mánudagur, janúar 23, 2012

Meðvitundarleysi markaðarins

Ég er auðvitað mjög sátt við að Guðný Þorsteinsdóttir vakti athygli* á kynskipta ísnum en þó ég hafi ekki vitað um tilvist hans fyrr en í gær þá náði ég varla að verða hissa áður en markaðsstjóri Emmessíss tilkynnti að ísinn yrði tekinn af markaði. Það þykja mér nokkuð snögg viðbrögð og mættu fleiri taka sér það til fyrirmyndar. Eitthvað virtist því markaðsstjórinn vita um hvernig ætti að lágmarka skaða og reyna að sjá til þess að fjöldi fólks færi ekki að sniðganga fyrirtækið. En að öðru leyti virðist hann vera algerlega úr öllu sambandi við samfélagið og samfélagsumræðuna.

Nú hefur Femínistafélag Íslands starfað í næstum níu ár. Allan þann tíma hefur félagið verið mjög sýnilegt og vakið athygli á mörgum málum sem varða jafnrétti kynjanna, þ.á m. staðalmyndum og hvernig þær birtast í auglýsingum og markaðsherferðum. Oft og iðulega verður uppi fótur og fit þegar félagið ályktar um einhver mál eða sendir frá sér tilkynningar eða talkonur þess koma fram í fjölmiðlum. Þegar yfirlýstir feministar tjá sig um jafnréttismál er hið sama uppi á teningnum, ekki síst ef um stjórnmálamann er að ræða — og þá sérstaklega ef viðkomandi heitir Kolbrún Halldórsdóttir eða Sóley Tómasdóttir.

Þessvegna er með miklum ólíkindum að hægt sé að vera svo meðvitundarlaus að halda að staðalímynd sé eitthvað sem fyrirtæki eigi að nota sér til markaðssetningar og útskýra það svona: „Við héldum bara að það væri þarna ákveðin staðalímynd og við ætluðum ekkert endilega að vera að búa hana til eða auka á hana eða eitthvað slíkt“. Markaðsstjórinn virðist halda að staðalímynd sé eins og jólakökumót og úr því að það sé fyrir hendi þá sé upplagt að nota það.** Hefur hann ekkert lesið eða heyrt um gagnrýni feminista á staðalímyndir?***

Um bleika og bláa litinn sem einkennandi lit fyrir annarsvegar stelpuís og hinsvegar strákaís**** þá segir hann: „Þetta er bara eitthvað sem byrjar strax á fæðingardeildinni og við töldum bara að þetta væri eitthvað sem væri samþykkt, eins langt og það nær.“ Og þessi litaskipting, og einmitt að hún byrji á fæðingardeildinni, hefur auðvitað aldrei komið til umræðu í samfélaginu, svo ég segi nú ekki á þingi?

Árið 2012 er jafnréttisbaráttan — svo ég segi ekki kynjastríðið — enn í fullum gangi. Þessvegna er furðulegt að álykta að „nú árið 2012 myndi þessu bara vera tekið sem þetta er, léttur húmor og grín.“ Ekki að ég haldi að kynskiptur ís sé alvarlegasta vandamál samtímans, en slíkt meiriháttar meðvitundarleysi á samtíma sinn og samfélag er skaðlegt.

Það er greinilega hægt að komast í ágætis starf hjá sæmilega virtu fyrirtæki, hugsanlega með einhverja menntun í markaðsfræðum, en án þess að vera með nokkurri meðvitund. Þar sem margháttuð fjölmiðlaumræða virðist ekki ná til fólks í svona störfum þá legg ég til að feministar, hvort sem er í félagi eða utandeildar, taki hús á auglýsingastofum og markaðsdeildum og neiti að fara fyrr en allir starfsmenn hafa hlýtt á stuttan fyrirlestur um feminisma, staðalímyndir og samfélagslega ábyrgð.

__

* Góður punktur hjá Agnari, bróður Guðnýjar, um hvernig talað er um konur sem gagnrýna. Eins og hann segir: „Karlmennirnir hafa kannski meiri vigt í svona málum heldur en konur að mati viðkomandi aðila“, og er þá að tala um hvernig karlmennirnir 100, sem sendu bréf vegna Þjóðhátíðar, eru ekki gagnrýndir jafn harkalega og konur sem voga sér að ræða nauðganirnar þar. (Svipað sagði ritstjóri Fréttablaðsins reyndar.)

** Forsvarsmenn Lego aðhyllast líka staðalímyndamarkaðssetningu fyrir börn.

*** Hann er kannski eins og bloggarinn og vinur hans sem fylgjast greinilega ekki með feminískri umræðu og lesa ekki Knúzið, en fullyrða samt að feministar hafi ekki tjáð sig um PIP brjóstapúðana. Viðhorfið er þá: ef ég sé það ekki þá er það ekki til.

**** Markaðsstjórinn meðvitundarlausi segir að ekki hafi verið gerð „vísindaleg könnun“ hjá Emmessís á bragðskyni fólks eftir aldri og kyni. Nú legg ég til að hann rannsaki, vísindalega eða bara í sínu nánasta umhverfi, hvernig gangi að fá stráka á grunnskólaaldri til að borða matvöru sem merkt er stelpum, lesa bækur sem kynntar eru sem stelpubækur eða ganga í bleiku. Hann þarf ekki að birta niðurstöðurnar.

Efnisorð: