mánudagur, september 12, 2011

Hugleiðing um bleika og bláa hönnun

Stórfróðlegur pistill Sóleyjar Stefánsdóttur grafísks hönnuðar í Víðsjá vakti mig enn og aftur til umhugsunar um hvernig heimurinn er hannaður fyrir karla (iPod, karlmannsfatnaður sem viðmið, bílbelti, stólar í kvikmyndahúsum). Hún minntist þar meðal annars á snjósleða sem eru hannaðir þannig að þyngd þeirra er ákkúrat þannig að meðalkarlmaður getur reist þá við ef þeir velta, en meðalkonan ekki. Snjósleðinn er ekki hannaður svo þungur að meðalkarlmanninum sé ofraun að reisa hann við, en heldur ekki léttur nægilega til að konur ráði með góðu móti við hann. Markhópurinn er karlmenn og hönnunin miðar við þá.

Annað sem Sóley talaði um er notkun bleika litarins. Stelpudót er bleikt en svo komast þær að því þegar þær eldast að sá bleiki þykir væminn og nýtur takmarkaðrar virðingar. Sóley nefndi nokkur dæmi um hve bláa litnum — strákalitnum — er hinsvegar hampað þegar skapa á hugmynd um styrkleika og virðingu, s.s. í bankaauglýsingum (og auglýsingum Sjálfstæðisflokksins).

Þá rann upp fyrir mér ljós. Blátt er eftirsóknarverðasti liturinn.** Enginn þjóðfáni er bleikur.*** Fjölmargir, og fáni Evrópusambandsins að auki, eru meira og minna bláir. Virðing, traust og heilu þjóðirnar, þær eru bláar. Líklega er það þessvegna sem hin gamla aðferð við að nota bláan lit fyrir stelpur og rauðan fyrir stráka var lögð af og hlutunum snúið við svo að stelpurnar fengu væmna bleika litinn í sinn hlut en strákarnir þann bláa. Og það þykir auðvitað eðlilegt, því heimurinn er hannaður fyrir þá.

___
* Pistill Sóleyjar byrjar á 26:39 mínútu og er tíu mínútna langur. Bleikt og blátt umræðan er á 30-31 mínútu.
** Í könnun sem var gerð um eftirsóknarverð málverk kom í ljós að blái liturinn var í uppáhaldi hjá flestum þátttakenda, sem voru frá 14 þjóðlöndum.
*** Í þremur fánum vottar fyrir bleiku, en þeir hafa líka bláan, grænan, rauðan, gulan, hvítan, svartan lit, svo ekki er sá bleiki áberandi. En það eru semsagt Montserrat, Turks- og Caicos-eyjar og Bresku Jómfrúaeyjar sem flagga svo fjölskrúðugum fánum að meira segja bleikur slæðist þar með. Það eru reyndar engar trylltar bleikar litasprengingar heldur svo fölbleikur litur í svo litlu magni að það er vart sýnilegt. Í fána Montserrat er semsagt Erin, sem er persónugervingur Írlands, og húðlitur hennar er bleikur. Bresku Jómfrúaeyjar hafa heilaga Úrsúlu og hennar húðlitur er líka bleikur. Í fána Turks- og Caicos-eyja er m.a. bleikur kuðungur.

Efnisorð: ,