sunnudagur, mars 11, 2012

Um öfuga sönnunarbyrði, taka tvö

Þegar lögð var fram kæra á hendur Agli Gillzenegger Einarssyni stukku skrilljón nauðgaraverjendur fram. Þeir héldu því fram að verið væri að ljúga uppá hann. Höfðu þó ekkert fyrir sér í því annað en eigin sannfæringu.* Æptu þessir nauðgaraverjendur — og ég kalla þá það vegna þess að þeir ákváðu að verja mann sem sakaður er um nauðgun burtséð frá sannleikanum í málinu — að hann væri saklaus uns sekt sannaðist. Þar með veðjuðu þeir auðvitað á að hann yrði ekki dæmdur sekur: enda fara fáar kærur fyrir dómstóla og af þeim enda fáar með því að karlmenn séu dæmdir sekir. Fyrir því liggja ýmsar ástæður en neitun nauðgarans vegur verulega þungt.

En semsagt, í umræðum um sekt eða sakleysi manns sem fæstir vita hvort sé sekur eða saklaus, þá ofbauð nokkrum feministum þessar upphrópanir um 'saklaus uns sekt er sönnuð'. Þær bentu á að það væri ekki alltaf þannig. Þar með voru þær ekki að kalla eftir því að dómstólar færu að draga menn inn af götunni og dæma þá fyrir engar sakir, heldur að í umræðunni, þeirri umræðu sem fór fram um þetta tiltekna mál, væri fáránlegt að tilkynna að maðurinn væri saklaus. Vel gæti verið að hann væri sekur, og það gæti farið svo að hann færi ekki fyrir dóm og að hann yrði ekki dæmdur sekur. Þar fyrir utan gæti hann verið sekur af þeim glæp að hafa framið nauðgun enda þótt það yrði aldrei sannað á hann og hann slyppi við dóm.

Aldrei skildi ég ábendingar feminista um að 'saklaus uns sekt er sönnuð' ætti við um þetta mál (og svosem öðrum nauðgunarmálum: ekki síst í öllum þeim málum sem aldrei eru kærð. Þar sleppa nauðganir við dóm en eru þó þrælsekir), öðruvísi en ég skýri hér á undan. Aldrei datt mér í hug að þær væru að heimta að sönnunarbyrðinni væri snúið við.

Svo er önnur og sorglegri saga hve mjög sumu fólki er í mun að halda því á lofti að konur séu unnvörpum að kæra saklausa karlmenn fyrir nauðgun. Þeir sem taka undir það segja svo í hinu orðinu að þeir vilji endilega að menn séu kærðir/dæmdir fyrir alvöru nauðganir — en málið er bara að þeir trúa yfirleitt ekki að framdar séu nauðganir nema stórsjái á fórnarlambinu og vitni séu að atburðinum. Allt hitt er bara uppspuni og lygi.

Að halda því fram að það sé svo alvarlegt að saka karlmenn um nauðgun því þeir verði útskúfaðir úr mannlegu samfélagi — það á bara við um Steingrím Njálsson (og hann nauðgar ungum drengjum). Dæmi um hið gagnstæða er t.a.m. sorgarsagan frá Húsavík þarsem fórnarlamb nauðgara var hrakið úr bænum en hann studdur opinberlega af bæjarbúum. Fjölmörg dæmi eru einnig úr vinahópum og fjölskyldum þar sem afstaða er tekin með nauðgaranum, þar verður ekki séð að um útskúfun sé að ræða. Oft er einmitt brotaþolanum álasað fyrir að segja frá, níða góðan dreng.

En semsagt, það var ekki verið að heimta að sönnunarbyrði yrði snúið við heldur benda á að umræðan væri á þann veg að enginn mætti segja neitt um þessa nauðgunarkæru (nema til að bera blak af Agli og níða niður stelpuna sem kærði) og að Egill væri saklaus nema takist að sanna annað.

Það þarf heldur ekki að breyta sönnunarbyrði,** aðrar leiðir eru til að reyna að rétta hlut þeirra sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi. Í fyrsta lagi mætti laga íslensk lög að engilsaxneskum (en við fylgjum germanskri hefð þar sem ákæruvaldið verður að kynferðismökin eða samræðið hafa verið knúið áfram með ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung). Í engilsaxneskum rétti eru ofbeldi eða hótanir ekki þáttur í skilgreiningu á naugunarhugtakinu, heldur er nauðgun skilgreind þar út frá hugtakinu samþykki. Frumvarp Atla Gíslasonar og Þuríðar Backman sem þau lögðu fram 2008 gekk út á að gera skort á samþykki að þungamiðju kynferðisbrota***

Í öðru lagi mætti taka meira og oftar mark á sálfræðimati og vitnisburði starfsfólks á neyðarmóttöku um ástand brotaþola við skoðun. Jón Steinar Gunnlaugsson, æviráðinn hæstaréttardómari og þar áður verjandi flestra þeirra nauðgara sem lentu fyrir rétti, er reyndar á móti því að mark sé tekið á sálfræðingum, enda finnst honum auðvitað nóg að nauðgarinn segist bara ekkert hafa nauðgað fórnarlambi sínu og ef lífssýni segja annað þá er þeirri vörn borið við að hún hafi viljað 'kynmökin'. Þannig hafa nú margir sloppið, með fulltingi Jóns Steinars (og Brynjars Níelssonar og Sveins Andra Sveinssonar).

Eitt er ljóst og það er að einhverju verður að breyta svo að nauðgarar komist ekki upp með glæpi sína.

___
* Fjöldi fólks trúir því að Egill Gillzenegger Einarsson hafi nauðgað konunni (og er það álit byggt á hatursfullum orðum hans í garð nafngreindra feminista), og vita heldur ekki sannleikann í málinu, hver sem hann svo er.

** Ekki hef ég séð mikla málsvörn fyrir efnahagsbrotamenn og upphrópanir um mannréttindabrot sem gætu verið framin á þeim. Í frétt frá ágúst 2007 sem er horfin af vef RÚV kom fram að í sumum ríkjum Evrópu hafi lögum verið breytt þannig að glæpamenn þurfi að sanna að þeir hafa aflað verðmæta eða peninga með löglegum hætti en ekki með brotum, með það að markmiði að koma á svokallaðri öfugri sönnunarbyrði; það sé sakbornings en ekki ákæruvalds að sanna fyrir rétti að eigna og peninga hafi verið aflað á löglegan hátt.

*** Um kosti og galla engilsaxnesku réttarhefðarinnar er fjallað í bók Þórdísar Á mannamáli en það sem hér er skrifað er orðrétt úr kaflanum Kerfið sem fjallar m.a. um muninn á engilsaxneskum og germönskum réttarhefðum.
[Viðbót löngu síðar]. Atli lagði frumvarpið fram í félagi við aðra alls fimm sinnum. Fyrst á 135. löggjafarþingi 2007–2008, að lokum, og jafn árangurslaust og áður, á 141. löggjafarþingi 2012–2013. Kjarnann í frumvarpinu má lesa í grein eftir Atla frá 2007 sem lesa má hér.

Efnisorð: ,