miðvikudagur, júní 27, 2012

Áfall og atvikalýsingar

Dómur hefur fallið yfir karlmanni sem stakk tvo menn með hnífi. Annar maðurinn særðist lífshættulega en hinn, sá sem stöðvaði árásina, fékk tvær hnífsstungur í átökum við ofbeldismanninn. Það er athyglisvert að lesa dóminn því þar ber framburði þessara þriggja manna ekki saman í nokkrum atriðum, einnig breytist framburður eftir því sem oftar er spurt og enginn mannanna man hvernig seinni maðurinn fékk hnífsstungurnar tvær.

Eftirfarandi er úr dómnum. Mínar athugasemdir eru í sviga.

Ofbeldismaður (Guðgeir) í yfirheyrslu hjá lögreglu 5. mars:
„Hann hefði stungið Skúla í kviðinn. Skúli hefði þá sleppt hendi hans og tekið utan um hann. Ákærði kvaðst hafa haldið áfram að ráðast að Skúla með hnífnum, en ekki geta sagt til hve margar stungur hann veitti honum í átökunum. Hann hefði tekið um axlir eða höfuð Skúla og þeir hefðu lent í gólfinu. Þá hafi annar maður komið inn á skrifstofuna og þrifið hann ofan af Skúla. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að sá maður hefði verið stunginn í lærið og kvað það hafa verið óviljaverk.“
(Tvær hnífsstungur í mann sem var ekki í herberginu áður fóru fram hjá honum.)

Ofbeldismaður (Guðgeir) í yfirheyrslu hjá lögreglu 9. mars:
„Við yfirheyrsluna 9. mars kom m.a. fram hjá honum að hann minntist þess að á meðan á atlögunni stóð hefði Skúli sagt við hann: „Ertu brjálaður.“ Síðan hafi hann ekki gert neitt og hafi virst vera búinn að gefast upp, eins og hann vissi að hann ætti eftir að deyja og ekki þýddi að berjast á móti. Kvaðst ákærði minnast þess að Skúli lá undir honum og hann hafi séð hnífsblaðið við háls hans. Hann hefði þá hugsað að hann ætti að „klára þetta“, en einnig hugsað með sér hvað hann væri búinn að gera. Þá hefði Guðni skyndilega verið kominn ofan á hann og haldið um úlnliði hans.“
(Þarna man hann skyndilega eftir hvað hann hugsaði og að hann hafði beint hnífnum að hálsi fórnarlambsins).

Ofbeldismaður (Guðgeir) við réttarhöld:
„Eftir það hefði hann misst stjórn á sér og stungið Skúla fyrstu hnífstungunni. Komið hefði til átaka og þeir fallið í gólfið og hefði ákærði lent ofan á Skúla. Þá hefði hurðin á skrifstofunni opnast og einhver gægst þar inn. Ákærði kvaðst hafa sparkað hurðinni til baka. Hann hefði haft hnífinn í vinstri hendi þegar þetta var og hefði hann litið niður á Skúla og séð að hnífurinn var rétt við háls hans. Hann hefði þá farið að hugsa um hvað hann hefði gert. Allt í einu hefði svo maður verið kominn ofan á hann og búið að draga Skúla undan honum.“
(Þarna man hann skyndilega að gægst hafi verið inn í herbergið og hann hafi sparkað hurðinni til baka.)

Ofbeldismaður (Guðgeir) við réttarhöld:
„Ákærði kvaðst ekki muna hvernig Guðni Bergsson hlaut áverka á læri, en tók fram að miðað við það ástand sem hann var í ætlaði hann ekki að neita að hafa verið valdur að áverkunum. Það væri mjög líklegt að hann hefði gert þetta.“
(Man enn ekki að hafa stungið seinni manninn. Líkurnar eru þó þær að hann hafi gert það svo hann neitar því ekki.)

Ofbeldismaður (Guðgeir) við réttarhöld:
„Ákærði kvaðst muna eftir að hafa stungið Skúla einu sinni, en kvaðst telja hinar stungurnar hafa komið þegar Skúli hefði staðið á bak við hann og hann sveiflaði eða fálmaði með hnífnum aftur fyrir sig. Hann kvað það ekki hafa verið í huga sínum að drepa Skúla.“
(Þarna er merkileg atvikalýsing, hann virðist geta stungið fólk sem stendur fyrir aftan hann. Minnir á Brúðina í Kill Bill.)

Fórnarlamb 1 (Skúli) við réttarhöld:
„Þeir ákærðu hefðu lent á gólfinu og hefði ákærði legið ofan á honum.“
(Um þetta ber honum saman við ofbeldismanninn).

Fórnarlamb 1 (Skúli) við réttarhöld:
„Hann kvaðst ekki muna til þess að ákærði hefði snúið baki í hann í átökunum sem áttu sér stað á milli þeirra og stungið aftur fyrir sig, eins og ákærði hafði lýst. Hann kvaðst hins vegar muna eftir því að hafa borið hönd fyrir andlit sér til að verjast hnífstungum og hefði hann við það fengið skurðsár á höndina og kinn.“
(Þarna ber árásarmanni og fórnarlambi ekki saman um hvernig árásarmaðurinn sneri, fórnarlambið aftekur ekki að ofbeldismaðurinn hafi snúið við sér baki en segist ekki muna það.)

