sunnudagur, febrúar 26, 2012

Styrkjum staðalímyndirnar: Strákar eru klárari í tölvuleikjum

Seint verður sagt um mig að ég hafi mikinn áhuga á tölvuleikjum. Því ræður eflaust aldur minn fremur en kyn enda þótt ég geti auðvitað ekki vitað hvort ég yrði æsispennt að spila slíka leiki væri ég barn eða unglingur. En mér finnst samt sérkennilegt að tölvuleikir séu eyrnamerktir karlkyninu, að þeir séu þeir einu sem hafi áhuga. Ég skal ekkert efast um rannsóknir sem sýna að strákar hafi meiri áhuga á tölvuleikjum og séu líklegir til að spila þá fram eftir öllum aldri, en ég set spurningamerki við að stelpur og konur séu beinlínis útilokaðar.

Á Knúzinu var áhugaverð umfjöllun um tölvulæsi stelpna og stráka og fjallað um hvernig niðurstöður voru túlkaðar strákum í hag, sagt að strákar séu klárari að lesa úr upplýsingum á netinu og að stelpur eigi erfiðara með að vafra um netið. Svo kemur í ljós að þetta er ekki svona einfalt. En þó er reynt að halda því fram, í þessari grein sem gagnrýnd er á Knúzinu, að strákar standi betur að vígi, séu klárari á tölvur, upplýsingatæknin liggi betur fyrir þeim.

Afleiddar staðalímyndir þúsund ára verkaskiptingahefðar eru rótgrónar og vítahringurinn heldur áfram:

1. Upplýsingatækni er karlafag því það er tæknilegt.

2. Strákarnir eru styrktir í trú á eigin færni meðan stelpunum finnst þær sífellt minnimáttar. Frammistaða hvors hóps fyrir sig dregur dám af hinum (svokölluð pygmalion-áhrif).

3. Strákarnir leita inn á þessa braut og fá mögulega vinnu innan geirans í framhaldi af því. Stelpurnar eru mjög fáar innan upplýsingatækninnar. Annað hvort telja þær sig ekki eiga erindi í þessi störf eða þær hika við að vinna í þessum geira þar sem þeim finnst þær ekki velkomnar.

4. Af þessu er dregin sú ályktun að upplýsingatækni henti körlum betur.

Í stuttu máli sagt: framtíðin er þeirra.

Stórfyrirtæki sem selja tölvuleiki virðast einnig þeirrar skoðunar að karlmenn séu þeirra markhópur — ekki bara helsti markhópur heldur allur markhópurinn. Sumum þætti e.t.v. tilraunarinnar virði að reyna að selja kannski einhverju kvenfólki eitthvað svona tölvu-eitthvað, en þegar vitað er að framtíðin er karlmanna þá er það kannski óþarfi.

Stelpur eiga a.m.k. ekki auðveldara með að sjá fyrir sér framtíð sína á sviði upplýsingatækni eða tölvuleikjahönnunar sé þessi auglýsing skoðuð.


Viðbót. 2. mars birtist önnur heilsíðuauglýsing: á þeirri mynd var heil kona. Noh!

Efnisorð: