sunnudagur, apríl 01, 2012

Feminismi og húmor

Það var hrikalega fyndið að lesa Knúzið í dag. Aprílgabbið um að stofna ætti „ raunverulega öfgahreyfingu“ feminista var ágætt en umræðurnar í athugasemdakerfinu voru algert met og tryllingslega fyndnar. Þar fór hið eiginlega aprílgabb fram, sem var greinilega vel undirbúið, og margir knúzverjar tóku þátt í leikritinu. Ég neitaði að fara út úr húsi meðan á því stóð, heldur sat við tölvuna og hló að þessari skemmtan.

DV tók aprílgabb Knúzzins upp og birti sem frétt en aldrei slíku vant varð ekki allt vitlaust í athugasemdakerfinu því allir föttuðu að um gabb var að ræða. Ja, allir nema einn. Þrátt fyrir skrilljónir athugasemda á umræðuþræðinum um að í dag væri 1. apríl og fréttin um öfgasamtökin væri greinilega gabb, skrifaði Ragnar Halldórsson* þrjátíu og þrisvar í athugasemdakerfið. Þar tuðaði hann við sjálfan sig fram eftir degi, því enginn svaraði honum enda enginn með neinar umræður í huga í þessu grínsamhengi.** Hafi hann áttað sig á að um aprílgabb var að ræða lét hann það ekki stoppa sig í að skrifa langhunda sína gegn feministum.***

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem húmor feminista fer fyrir ofan garð og neðan hjá Ragnari meðan hann stendur einn úti á túni og tuðar. Fyrir allmörgum árum hélt Helga Kress fyrirlestur um hvernig viðtökur kvennafræðilegar rannsóknir hefðu fengið í byrjun hér á landi og hvernig gagnrýni hún varð sjálf fyrir. Á þessum fundi var mikið hlegið eins og segir í bráðskemmtilegri grein eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur. Í lok greinarinnar er sagt frá karlmanni sem skildi ekki allan þennan kvennahúmor og spurði Helgu í fúlustu alvöru hvort hún hataði karlmenn. Sá sem spurði var Ragnar Halldórsson.

Ragnar hefur semsagt lengi átt erfitt með að skilja konur, feminisma og húmor.

Fyrir fólk sem hefur í hyggju að lesa langlokur Ragnars legg ég til að það kynni sér hvernig auka má á lestraránægjuna með því að hlusta á Eirík Örn Norðdahl lesa upp „ljóð“ eftir Ragnar.

Þá fyrst verður Ragnar skemmtilegur.

___
* Þetta er sami Ragnar sem er kominn í myndaalbúm Hildar þar sem hann talar um hve erfitt sé að botna í hvenær konur vilja kynlíf og hvenær ekki. Hildur hefur líka bent á hve gáfulega hann skrifar um kynbundinn launamun, það er eitt af því sem langhundar hans í dag á DV fjölluðu um.

Nýlega skrifaði Ragnar (langa) úttekt á frumvarpi um nauðganir. Hann kallar frumvarpið fasisma og réttarmorð og talar um forréttindaeinræði, greinilega sannfærður um að ljúgvitnisbylting brjótist út í ef frumvarpið verður að lögum.

Og svo til að setja Ragnar ennfremur í samhengi þá er hann forstokkaður Sjálfstæðismaður (sjá skoðun mína á þeim í síðasta pistli mínum).

** Eftir að stafað var ofan í Ragnar að um aprílgabb væri að ræða heimtaði hann að fólk ræddi það sem hann hafði skrifað og fyrtist við þegar enginn varð við því.

*** Í langlokupistlunum (þar af var einn var uppá 770 orð og annar 862 orð) eru mörg gullkorn en of plássfrekt að birta þá hér, en þar segir hann m.a. að konur þurfi að sýna karlmönnum virðingu því þeir eigi hana skilda (þetta hafði talsvert skemmtigildi). Hann segir að konur kunni ekki að meta jafnrétti og að konur þurfi að kynna sér veruleika karla (við lifum í veruleika karla, Ragnar, og við sjáum heiminn frá ykkar sjónarhorni á hverjum degi m.a. gegnum fjölmiðla). Hann segir líka að karlar líti fremur á hag allra en konur (við hin vitum að konur eru hlynntari velferðarsamfélagi en karlar, þeir eru aftur á móti hlynntari einstaklingshyggju þar sem hver hugsar um sig og samfélagið skiptir ekki máli). En aðallega skrifar hann um hve mjög hallar á karla.

Efnisorð: ,