laugardagur, júní 09, 2012

Þrátt fyrir ástarbréf og vafninga og nauðsynlegan niðurskurð í kjölfarið

Það gleður mig auðvitað ekki að ríkið noti 11 milljarða í Spkef (hver fann upp það bastarðsnafn?) eða hafi hent viðbjóðslegri upphæð í Sjóvá og aðra fjármálagjörninga. Tilgangurinn mun þó vera sá að verja almenning, þ.e. innistæðueigendur (eins og gert var í stóru bönkunum að fyrirskipun Geirs Haarde) og þá sem eiga kröfu á bótasjóð Sjóvár (þennan sem Þór Sigfússon tæmdi fyrir Milestone og Bjarni Ben vafði um fingur sér). Stóri reikningurinn sem lenti á ríkissjóði kom hinsvegar úr Svörtuloftum Davíðs Oddssonar en hann stýrði Seðlabankanum framaf bjargbrún — hann var uppá 175 milljarða, en ein og sér námu ástarbréfin sem Davíð skrifaði uppá 11,1% af landsframleiðslu.

Ríkissjóður hefur því tekið á sig mörg þung högg og þessvegna hefur orðið að skera niður hjá heilbrigðisstofnunum, menntastofnunum, menningarstofnunum og félagslega kerfinu. Fólk sem háð er þessum kerfum eða starfar hjá þessum stofnunum finnur verulega fyrir samdrættinum og sparnaðnum. Öryrkjar og aldraðir hafa það skítt, nú sem fyrr. En almenningur allur hefur það býsna gott. Atvinnuleysi hefur minnkað en hagvöxtur, kaupmáttur ráðstöfunartekna, einkaneysla og atvinna hafa aukist.

Þeir sem steyptu sér í skuldir fyrir hrun; keyptu sér hús og bíla af flottræfilshætti en ekki fyrirhyggju og lifðu eins og kóngar í fjölmörgum utanlandsferðum á ári, eru margir hverjir enn í djúpum skít. Margt hefur verið gert til að koma til móts við þá, en þrátt fyrir 110% leiðina og sérstaka skuldaaðlögun er æpt að það vanti skjaldborg um heimilin. Það er æpt um fátækt og atvinnuleysi (það eru auðvitað sorglega margir fátækir og sorglega margir atvinnulausir, en fátækt var hér viðvarandi fyrir hrun þó reynt sé að kenna núverandi ríkisstjórn um hana), en samkvæmt mælingu á líðan Íslendinga segjast 3,6% sig vera í þrengingum og 29% eru í basli en fyrir tveimur árum töldu 52% sig vera í basli. Það hefur því vænkast hagur hjá mörgum.

Staðreyndin er að langflestir hafa það býsna gott. Það er að miklu leyti þessari ríkisstjórn að þakka, þó hún hafi eflaust tekið rangar ákvarðanir einhverstaðar á leiðinni þá hefur hún náð að sigla útúr versta brimskaflinum og útá lygnari sjó, svo tekið sé upp sjómennskumyndmál það sem vinsælast var fyrst eftir hrunið. Hrunvaldarnir, útrásarvíkingar jafnt sem útgerðarmenn með veðsettan kvóta í útlöndum, í félagi við ritstj. í Hádegismóum hamast við að kenna ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur um allt sem aflaga hefur farið. Þær lygar mega ekki verða til þess að við gleymum hvaðan skellurinn kom.

Efnisorð: ,