sunnudagur, mars 21, 2010

Val fólksins!

Lítið lát virðist vera á umræðunni um listamannalaunin og dugir sjálfsagt ekkert minna en útgáfa rannsóknarskýrslunnar til að draga athyglina frá þeim. Pétur Gunnarsson skrifaði góða grein (sem hann kallar „Hinn árlegi héraðsbrestur“) og fleiri hafa lagt sitt af mörkum til að reyna að skýra fyrir almenningi út á hvað listamannalaun ganga og hversvegna þau eru æskileg eða jafnvel nauðsynleg. Samt virðist sem skilaboðin komist ekki til skila og athugasemdir við t.d. blogg Egils Helgasonar eru mörg á þá leið að ekkert sé vitlausara og tilgangslausara, gott ef ekki siðlausara en að listamenn fái peninga fá ríkinu.

Í leiðara í Fréttablaði helgarinnar kallar Steinunn Stefánsdóttir þetta „árlega sönginn“ og nefnir ýmis góð rök fyrir því að listamenn fái starfslaun.* M.a. bendir hún á að listamannalaun skapi hagvöxt og störf, sem er eflaust mikilvægt atriði í huga margra þeirra sem andsnúnir eru að listamenn fái starfslaunin. Um þetta skrifaði Pétur Gunnarsson líka. Mér er reyndar slétt sama um þann þátt málsins því ég hef meiri áhuga á öðrum þáttum eins og þeim sem Steinunn nefnir reyndar líka þegar hún segir:
„Ekki þarf einu sinni svo lítið málsvæði eins og það íslenska til þess að óraunhæft geti talist að sala á skáldverki standi undir launakostnaði höfundar meðan á samningu þess stendur. Velta má fyrir sér hvort þessi 60 prósent þjóðarinnar sem segjast vera andvíg listamannalaunum myndu vilja búa í landi þar sem útkoma frumsamins skáldverks væri viðburður sem ætti sér stað á nokkurra ára fresti.
Sömuleiðis má spyrja hvort meira en helmingur þjóðarinnar væri sáttur við að búa í samfélagi þar sem ekki þrifist tónlistarlíf sem ekki stendur undir sér með aðgangseyri og sölu á útgefinni tónlist, utan Sinfóníuhljómsveitarinnar sem raunar verður reglulega fyrir barðinu á umræðunni um að ríkið eigi ekki að reka slíka sveit. Á sama hátt má velta fyrir sér hvernig myndlistarlífið væri í landinu án launanna. Líklegt er að einungis fáeinir myndlistarmenn gætu helgað sig þeim starfa.“


Starfslaun og heiðurslaun og munurinn þar á
Í fyrsta lagi rugla menn sífellt saman starfslaunum listamanna og heiðurslaunum listamanna en þau síðarnefndu eru veitt eldri listamönnum (og það er þeim sérlegur þyrnir í augum að Þráinn Bertelsson skuli þiggja þau síðarnefndu) sem virðist seint ganga að fá þá til að skilja að eru einskonar þakkir til fólks sem hefur eytt megninu af ævi sinnar til listsköpunar án þess endilega að bera mikið úr býtum (og hefur þ.a.l. ekki alltaf borgað reglulega í lífeyrissjóði). Þetta eru semsé ekki laun til starfandi listamanna, þó auðvitað séu engar kvaðir um að þiggjendur heiðurslauna þurfi að sitja með hendur í skauti það sem eftir lifir.

Starfslaunin eru afturámóti laun sem listamenn þurfa að sækja um sérstaklega ár hvert, leggja fram verkefnaáætlun og skýra frá því hverju þeir hafa verið að sinna undanfarið. Þau sem fá úthlutað starfslaunum (sem er bara brot af öllum þeim sem sækja um) þurfa svo að skila skýrslu um afraksturinn; t.a.m. sýningarnar eða samninga um sýningar sem eru í uppsiglingu. Skili þeir ekki skýrslu eða hún sýnir ekki fram á fullnægjandi árangur fær listamaðurinn ekki aftur starfslaun á næstunni.

Listamenn sem sækja um eru í fremstu röð en þó eru margir þeirra sem fá ekki starfslaun listamanna nema endrum og sinnum. Þurfa þau þá að leggja til hliðar þá launuðu vinnu sem þau kunna að hafa til að sinna listinni eingöngu; annars teljast þau ekki vera að nýta það tækifæri sem starfslaunin eiga að veita þeim til að sinna listsköpuninni. En flest fólk áttar sig á að þó listsköpun geti farið fram meðfram fullri vinnu þá er það slítandi til lengdar og ekki hægt að búast við að fólk þroski hæfileika sína eða nái að komast þangað sem hæfileikar þeirra standa til með slíku harki.

