sunnudagur, október 09, 2011

Viðtalið við Guðrúnu Ebbu

Nýlokið er útsendingu á viðtali við Guðrúnu Ebbu dóttur hins alræmda Ólafs biskups.

Að loknu viðtalinu dáist ég takmarkalaust að Guðrúnu Ebbu. Hún kom fram af mikilli stillingu og íhygli og var ákveðin að skýra bara frá sinni sögu en leggja ekki öðrum fjölskyldumeðlimum orð í munn eða skýra gerðir þeirra, eins freistandi og það hefði verið fyrir flesta í hennar sporum.

Hugrekki Guðrúnar Ebbu sýnir sig ekki síst í því að koma fram með sögu sem er gloppótt (hún getur ekki sagt frá fyrsta skiptinu né því síðasta) og viðurkenna mótsagnirnar. Þetta eru þau atriði sem þolendum kynferðisofbeldis, ungum sem gömlum, er sífellt núið um nasir og notað gegn þeim. Mótsagnir eru álitnar rýra trúverðugleikann: hvernig gastu umgengist hann, varið hann, eftir þetta?

Ég hef sjaldan séð trúverðugra viðtal.

Efnisorð: ,