sunnudagur, júní 24, 2012

Forsetakosningarnar

Ég hef löngu gert upp hug minn og veit alveg hver fær mitt atkvæði í forsetakosningunum. Samt tók ég prófið á DVum daginn. Kannski tók ég ekki prófið fyrr en því hafði verið breytt, en ég lenti allavega ekki í þeim hremmingum eins og Gísli Ásgeirsson að vera álitin áhangandi Ólafs Ragnars Grímssonar, þvert gegn vilja mínum. Mér var talsvert létt, því niðurstaðan var alveg í samræmi við ákvörðun mína. Það hefði nú verið hálfasnalegt að komast að því að frambjóðandinn sem ég hyggst kjósa væri á öndverðu máli við mig í flestu.

Ég vona samt að fólk láti þetta próf ekki hafa úrslitavald um hvern kosið verður. Þó spurt sé um siðareglur (sem ÓRG vill ekki setja embættinu), afstöðu til ESB (sem notað er til að gera Þóru tortryggilega) og Icesave (sem er helsta tromp ÓRG og aflaði honum fjölmargra illra læsra aðdáenda) þá er ekkert spurt um vafasöm tengsl við útrásarvíkinga, frámunalega heimskulega þjóðernisupphafningu eða hroka í garð æðstu ráðamanna jafnt sem meðframbjóðenda í forsetakjöri.

Ég sagði í könnuninni að mér finnst að forseti eigi að þegja yfir eigin skoðunum á umdeildum málum en starfa og tala í samræmi við stefnu ríkisstjórnar (orðalag spurningarinnar var 'meirihluta alþingis' og virðist þá ekki vera gert ráð fyrir minnihlutastjórnum). Sama gildir um utanríkisstefnu Íslands; það er afleitt að forsetinn segi bara það sem honum sýnist við erlenda fjölmiðla. Mér finnst fjarstæðukennt að forsetinn leggi fram lagafrumvörp (núverandi forseti myndi líklega setja fram frumvarp um að hann yrði í embætti til dauðadags og eftir það smurður, stillt upp til áheita og kallaður Ólafur helgi). Ég vil alls ekki að forsetinn hafni að skrifa undir lög sem fjalla um skuldir og skatta.

Ég vil Kristjáns Eldjárnslegan forseta, ég vil Vigdísarlegan forseta. Ég vil frið um embættið. Nóg er nú víst samt.

Efnisorð: , ,