Það sem við höfum hingað til kallað spillingu
Þá er komið að hinum sívinsæla þætti „Karlmönnum hrósað“. Að þessu sinni er það ekki fyrir feminíska takta heldur annarskonar snarpa hugsun.
Agnar Kr. Þorsteinsson, sem hefur verið einn af bestu bloggurum eftirhrunstímans, tók sig til og skrifaði fjármálaráðherra bréf vegna ráðningar Páls Magnússonar í embætti forstjóra Bankasýslu ríkisins. Alveg burtséð frá því hvort Steingrímur Joð getur eitthvað tjónkað við Bankasýsluna eða hefur eitthvað með mannaráðningar þar að gera, þá er þetta stórgóð samantekt og skemmtilega orðuð hjá Agnari.
Bréf Agnars hljómar svona í heild sinni.
Agnar Kr. Þorsteinsson, sem hefur verið einn af bestu bloggurum eftirhrunstímans, tók sig til og skrifaði fjármálaráðherra bréf vegna ráðningar Páls Magnússonar í embætti forstjóra Bankasýslu ríkisins. Alveg burtséð frá því hvort Steingrímur Joð getur eitthvað tjónkað við Bankasýsluna eða hefur eitthvað með mannaráðningar þar að gera, þá er þetta stórgóð samantekt og skemmtilega orðuð hjá Agnari.
Bréf Agnars hljómar svona í heild sinni.
“Sæll Steingrímur,
Ástæðan fyrir því að ég rita þér þetta bréf er að mér blöskrar ráðningin á Páli Magnússyni sem forstjóra Bankasýslu ríkisins út af nokkrum atriðum.
1. Vanhæfni Páls Magnússonar-Samkvæmt 6. Grein laga um Bankasýslu ríkisins þá ber að ráða sem forstjóra einstakling samkvæmt eftirfarandi:
„Stjórnarmenn og forstjóri skulu hafa haldgóða menntun auk sérþekkingar á banka- og fjármálum. Gæta skal þess við skipun stjórnar að starfsreynsla og menntun stjórnarmanna sé sem fjölbreyttust á þessu sviði og þeir hafi trausta þekkingu á góðum stjórnarháttum fyrirtækja.“
Páll Magnússon er með BA í guðfræði og master í stjórnsýslu en hefur enga reynslu eða sérþekkingu á banka- og fjármálum þó sem aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttir þá hafi hann verið með innstu koppum í búri á hinu hryllilega einkavinavæðingarferli sem við súpum hið ansi dýrkeypta öl Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar af í dag.
Nú getur svo sem að vegna þess að kirkjustarfsemi er elsta fjárplógsstarfsemi veraldar að það geti talist vera sérþekking á fjármálum en miðað við hina einstaklingana sems sóttu um þá bliknar það í samanburði. Einn hefur þriggja ára stjórnunarreynslu úr fjármálageiranum og starfar sem forstöðumaður eignastýringar hjá Bankasýslunni, annar hefur 30 ára reynslu úr fjármálastofnunum og mest sem stjórnandi og þriðji aðilinn sem er kona, hefur áratugsreynslu úr stjórnunarstörfum fyrir fjármálageirann og hefur setið f.h. Bankasýslunnar í stjórn Íslandsbanka.
Eins og sjá má þá hefur Páll enga menntun eða sérþekkingu á sviði fjármálastarfsemi nema það sem hann tengdist í gegnum stjórnmálin ólíkt hinum umsækjendunum.
2. Tengsl Páls Magnússonar við aðra aðila- Í sömu 6. grein laga um Bankasýsluna segir ennfremur svo:
„ Stjórnarmenn og forstjóri skulu hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga verulegra hagsmuna að gæta né mála sem varða aðila sem eru tengdir þeim persónulega eða fjárhagslega.“
Fyrir það fyrsta skal nefnt að bróðir Páls, Árni Magnússon fyrrum félagsmálaráðherra, er háttsettur yfirmaður hjá Íslandsbanka og það mun strax valda vanhæfni í raun þegar kemur að Íslandsbanka í störfum hans, hvað þá að það verði til að auka traust á viðkomandi, sérstaklega ef hætta er á að blóðböndin verða misnotuð til ávinnings eða upplýsingarleka.
