miðvikudagur, nóvember 23, 2011

Að breyta líkama kvenna í verkfæri karla

Afar fín grein á knúzinu í dag (þar eru oft afar fínar greinar) um staðgöngumæðrun og vændi.

„Það er hins vegar eitt að selja starfskrafta sína og allt annað að selja það sem beinlínis gerir þig að manneskju, líkama þinn og frjóvgunarmöguleika. Þetta verður greinilegt í vændi þar sem manneskjur þurfa að aftengja sjálfar sig til halda það út. Til að lifa af vændi þarf að líta á kynlíf sem virkni sem er aðskilin frá sjálfinu. Koma sér upp tvöföldum persónuleika, taka dóp til að loka á sjálfa sig og líta á líkamann sem hlut og söluvöru.


Hið sama er uppi á teningnum í staðgöngumæðrun. Þar verður konan að hlutgera fóstrið sem hún ber undir belti og er samt hluti af henni sjálfri. Hún verður að aftengjast því tifinningalega því annars veldur það henni þjáningum.“

Er ekki annars merkilegt að eins og það hefur nú verið lögð mikil áhersla á það í allri andlegri og líkamlegri heilsueflingu, að líkami og sál séu eitt og fólk eigi að tengjast líkama sínum — að staðgöngumæður og vændiskonur eigi barasta að aftengjast líkamanum og láta sig litlu skipta hvað er gert við hann eða hvað vex í honum? Afhverju er gerð þessi krafa til þeirra að þær séu öðruvísi en annað fólk — eða eru þær hreinlega litnar öðrum augum en annað fólk — þær séu þjónustudýr, nytjaskepnur?

„„Rétturinn“ til barna er nátengdur „réttinum“ til að nýta líkama kvenna til eigin þarfa. Svo einfalt er það. Slík réttindi mega aldrei festast í sessi því þá erum við að breyta líkama kvenna í verkfæri karla. Með staðgöngumæðrun smættum við konur í geymslurými, kynfæri, námu fyrir aðra til að grafa í og greiða fyrir með smáaurum. Í þessu skyni skiptir engu máli hvaða tilfinningarök eru notuð, eða hvaða fyrirmyndir eru kynntar til sögunnar. Þetta fjallar þegar allt kemur til alls um hvort nýta megi líkama kvenna til að fullnægja þörfum annarra. Eins og konur séu ekki manneskjur heldur náttúruauðlindir.“

Eins og talað út úr mínu hjarta.

Efnisorð: , ,