þriðjudagur, janúar 10, 2012

43.000, ef ske kynni

Mér finnst stórmerkilegt að fólk sem hefur alið allan sinn aldur á Íslandi sé hissa á að samgöngur fari úr skorðum þegar geisar annað eins vetrarveður og undanfarið. Endalaust bætir á snjóinn, smá hláka breytti þar litlu um nema auka hálkuna, og síðastliðinn sólarhring hefur vart verið hundi út sigandi. Samt ætlast fólk til að það komi að götum og gangstéttum auðum í hvert sinn sem það stingur út nefinu.

Auðvitað er snjórinn fyrir okkur, hvort sem við erum fótgangandi eða akandi, og tefur för okkar. Fólk kemur of seint í vinnu, skóla, læknisheimsóknir og allt fer úr skorðum. Og það er pirrandi og svekkjandi. En að kenna borgarstjóra um þetta ástand er fáránlegt. Hann ræður ekki veðrinu. Þetta veður er óvenjulegt og ekki hægt að ætlast til að borgin eigi 43.000 snjóruðningstæki til að sjá til þess að enginn borgarbúi verði var við snjókomuna og allir komist ferða sinna eins og ekkert hafi í skorist.

Á hverjum morgni þegar ég vakna er komið blað innum bréfalúguna hjá mér. Iðulega er svo borinn út póstur um hádegisbil. Sá sem ber út póstinn er betur settur en blaðberinn sem er á ferðinni áður en traktorar með sköfu ryðja gangstéttir og skóflum beitt á innkeyrslur, gangstíga að húsum eða snarhálar tröppur. Ég hef ekki séð borgarbúa ryðjast í fjölmiðla til að hvetja alla til að vera búna að moka áður en blaðberar hefja störf; krafan er öll á borgina að moka svo þeir sjálfir komist í vinnuna.

Ég hef heldur ekki orðið vör við að fólk almennt vilji hækkað útsvar svo hægt sé að kaupa öll þau snjóruðningstæki sem þurfa greinilega að vera til taks ef skellur á óvenju snjóþungur vetur. En um að gera að eiga þau á lager, heilan helling.

Efnisorð: