fimmtudagur, desember 15, 2011

Munurinn á smokknum og pillunni

Knúzið er gott en hefur þann galla að á athugasemdakerfinu liggja andstæðingar feminisma eins og mara. Þeir vaða þar uppi með fávískar hugmyndir eins og þær að smokkanotkun sé eingöngu til að koma í veg fyrir getnað og karlmaður sem neitar að nota smokk sé bara að taka sénsinn á því að gera konu ólétta. Kona sem vilji ekki verða ólétt geti bara verið á pillunni en smokkurinn sé alger óþarfi. Hin ágæta grein, sem andfeministinn þurfti endilega að setja skugga á, er um pólitískar samsæriskenningar sem skellt er fram þegar þekktir karlmenn eru ásakaðir um nauðgun.

Mál Assange snýst mikið til um að hann neitaði að nota smokk og þessvegna neituðu konurnar að stunda með honum samfarir. Karlmaður sem neitar að nota smokk er mjög líklegur til að nota ekki smokk, almennt og yfirleitt. Þarafleiðandi er karlmaður sem neitar að nota smokk líklegur til að vera með kynsjúkdóm, eða að minnsta kosti líklegri en sá sem alltaf notar smokk. Þessvegna vildu konurnar ekki stunda með honum samfarir smokklausum. En fávískir andfeministar stilla þessu með smokkanotkunina eins og það snúist um getnaðarvarnir.
„Nú mætti t.d. líkja því að nota ekki smokk við að ljúga til um að vera á pillunni, þótt það sé ekki 100% eins, en hefur svipaða merkingu hvað hættu á þungun snertir … Ég fæ því ekki séð að það sé neitt til að blása á að kona ljúgi til um pilluna. Slíkt atvik getur vel verið mjög alvarlegt. Spurningin er hvort við köllum það nauðgun og árás, hvort sem karlinn eða konan er hálfsofandi þegar mökin hefjast og karlinn stendur í þeirri trú að konan sé á pillunni?“
Þar sem andfeministinn sem hér um ræðir fær auðvitað ekki undirtektir við skoðunum sínum (sem allar snúa í þá átt að nauðganir séu léttvægar, misskilningur og upplognar af hálfu kvenna) þá skrifar hann að auki sérlega heimskulega bloggfærslu þar sem hann skautar framhjá kynsjúkdómavinklinum:

„En treysti fólk því sæmilega að kynsjúkdómar komi ekki við sögu, snýst málið aðeins um að koma í veg fyrir þungun og þá geta ýmsar gerðir getnaðarvarna fyrir konuna dugað til.“
Þetta snýst um kynsjúkdóma. Smokkar geta afstýrt smiti kynsjúkdóma.

HIV - alnæmi
Áhrifamesta vörnin gegn HIV er smokkurinn. Smokkurinn getur einnig komið í veg fyrir aðra kynsjúkdóma, t.d. herpes, kynfæravörtur, klamydíu og lekanda, og er auk þess góð getnaðarvörn.

Lifrarbólga B
Rétt notkun smokksins getur komið í veg fyrir smit. (Um lifrarbólgu B gildir það sama og um HIV, að smit getur orðið með öðrum leiðum en við samfarir, þá sérstaklega með sprautunotkun.*)

Klamydía
Um 2000 Íslendingar greinast árlega með klamydíu.
Smit á sér stað við samfarir þegar sýkt slímhúð annars einstaklingsins kemst í snertingu við slímhúð hins. Bakteríurnar geta líka smitað við munnmök. Viss hætta er á því að klamydía geti borist í augu ef sýktur einstaklingur snertir kynfærin og nuddar síðan augun. Þess vegna er góður handþvottur mikilvægur, t.d. eftir að farið er á salerni.**

Smokkurinn er EINA vörnin gegn smiti. Til þess að hann veiti hámarksvörn verður að nota hann rétt.

Klamydíubakterían er hættuleg af því að hún getur valdið ófrjósemi hjá konum vegna bólgu í eggjaleiðurum sem síðan geta lokast. Klamydía er ein algengasta ástæða ófrjósemi ungra kvenna.

Lekandi
Smokkurinn er EINA vörnin gegn smiti.
Lekandi er alvarlegur sjúkdómur því hann getur valdið ófrjósemi eins og klamydía. Þetta á bæði við um konur og karla. Lekandi getur einnig valdið sýkingu og bólgu í liðum, augnsýkingum og í verstu tilvikum sýkingu í eggjaleiðurum og kviðarholi.

Tríkómónas-sýking smitast einnig við óvarðar samfarir.
Svarið er sem fyrr: smokkurinn.

Hinsvegar skeyta flatlús og kláðamaur engu um smokkinn, fremur en aðrar skepnur.

___
* Um kynfæraáblástur, kynfæravörtur og sárasótt segir á heimasíðu Landlæknis: Smokkurinn getur bara verndað þá hluta kynfæranna sem hann hylur. Hann er því ekki fullkomin vörn gegn smiti því að slímhúð og húð sem ekki er hulin geta sýkst við samfarir.

** Hvað hafa aftur verið gerðar margar kannanir og rannsóknir sem leiða í ljós að skuggalega hátt hlutfall fólks þvær sér ekki eftir salernisferðir?

Efnisorð: ,