föstudagur, desember 30, 2011

Fjármálaráðherra af betri gerðinni

Það eru mikil og ánægjuleg tíðindi að Oddný G. Harðardóttir setjist í stól fjármálaráðherra. Auk þess sem nú verða jafnmargir ráðherrar af hvoru kyni í ríkisstjórninni er þetta í fyrsta sinn sem kona verður fjármálaráðherra hér á landi.

Enn eru þeir þó til sem ekki treysta konum til að hafa vit á fjármálum. Í Markaðnum var íslenskt viðskiptalíf árið 2011 gert upp. Viðskiptamenn ársins voru karlmenn — ýmist með eða án bindis —  og viðskipti ársins að mati dómnefndar átti álíka fjölbreyttur hópur. Dómnefndin var reyndar hvergi nefnd en úr því var bætt með leiðréttingu í Fréttablaðinu í dag.

Í dómnefndinni sátu: Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAM Management, Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri DataMarket, Valdimar Halldórsson, sérfræðingur hjá Markó Partners, Vilhjálmur Bjarnason, lektor við hagfræðideild Háskóla Íslands, Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq OMX Iceland, Eggert Þór Aðalsteinsson, sérfræðingur hjá Virðingu, Gestur G. Gestsson, forstjóri Skýrr, Friðrik Guðjónsson, framkvæmdastjóri Keldunnar, Kjartan Ólafsson, framkvæmdastjóri Markó Partners, Magnús Halldórsson, fréttastjóri viðskipta hjá Vísi og Stöð 2, og ritstjórn Markaðarins.
Þarna er alveg heil kona.

Þeir sem stjórna Markaðnum telja semsagt að konur hafi ekki skoðun eða vit á því sem gerist í heimi fjármála og viðskipta. Við stjórnvöl landsins er sem betur fer fólk sem hefur meira álit á konum.

Efnisorð: ,