Í annan stað er nauðsyn að benda á tengsl stjórnarformannsins Þorsteins Þorsteinssonar við Pál Magnússon sem slíkan en Valgerður Sverrisdóttir beitti sér mikið fyrir því á árinu 2000 að Þorsteinn myndi leiða sameiningarviðræður milli Lands- og Búnaðarbanka en Þorsteinn var þá yfirmaður verðbréfasviðs, og bendir þetta til sérstaks trúnaðarsamband á milli Valgerðar og Þorsteins. Páll var þá aðstoðarmaður Valgerðar og er því góðar líkur á að hann hafi notið velvildar og jafnvel þess sem hefur verið fullyrt en ekki staðfest við mig, að þeir séu samflokksmenn.
3. Réttlætingarrökvilla stjórnarformanns Bankasýslu ríksiins- Mér finnst nauðsyn að benda á þessa rökvillu í málflutningi Þorsteins Þorsteinssonar þar sem það er fullyrt að stjórnmálastörf og þar með talin aðstoðarmennska Páls séu talin honum til tekna í ráðningarferlinu en að sama skapi þá segir Þorsteinn að ákveðið hafi verið að láta ekki aðstoðarmannsfortíð hans og störf í kringum einkavinavæðinguna hafa áhrif á ráðningarferlið.
4. Traustið og einkavæðingin- Í ljósi þess að framundan eru tímar einkavæðingar á hlut ríkisins í bönkunum þá verður það að grunnkröfu að það verði eins skothelt og traustvekjandi og hægt er. Í ljósi fortíðar Páls Magnússonar í tengslum við einkavinavæðingarferlið sem aðstoðarmaður viðskiptaráðherra og með innstu koppum í búri þannig séð þá verður ekki hægt að kalla það fram traust sem þarf. Einnig mun sú staðreynd að vanhæfasti einstaklingurinn var ráðinn, hann tengist fjölskylduböndum háttsettum bankamanni og að líklegast hefur verið um vina/klíku/flokksráðningu að ræða sem við höfum hingað til kallað spillingu, þá munu deilur og vantraust ríkja um störf forstjóra Bankasýslunnar, sérstaklega þegar gamlir Framsóknarmenn fara að gera tilboð(og þá er stutt í að maður finni Finn).
5. Óbein áhrif andverðleikasamfélagsins-Það er nauðsyn að benda á og rifja upp að þegar vanhæfustu einstaklingarnir eru ráðnir á grundvelli stjórnmálaafskipta en ekki þeir mest reyndu og best menntuðu þá dregur það úr vilja góðs fólks að reyna að sækja um ábyrgðarstörf á vegum ríkisins. Það þýðir að ríkið mun fá vanhæfa einstaklinga líkt og áður í stjórnunarstöður með afleiðingum spillingar, vantrausts og jafnvel annars Hruns líkt ef sambærilegir einstaklingar og þá komast í stjórnunarstöður á vegum ríkisins.
Ég skora því á þig að beita þeim lagalegu úrræðum sem þú hefur til að sjá til þess að ráðning Páls verði dreginn til baka og að hæfasti einstaklingurinn verði ráðinn. Einnig skora ég á þig að beina þeim tilmælum til Bankasýslunnar að beita sér gegn ofurlaunum og bónuskerfum innan bankanna.
Að lokum þá hvet ég þig til að beita þér fyrir aðgerðum gegn bönkunum í vetur sem nauðsyn er að framkvæma s.s. aðskilnað á viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi, bann á bónuskerfi vegna skaðsemi þeirra, aðgerða gegn fjármagnsflutningum til skattaparadísa og fyrirtækjum sem eru staðsett þar eða nýtast við slíka meinsemd mannkyns, aðgerða gegn kennitöluflakki og afskriftum auðmanna og kvótagreifa sem fá að halda eigum sínum ólíkt almenningi.
Bestu kveðjur,
Agnar Kristján Þorsteinsson”
<< Home