sunnudagur, maí 20, 2012

Sérkennileg tillitssemi í strætó

Með farsímavæðingunni og þeirri ókurteisi sem henni hefur fylgt hafa forsvarsmenn strætó séð sig knúna til að hengja upp auglýsingar í vögnunum til að benda fólki á að ónáða ekki aðra farþega með blaðri í síma (þær auglýsingar eru jafnan hunsaðar). Hið gamalkunna skilti þar sem stóð að ekki mætti tala við vagnstjórann meðan vagninn er á ferð hefur gengið í endurnýjun lífdaga og er nú orðið ein af auglýsingunum sem virða má fyrir sér meðan vagninn er á ferð eða kyrrstæður. Ýmsar fleiri auglýsingar má núorðið sjá í strætó. Þetta eru ágætar auglýsingar útaf fyrir sig, og ekki vanþörf á að minna fólk á að sýna kurteisi og tillitssemi.

Þegar ég var barn voru mér kenndar kurteisisreglur sem giltu í strætisvögnum. Ein sú helsta var að standa upp fyrir gömlu fólki, barnshafandi konum og þeim sem voru með marga og þunga innkaupapoka (sem voru undantekningalaust konur). En í strætisvögnum nútímans er uppi skilti þar sem aldraðir karlmenn eru hvattir til að standa upp fyrir konum — að því er virðist bara vegna þess að þær eru konur. Eða eiga konur erfiðara með að standa uppréttar og þurfi meira að halda á sæti en aðrir? Ég verð að játa að ég skil þetta ekki alveg. Að vísu er konan í hælaskóm, kannski er gert ráð fyrir þeir meiði hana. Samt sem áður finnst mér að reglan um að aldrað fólk eigi að ganga fyrir sætum gildi umfram sárar tær og hælsæri.


Alveg er ég viss um að einhver heldur að feministar hafi heimtað að fullfrískar konur fengju sæti en gamlir karlar ættu að standa upp fyrir þeim. Það er leiðrétt hér með.

Efnisorð: