þriðjudagur, apríl 24, 2012

Vinstri stjórnin sem hrakti fólk úr landi og áfangastaðir þess

„Um það bil jafnmargir Íslendingar fluttu árlega til Danmerkur á árunum 2001 til 2009 eins og til Noregs síðustu þrjú árin.“ Þetta kom fram á ráðstefnu þar sem kynntar voru niðurstöður rannsókna á íslensku þjóðfélagi. Magnfríður Júlíusdóttir landfræðingur segir að fleiri hafi flust til Danmerkur á hverju einasta ári frá 2001 til 2009 - en úr því hefur dregið síðan - og þá hafi líka fleiri konur farið. Nú er aðallega talað um að karlar, iðnaðarmenn á miðjum aldri, séu að flytjast af landi brott í stórum stíl.

Ég kannast við einn karlmann, iðnaðarmann í yngri kantinum, sem hefur selt (eða leigt) íbúð sína og flust til Noregs. En ég þekki tvær fjölskyldur sem fóru til Flórida um páskana eins og þær gerðu í fyrra. Ég þekki líka fólk sem fer í golfferðir, skíðaferðir og ein hjón sem hafa farið í siglingu á skemmtiferðaskipi. Svona fyrir utan það fólk sem hefur skellt sér í sólarlandaferðir og borgarferðir. Ég skrapp til New York í síðustu viku, er setning sem ég hef heyrt oftar en einu sinni undanfarna mánuði.

Þau ferðalög teljast þó ekki með þegar talað er um hinn mikla fólksflótta sem hér á að hafa skollið á í kjölfarið á því að Jóhanna og Steingrímur tóku við stjórnartaumunum (en margir tala eins og hér hafi ekki orðið neitt hrun hvað þá að það sé neinum að kenna, síst Sjálfstæðisflokknum, Davíð Oddssyni eða Geir sem var krossfestur í gær). Reyndar hefur Kolbeinn Stefánsson félagsfræðingur skrifað um þennan fólksflótta og kallaði hann kreppumýtu: fólksflóttann sem aldrei varð og villandi umræðu um fólksflótta.

En auðvitað er mjög mikilvægt að veifa því sem mest að vegna andskotans vinstri-óstjórnarinnar sé fólk á flótta héðan í stríðum straumum. Það er hinsvegar spurning hvað stendur á farseðlinum ef að er gáð.

___
Viðbót: Kolbeinn Stefánsson skrifar í lok apríl nýja grein um 'fólksflóttavandann' þar sem hann skýrir frá því að samkvæmt tölum um flutningsjöfnuð á fyrsta ársfjórðungi 2012, séu: „Í fyrsta sinn frá hruni fleiri sem flytja til landsins en flytja frá því.“ Hann setur þann varnagla að ekki sé tímabært að halda því fram að þróunin hafi snúist við. Hann vill hinsvegar taka fram að þróunin er ekki eins slæm og látið er í veðri vaka. Kolbeinn segir líka að samkvæmt OECD sé atvinnuástand ekki svo bágt: „Atvinnuþátttaka er með því mesta sem gerist. Við erum með hátt hlutfall íbúa í launaðri vinnu. Vinnustundir á hvern vinnandi einstakling eru tiltölulega margar samanborið við þjóðir á svipuðu stigi hagþróunar.“

Efnisorð: