þriðjudagur, mars 20, 2012

Vanþróað viðhorf mengað af rasisma

Þrátt fyrir að hafa oft heitið sjálfri mér að hætta að lesa dv.is þá hefur mér ekki tekist að hætta því. Ummælin í athugasemdakerfinu eru iðulega svo viðbjóðsleg og sýna svo mikið mannhatur að mér verður illt. En svo kemur fyrir, eins og í dag, að þar er skrifuð athugasemd sem tekur fram því sem fjallað er um í fréttinni fyrir ofan.

Fréttin fjallar um skoðanir Guðmundar Franklíns Jónssonar á þróunarsamvinnu. Nánar tiltekið þá skömm sem hann hefur á því að reistur hafi verið spítali í Malaví fyrir íslenskt fé. Nú er þessi sami Guðmundur Franklín í forsvari fyrir stjórnmálaflokk sem mér skilst að ætli að bjóða fram í næstu þingkosningum, þannig að það ber að leggja á minnið hvað hann lætur útúr sér um samfélagslega ábyrgð.

Dæmi um ummæli Guðmundar:
„Við erum að loka heilsugæslustöðvum, elliheimilum og sjúkrahúsum um allt land. Læknar og hjúkrunarfólk flýr í stórum stíl, og á meðan erum við að reisa spítala í Malaví....þvílíkt rugl, en mjög passandi að þetta sé í Monkey Bay og Össur ætti að halda sig þar.“

„… eru ekki kommarnir og kratarnir komnir á kreik og reyna að verja mesta ruglríkisbatterí Íslands, Þróunarsamvinnustofnun. ÞÍ verður að leggja niður sem afslöppunarbúðir fyrir afdankaða krata sem hafa verið settir út á akurinn.“

„…þú ert lýðskrumari ef þú heldur því fram að það sé siðferðileg skylda Íslendinga að bjarga heiminum.“

„Það afar mikilvægt að hjálpa öðrum þjóðum með þróunaraðstoð. Sérstaklega þeim þjóðum sem við þekkjum vel til og eru með lýðræðislega stjórnarhætti.“

En frá þessum ósmekklegu ummælum Guðmundar og að stórgóðri athugasemd Agnars Kristjáns Þorsteinssonar, en hann beinir henni ekki síst til þeirra sem lýsa sig sammála Guðmundi í athugasemdakerfinu. Þetta segir Agnar:
„Til þeirra sem gleypa við þessu lýðskrumi Guðmundar Franklíns þá finnst mér þörf að benda ykkur sem fallið í þá gryfju að hefja hér upp sjálfumhvert væl ofdekraðrar þjóðar sem er ein sú feitasta í heimi, á nokkur atriði.

Við eyðum eitthvað um hálft prósent af þjóðarframleiðslu í þróunaraðstoð eða um 1700 milljónir. Þar af fær Malaví um 400 milljónir eða svo, sem eru um 23% af aðstoðinni sé miðað við tölur frá 2009.

Við eyðum um 150 milljörðum í heilbrigðiskerfið okkar sem sem gerir þessa upphæð sem fer í þróunaraðstoð um 0,01% af því sem við eyðum í okkar eigið kerfi.

Bygging spitala þar kostar aðeins brot af því sem það kostar að reka einn slíkan hér heima og skiptir okkur litlu sem engu máli í raun en íbúa þessa lands öllu máli.

Væntanlega munu þessar 400 millur sem fara til Malaví i þróunaraðstoð á ári, ekki slaga upp í brjóstastækkanir, botoxaðgerðir, þunglyndislyf og sálfræðihjálp handa þessari ofdekruðu vælukjóaþjóð.

Við erum ein af ríkustu þjóðum veraldar þrátt fyirr allt saman þar sem velflestir borgararnir hafa þak yfir höfðinu, rafmagn, hita, hreint vatn, erum velflest læs og skrifandi, góðar samgöngur, mat, gemsa, Internet o.fl. sem er þveröfugt við borgara Malaví sem er eitt fátækasta land heims, og hvað þeir hafa aðgang að.

Hættið þessu væli því, horfið aðeins upp úr þessu og lítið aðeins í kringum ykkur á gnægtirnar sem sjást hér á landi áður en þið farið að drulla yfir það að verið sé að hjálpa okkar minnstu bræðrum annars staðar í heiminum.

Ef þið getið það ekki þá vona ég að Internetið verði tekið af ykkur og þið send með næsta flugi til Malaví þar sem ykkur er ætlað að búa við fátæktrarmörk í eitt ár eða svo.“

Ég er reyndar ekki svo illgjörn að vilja taka netið af neinum en sannarlega hefði sumt fólk gott af að reyna að setja sig í spor annarra. En líklega tekst því ekki að líta nægilega lengi uppúr snjallsímanum sínum til þess.

Efnisorð: , , , , , ,