sunnudagur, nóvember 20, 2011

Góð skemmtun: morð, mansal, vændi, klám og vopnasala

Grein í Fréttablaðinu um vítahring ofbeldis og örvæntingar í mið og suður Ameríku rifjaði upp fyrir mér grein sem Smugan vísaði á í sumar. Það var stórgóð úttekt Sölku Guðmundsdóttur á tengslum fíkniefnaviðskipta og alls þess fjára sem henni fylgir og 'sakleysislegrar' neyslu djammara á Íslandi. (Greinin ber titilinn Lífrænar gulrætur, fair trade-súkkulaði & kólumbískt kókaín og má lesa hér, opna nr. 8.)

Í Fréttablaðinu segir þetta:
„Ástandið er nú verst í Hondúras, þar sem 77 manns af hverjum 100 þúsund voru myrtir árið 2010, en El Salvador og Gvatemala komu skammt á eftir með 66 og 50 morð á hverja hundrað þúsund íbúa. Rétt fyrir norðan, í Mexíkó, þar sem ástandið þykir með verra móti, er það þó samt töluvert skárra, því þar voru fram 18 morð á hverja 100 þúsund íbúa árið 2010.

Ástæðurnar eru að stórum hluta sagðar rekjanlegar til fíkniefnaglæpa, en almenn fátækt, misskipting auðæfa, umrót í kjölfar langvarandi borgarastyrjalda einnig sagt eiga sinn þátt í ástandinu. Viðbrögðin hafa að sama skapi víða beinst að því að uppræta fíkniefnasmygl og afbrot því tengd. Þannig megi ráðast beint að rót vandans. Hvergi í þessum heimshluta hafa stjórnvöld gripið til harðari aðgerða en í Mexíkó, þar sem hið svokallaða stríð gegn fíkniefnum hófst fyrir nærri fimm árum.“

Stríðið gegn fíkniefnum snýst um að hemja framleiðsluna og dreifinguna (sem er í höndum glæpasamtaka sem svífast einskis og fremja stóran hluta þeirra morða sem talin eru að ofan) en í grein Sölku fjallar hún ekki síst um eftirspurnina.

Fyrst talar hún þó um aðstæður í upprunalöndum fíkniefnaframleiðslunnar. Hún segir að skærusveitirnar AUC í Kólumbíu hafi sölsað undir sig stærsta hluta eiturlyfjaiðnaðinn og stjórni nú um 75% framleiðslunnar. AUC hafi myrt þúsundir manna, gerst sek um stórfelld mannréttindabrot og einnig stundað ólöglegan skæruhernað í nágrannaríkjunum. Liðsmenn skæruliðasveita og kólumbíska hersins hafi beitt nauðgunum og kynferðisofbeldi gegn konum og börnum. Kynlífsþrælkun er algeng, bendir Salka á, stúlkur lifa oft árum saman í ánauð skæruliða. Hún bendir á að nauðgun sé skilgreind sem vopn í stríðsátökum — í Kólumbíu haldi kókaínpeningar Vesturlanda uppi skæruhernaði þar sem nauðgunum er beitt í miklum mæli.

Þá fjallar Salka um herferð í Bretlandi sem var ætlað að vekja almenning til vitundar um siðferðileg álitamál gegn kókaínneyslu.

„Það sem reynt var að bena á í herferðinni bresku var öðru fremur þversögnin sem felst í því að taka siðferðislega ábyrgð á tilteknum sviðum en hunsa staðreyndir um kókaíniðnaðinn; fólk sem leggur mikið upp úr því að kaupa lífræn matvæli og fair trade-vörur, eða kaupir ekki vörur frá tilteknum fyrirtækjum eða löndum af siðferðilegum ástæðum, er oft sama fólkið og tekur kókaín um helgar. Er það ekki til marks um hræsni að neita að kaupa ísraelskar vörur sem fjármagna hernað gegn Palestínumönnum en finnast í lagi að sniffa kókaín í góðu flippi — sem fjármagnar morð og nauðganir í Suður-Ameríku?“

Kókaín er ekki eina fíkniefnið sem hefur víðtækari áhrif en bara á neytandann, sama má segja um önnur fíkniefni sem komið er í sölu á Vesturlöndum.

„Þau efni sem flutt eru til Vesturlanda frá Suður-Ameríku og Asíu fara yfirleitt í gegnum lönd þar sem eftirlit er slakt eða einkennist af spillingu, þar sem tiltölulega auðvelt er að stunda peningaþvætti eða þar sem víðfemt net skipulagðrar glæpastarfsemi er fyrir hendi. Á þeim lista eru fá vestræn lönd, fá vel stæð velferðarsamfélög — löndin sem dópið okkar hefur viðkomu í eru yfirleitt þróunarríki, stríðshrjáð lönd eða lönd sem hafa gengið í gegnum mikla umbrotatíma. Austur-Evrópa er dæmi um hið síðastnefnda; í löndum á borð við Eistland, Lettland, Moldóvu og Búlgaríu hefur skipulögð glæpastarfsemi grasserað eftir fall kommúnismans og á þessum stöðum hefur gríðarlegt magn af kókaíni, kannabisefnum, ópíumefnum og verksmiðjuframleiddum eiturlyfjum viðkomu áður en efnin eru send á áfangastað í hinum vel stæðari ríkum Vestur-Evrópu eða í Bandaríkjunum.“

Lögleiðing fíkniefna á Íslandi er þó ekki lausnin, það hefði engin áhrif á kólumbíska kókaíniðnaðinn önnur en þau að eftirspurn myndi mögulega aukast og þannig rynni meira af blóðpeningum inn í þá martröð sem kólumbíska borgarastyrjöldin er, segir Salka.

Mér finnst mikilvægur punktur í grein Sölku, sem er mun lengri en þessi brot sem ég hef hér sýnt, að fíkniefnaiðnaðurinn í þeim Austur-Evrópuþjóðum sem hún taldi upp er fjármagnaður meðal annars af íslenskum fíkniefnaneytendum.

„Fíkniefnaiðnaðurinn er í þessum löndum, eins og raunar víðar, nátengdur annarri glæpastarfsemi á borð við mansal, vændi, klám, annars konar smygl, peningaþvætti og vopnasölu … það er ekki ólíklegt að djammið okkar fjármagni mansal í Hollandi eða vopnasölu í Lettlandi.“

Eiturlyfjaneysla getur farið úr böndum hjá hverjum sem er og gert fólk að fíklum. Það hefur áhrif á líf þess og ættingja þess og getur orðið samfélaginu þungur baggi. Hvert slíkt tilfelli er sannarlega sorglegt. En að líta á neyslu allra hinna (sem halda að þeir verði ekki fíklar) sem einkamál þeirra, það er varla verjandi afstaða eftir að hafa lesið grein Sölku.

Efnisorð: , , , ,