laugardagur, október 15, 2011

Uppskrift að ábyrgum foreldrum

Þegar ég las Fréttablaðið í morgun (sem nú ætlar að hætta að birta vændisauglýsingarnar sem það þrætti fyrir að hafa birt áður; en fær ekki ákæru fyrir að hafa haft milligöngu um vændi, enda löggan ekki vön að böggast í þeim sem eiga og reka fjölmiðla) rak ég augun í auglýsingu frá einhverju hallæris tryggingafyrirbæri (sem borgar örugglega aldrei út bætur frekar en önnur tryggingafélög) sem virðist hafa ráðið vanvita til að hanna fyrir sig auglýsingu.

Auglýsingin sýnir foreldra (konu og karl) með barn (í bláum galla, semsagt strák, en mjög mikilvægt er að drengir alist upp við hefðbundna (lesist gamaldags) skiptingu milli kynja (svo þeir verði ekki ólæsir glæpamenn vegna skorts á stöðugleika)). Sitthvoru megin við foreldrana er búið að skrifa texta sem ætlað er að benda á hvað felist í því að vera ábyrgir foreldrar, hvaða hlutverk foreldrum er ætlað að gegna og hvað þeir eigi að setja á oddinn. Konan fær allt öðru vísi hlutverk en karlinn. Hún á að „rækta ástina“ en hann á að „njóta stunda í góðra vina hópi“. Annað er eftir því.

Nú, nokkrum tímum síðar, þegar ég settist niður og ætlaði að skrifa um þessi ósköp, sé ég að Smugubloggarinn Gylfi Þorkelsson hefur orðið fyrri til að summa upp hlutverkin sem líftryggingarnar, í samvinnu við auglýsingastofuna, ætla körlum annarsvegar og konum hinsvegar. Ég vitna því í orð hans fremur en skrifa þetta allt upp sjálf.

Karlar í föðurhlutverkinu:

„Pabbi á að axla ábyrgð, skipuleggja tímann, deila verkefnum innan heimilisins og stappa stálinu í hina fjölskyldumeðlimina þegar á móti blæs. Hann á að sýna tómstundum annarra fjölskyldumeðlima áhuga, fylgja litla krílinu á íþróttaleiki, tónleika eða annað sem áhuginn beinist að.

Pabbi á líka að vera þolinmóður og gefa sér tíma til að hlusta, hrósa þegar vel er gert og ræða málin af yfirvegun ef einhver fer út af sporinu. Hann á að hlúa að fjölskyldu- og vinaböndum, kalla á liðið í grill um helgar.

Þegar pabbi er búinn að öllu þessu má hann njóta stunda í góðra vina hópi, þ.e.a.s. ef hann temur sér holla lifnaðarhætti og er ekki á einhverju útstáelsi.“


Konur í móðurhlutverkinu:
„Mamma á að vera góð fyrirmynd. Hún á að búa í haginn fyrir breytta tíma og halda góðri rútínu á heimilinu. Enga óreiðu, takk! Hún á ekki að eyða í vitleysu, heldur sýna aðhald í fjármálum sínum. Hún verður að vera sveigjanleg, tilbúin að tileinka sér nýja hluti og sýna tillitssemi gagnvart öðrum í fjölskyldunni.

Það er í verkahring mömmu að miðla málum og hún verður að læra að treysta öðrum, vera ekki alltaf með nefið ofan í öllu! Hún á að vera jákvæð en staðföst og halda uppi passlegum aga. Og svo á mamma að passa að hvílast vel svo hún geti ræktað ástina í hjónabandinu.“

Og þessu hér er líka skipt milli hjóna, hnífjafnt auðvitað og við hæfi hvors kynsins um sig:
„Og í hvað eiga mamma og pabbi að nota höfuðið?

Mamma á að nota það til að rækta líkama og sál – fara kannski í ræktina og jóga. Pabbi á hinsvegar að afla sér þekkingar. Velferð fjölskyldunnar er undir því komin.“


Það er auðvitað algert ábyrgðarleysi og jaðrar við tryggingasvik að haga málum öðru vísi.

Efnisorð: , ,