föstudagur, júlí 13, 2012

Þegar ég gerðist rannsóknarblaðamaður

Því er haldið fram sem staðreynd að það sé nánast útilokað fyrir flóttamenn að fá hæli á Íslandi. Lengst af trúði ég þessu gagnrýnislaust — en það var áður en ég fór í heimsókn til Útlendingastofnunar.

Ég tók mig semsagt til og heimsótti Útlendingastofnun nýlega. Mér var sýnt inní öll herbergi þar og vakti athygli mína að þau voru notaleg, með plöntum og þægilegum stólum. Við settumst svo í þessa góðu stóla, ég og einn starfsmanna Útlendingastofnunar og hann leiddi mig í allan sannleika um starfsemina þar. Fyrst sagði hann mér að til starfsmanna væru gerðar miklar kröfur. Það er enginn ráðinn nema hafa langa og víðtæka reynslu. Að auki fara þeir á námskeið til að læra að taka skýrslur af hælisleitendum.

Ég spyr fullt af gagnrýnum spurningum og þeim er öllum svarað ljúflega af starfsmanninum í þægilega stólnum. Minn stóll er líka þægilegur.

Starfsmaðurinn: Það er mjög sjaldgæft að hælisleitendur treysti okkur ekki. Enda erum við traustvekjandi. Flestir vilja bara ekkert vera hérna hvorteðer.

Ég, í þægilega stólnum: En getur verið að flóttamenn fái ekki nægar upplýsingar og það sé þörf fyrir meiri stuðning?

Starfsmaðurinn: Við teljum ólíklegt að ástæðan fyrir óöryggi þeirra og vanlíðan sé upplýsingaskortur. Við gerum allt rétt. Er stóllinn þinn nógu þægilegur? Viltu kaffi?

Ég: Já, takk. Þetta eru mjög traustvekjandi svör. En getur nokkuð verið að starfsmenn komi dónalega fram við flóttamennina? Nú ertu tildæmis ferlega kurteis við mig.

Starfsmaðurinn: Ég er alltaf kurteis og við öll sem hér störfum, þannig að það er ólíklegt að við séum dónaleg við hælisleitendur. Það myndi líka einhver grípa inní ef eitthvað væri óeðlilegt við vinnubrögðin. Finnst þér tildæmis kaffið ekki gott?

Ég: Júh! Geturðu sagt mér hvernig ferlið fer fram við skýrslutökur?

Starfsmaður lýsir því í löngu máli og ég dotta í þægilega stólnum. Ég rumska þegar hækkar róminn og segir:
Okkar hlutverk er bara rannsaka málið, taka skýrslur og safna öðrum gögnum.

Ég (útafþví að ég man eftir að ég er rosalega gagnrýnin): Er engin hætta á að starfsmenn í rasisma sínum og útlendingahatri komi þeim skilaboðum, leynt og ljóst, á framfæri við hælisleitendur að það þýði ekkert að vera að standa í þessu?

Starfsmaðurinn: Við höfum engin áhrif á hvaða ákvörðun er tekin um hælisleitendurna og við færum aldrei að láta skoðanir okkar á þeim í ljós.

Ég: Ég trúi þér alveg, þú ert svo traustvekjandi. Ferlega er þetta gott kaffi og stóllinn þægilegur. En heyrðu, ég hef heyrt að þið trúið ekkert sögum flóttamannanna og gerið ekkert til að sannreyna þær? Eru einhver takmörk fyrir hvað þið nennið að sitja á rassinum í þægilegum stólum allan daginn og drekka kaffi?

Starfsmaðurinn: Við drögum auðvitað ekki frásögn hælisleitenda í efa og við spyrjum að því sem okkur þykir koma málinu við. Við gerum allt eftir okkar verklagsreglum sem eru þaulreyndar og við líka. Hér er allt pottþétt.

Ég: Verðið þið vör við að flóttamönnum líði illa í samtölum við ykkur og samskiptum við stofnunina?

Starfsmaðurinn: Ég fullyrði að það líður engum illa hérna vegna framkomu okkar.

Ég, alveg orðin hissa á hve mjög þetta stangast á við skoðanir mínar framað þessu: Hafið þið einhverjar skýringar á afhverju allir tala svona illa um ykkur?

Starfsmaður: Nei, við skiljum ekkert í því. Reyndar verðum við miklu frekar vör við þakklæti. Enda erum við ferlega næs. Viltu meira kaffi?

Ég: Segjum svo að einn af þessum hælisleitendum væri ósáttur, getur hann snúið sér eitthvað annað til að leita réttar síns?

Starfsmaður: Hann getur kært okkur, en það yrði auðvelt að sjá að við gerum aldrei neitt rangt.

Ég: Mér finnst dálítið merkilegt að það séu svona fáir sem fá hæli hér á landi. Hversvegna gengur svona illa að hjálpa þeim?

Starfsmaður: Það er ekki viljaleysi af okkar hálfu. Stundum bara ber þetta engan árangur.

Ég: En þetta tekur voða langan tíma.

Starfsmaður: Það er mjög óvenjulegt að langur tími líði en þá er skýringin ástæður sem við ráðum ekki við. Við höfum ekki mannafla en við reynum að tryggja hælisleitendum greiðan aðgang að okkur. Þeir mega tildæmis alveg hringja í okkur.

Ég: Nú hafa menn farið í hungurverkfall og beitt öðrum örþrifaráðum til að vekja athygli á máli sínu, en það er bara það sem kemst í fjölmiðlana. Vitið þið um fleiri dæmi þess að menn séu mjög örvæntingarfullir?

Starfsmaður: Nei. Við vitum ekki um önnur mál en þessi.

Ég: Ég hef áhyggjur af því að svo virðist sem ætlast sé til af flóttamönnum sem aldrei áttu skilríki í heimalandi sínu að þið ætlist til að þeir sanni sögu sína með pappírum og þar standi hnífurinn í kúnni. Getiði ekki slakað svoldið á í sönnunarbyrðinni?

Starfsmaður: Það kemur fyrir að hælisleitandi sé pappírslaus og þá leikur vafi á uppruna hans, aldri eða hvort hann er sá sem hann segist vera, en það er engin greinileg aukning á slíkum málum.


Niðurstaða mín eftir þessa heimsókn til Útlendingastofnunar er sú að ef flóttamenn upplifa eitthvað slæmt af hálfu hennar þá er skýringuna ekki að leita hjá Útlendingastofnun. Þar er fullt tillit tekið til viðkvæmrar stöðu þeirra. Engar reglur koma í veg fyrir mannleg mistök en það er vissulega mögulegt að einhverjir flóttamenn vilji frekar drepa sig en þola meðhöndlun stofnunarinnar. Þeir ættu frekar að kæra, finnst mér, þó ég skilji reyndar ekki undan hverju þeir hafa að kvarta. Ég upplifði þetta fína viðmót hjá Útlendingastofnun, þægilega stóla, gott kaffi og traustvekjandi svör. Hér eftir trúi ég öllu sem stofnunin segir.

___
ps. Hvern hefði ég átt að spyrja um verklag Útlendingastofnunar ef ekki starfsmenn þar? Þeir eru fullkomlega trúverðugir, það hef ég sannreynt yfir kaffibolla.