Fórnarlamb 2 (Guðni) við réttarhöld:
„Skúli hefði verið undir veggnum vinstra megin á skrifstofunni og ákærði yfir honum með hníf í hendi. Guðni kvaðst hafa stokkið að mönnunum og komið að þeim á hlið aftan frá. Kvaðst hann telja að Skúli hefði verið á hnjám sér og að ákærði hefði verið bograndi yfir honum. Guðni kvaðst hafa reynt að ná ákærða af Skúla. Ákærði hefði haldið á hnífnum í vinstri hendi og hefði hann reynt að ná tökum á hendinni. Hann hefði náð taki á ákærða og keyrt hann í gólfið.“
(Hér er komin önnur lýsing á aðstæðum sem gengur í berhögg við framburð hinna tveggja: árásarmaðurinn hafi ekki legið ofan á fórnarlambi sínu. Þess ber að geta að Guðni er þrautþjálfaður í að átta sig á staðsetningu leikmanna á fótboltavelli meðan hann sjálfur er á harðahlaupum.)

Fórnarlamb 2 (Guðni) við réttarhöld:
„Borið var undir Guðna það sem haft var eftir honum í lögregluskýrslu sem tekin var af honum, að ákærði og Skúli hefðu legið í gólfinu þegar hann kom inn. Kvaðst hann ekki muna þetta nákvæmlega.“
(Hér er fórnarlamb 2 orðið tvísaga með framburð sinn.)

Fórnarlamb 2 (Guðni) við réttarhöld:
„Hann kvaðst ekki gera sér grein fyrir því hvernig það hefði gerst að hann særðist, en kvaðst telja líklegast að ákærði hefði slengt hendinni með hnífnum aftur fyrir sig í átökunum.“
(Hvorki ofbeldismaðurinn né fórnarlambið kannast við hvernig áverkar urðu til. Enginn virðist muna hvernig stærðar hnífur gekk tvívegis á kaf í læri á manni.)

Semsagt, hér er framinn hræðilegur glæpur, afleiðingarnar eru alvarlegar. Atburðarrásin, hver stóð hvar og hvernig hnífnum var beitt, er ekki alveg á hreinu. Hvernig aðstæður voru þegar seinni maðurinn kemur inn í herbergið er ekki á hreinu. Framburður árásarmannsins fer saman við framburð fyrra fórnarlambsins að sumu en ekki öllu leyti og ekki saman við seinna fórnarlambið. Seinna fórnarlambið lýsir aðstæðum á vettvangi að því er virðist af talsverðu öryggi í fyrra skiptið en segist ekki muna þær nákvæmlega þegar aftur er spurt.

Ég er ekki að gefa til kynna að einn eða neinn sé að ljúga eða reyna að gera lítið úr framburði fórnarlambanna eða því sem þeir máttu þola, síður en svo. En þetta er bara svo áberandi líkt því sem gerist þegar fórnarlömb annarskonar ofbeldis lýsa því sem gerðist: sum atriði eru greypt í minnið, önnur óljós, sumt rifjast upp, annað gleymist alveg enda þótt það sé mikilvægur partur af því sem gerðist. Um sumt ber fórnarlambi og ofbeldismanni saman um, annað stangast verulega á. En ekki stendur alltaf blóðbunan útúr fólki, það er ekki alltaf einhver sem snarast inní herbergið og stöðvar ofbeldið, það er semsagt ekki alltaf vitni, og ofbeldismaðurinn játar ekki alltaf skýlaust. Þessvegna fara sum ofbeldismál ekki fyrir dómstóla, í öðrum er jafnvel dæmt ofbeldismanninum í vil vegna þess að fórnarlambið mundi ekki alltaf sömu smáatriðin (eða stellingarnar) í sömu röð. Auðvitað skiptir máli hvort annar aðilinn heldur sig nokkurnveginn við sömu söguna en hinn bætir í eða dregur úr á víxl, það ræður oft úrslitum eins og oft má lesa í dómum. En andlegt ástand eftir áfallið geta sálfræðingar greint með góðri vissu, rétt eins og geðlæknar geta gert geðheilbrigðismat.

Það vill svo til að árás á líf og líkama fólks, þó hún gleymist ekki alla ævi (og fórnarlambið getur átt við allskonar eftirköst að stríða, ekki síst gríðarlegt vantraust og óöryggi), skrifast ekki endilega upp eins og skýrsla í kollinum á fólki meðan á atburðinum stendur. Það væri auðvitað fínt að geta svo ýtt á 'prenta' þegar til þarf að taka og þá birtist skýrslan skreytt afstöðumyndum. En árás er áfall. Ekki bregðast allir eins við því og ekki geta allir skýrt jafn vel frá því. Það er ekki þar með sagt að ekki hafi verið um ofbeldisglæp að ræða.

Efnisorð: , ,