæðismann. Mér er smá flökurt sjálfri.
** Lára Hanna hefur boðað að hún skrifi meira um þetta mál alltsaman. Miðað við hve vel hún hún hefur staðið sig í þessu er ég þegar orðin spennt.
*** Eitt sinn var ég að hlusta á 'málfarsmínútuna' í útvarpinu. Þá var nafn Huang Nubo til umræðu og bent á að nafn hans er ritað að kínverskum sið, sem er sá að hafa eftirnafnið á undan. Því ætti að tala um hann sem Huang. Svo var reyndar bent á að sumir Asíumenn hafa reynt að koma í veg fyrir misskilning (eins og þann að Huang Nubo var kallaður Nubo til skamms tíma) og þá snúið nafni sínu þegar þeir kynna sig á erlendum vettvangi — en ef þeir hitta fyrir fólk sem veit um nafnahefðina geti vel farið svo að þeir verði aftur kallaðir eiginnafninu. Þetta nefni ég því ég sé að Lára Hanna skrifað nafnið hans sem Nubo Huang til þess að við þessi vestrænu áttum okkur á að Huang sé eftirnafnið. Slíkt getur semsagt haft þveröfug áhrif.

Efnisorð: , ,