föstudagur, febrúar 10, 2012

Það er svo erfitt að vera barnaníðingur

Karlmaður hefur verið dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa tvisvar haft kynmök við fjórtán ára gamlan pilt og greitt piltnum fyrir. Eins og þetta sé nú ekki nógu hneykslanlega lítil refsing þá er röksemdin fyrir henni ekki skárri.
„Óttar [Guðmundsson geðlæknir] segir jafnframt að maðurinn hafi freistast til að leita eftir samskiptum við aðra karlmenn í netheimum og hafi þetta orðið til þess að hann hafi verið afhjúpaður* með miklum afleiðingum fyrir hann og fjölskyldu hans og hafi hann misst starf sitt.“

Við erum að tala um kennarann á Akranesi er það ekki? Þennan sem umgengst unglingsdrengi daglega. Eymingjans greyið að fá það ekki áfram. Hann sem hefði alveg getað sigtað út fleiri drengi sem hægt var að níðast á.

En það er auðvitað rétt að vera ekkert að loka barnaníðinga inni, ef þeir eru ekki haldnir barnagirnd svona almennt, heldur finnst bara stundum gaman að níðast á börnum ef annað betra býðst ekki.

En um að gera að fara mildum höndum um svona menn. Virðulegir fjölskyldumenn og bannað að tala illa um þá.

___
* Ég skil reyndar ekki alveg hvernig glæpamenn lenda fyrir dómstólum ef þeir hafa ekki verið afhjúpaðir; á að virða öllum glæpamönnum það til refsilækkunar að upp um þá hafi komist?

Viðbót. Hrafnhildur Ragnarsdóttur skrifaði fínan pistil um þetta mál, þó ég sé ekki sammála henni um fréttaflutninginn. Ég tel ekki að sé við fjölmiðla að sakast að þessu sinni, það er fátt annað sem kemur fram í dómnum en röksemdir geðlæknisins um hve barnaníðingurinn sé gúddí gæi. Auðvitað hefðu fjölmiðlar mátt benda á að hve fátt kemur fram í dómsorði og taka fram að hinn dæmdi er þar ekki nafngreindur. Sjálf hafði ég gleymt að gera grein fyrir mikilvægum punkti í þessu öllu saman, en ein athugasemdin við pistil Hrafnhildar er mjög hnitmiðuð um það atriði: „Það hefði nú bara hægt að stytta þessa frétt í 1-2 setningar. Menntaskólakennari sakfelldur fyrir kaup á vændi hjá ósjálfráða dreng í neyslu punktur. Þá er fréttin komin.“

Efnisorð: , , ,