Markaðslögmál, framboð og eftirspurn
Vinsælt er að segja að listamenn sem séu að gera eitthvað af viti geti selt verk sín og lifað af því. Selji þeir ekki verk sé það til marks um að þeir séu lélegir listamenn eða eigi ekki að vera að framleiða list sem enginn vill kaupa. Aðrir eigi ekki að þurfa að borga þeim fyrir þetta áhugamál þeirra.

Margir virðast líta svo á að vegna þess að bækur Arnaldar seljist þá hafi allir rithöfundar það gott og séu þeir ekki að selja nógu margar bækur til að lifa af sölunni þá eigi þeir bara að skrifa söluvænlegri bækur. Markaðurinn eigi að ráða, ef spennubækur eru það sem fólk vill lesa, þá eigi að skrifa spennubækur. Óþarft sé að styrkja fólk til að skrifa eitthvað sem enginn vill lesa eða a.m.k. svo fáir að útgáfan borgi sig ekki. Þó hafa margir fremstu rithöfundar þjóðarinnar þegið þessi laun (sem lengi vel voru reyndar kölluð styrkur), s.s. Halldór Laxness.** Eða vill fólk meina að hann hefði betur fengið sér launaða dagvinnu og párað eitthvað í frístundum þegar færi gafst?

Smæð markaðarins hér á landi er slík að fæstir listamenn ná að selja svo mikið eða verðleggja verk sín þannig að þeir geti lifað af list sinni og þó það takist þá gæti það verið afar tímabundið, þ.e. þeir selja vel eftir margra ára basl. Ekki er heldur á vísan að róa þó vel seljist um tíma því fáir listamenn ná að lifa af list sinni jafnvel þó þeir hafi náð því að teljast virtir og þeir seljist, og skýrist það einmitt af smæð markaðarins.

Fái markaðurinn að ráða munu framsæknir myndlistarmenn sem ögra viðteknum gildum, nota nýja miðla — það er að segja listamenn sem ekki mála málverk í ramma — verða undir. Vídeóverk seljast ekki mikið, innsetningar eingöngu til stórra listasafna og gjörningar seljast alls ekki, svo dæmi séu tekin.

Krafan um að markaðurinn ráði, að þeir einir eigi að helga sig listinni sem skapa myndlist/tónlist/ bókmenntir sem fellur fjöldanum í geð og selst nægilega til að framfleyta þeim, og að engir styrkir eigi að fara til þeirra sem lítið selja en heldur ekki til þeirra sem selja mikið/eru vinsælir því þeir eigi að sjá um sig sjálfir, myndi takmarka mjög alla sköpun. Hún myndi staðna, verða einhæf, ekki þróast.

Landslagsmálverk
Myndlistarmenn hafa lengi legið undir ámæli fyrir að mála ekki almennileg málverk. Framanaf tuttugustu öldinni lögðu myndlistarmenn sitt af mörkum í sjálfstæðisbaráttunni með því að mála málverk af íslensku landslagi, fjöllum sem voru svo ólík hinu flata danska landslagi, og hafði svo greinilega yfirburði gagnvart flatlendi nýlenduherranna og því hefur verið grá-upplagt að núa danskinum því um nasir. Íslensk fjallasýn varð aðalsmerki sjálfstæðrar þjóðar.

Landslagið tilheyrði sjálfstæðisbaráttunni, frelsinu og manndáðinni, það var þess vegna séríslenskt og að hafna því jaðrar við landráð (sbr. háðungarsýning Jónasar frá Hriflu***). Þessi trú hefur aldrei síðan yfirgefið þjóðina.

Koma þá til sögunnar Komar og Melamid
Í upphafi árs 1996 var haldin sýning á Kjarvalsstöðum sem kölluð var Val fólksins! Sýningarstjóri var Hannes Sigurðsson listfræðingur sem þá var enn ekki orðinn forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri. Ári áður hafði hann, í samvinnu við Hagvang, látið gera könnun meðal íslensku þjóðarinnar á því hverskonar myndlist höfði mest til fjöldans. Skoðanakönnunin var hluti af alheimsúttekt rússnesku listamannanna Komars og Melamids sem gerð var í 14 þjóðlöndum, þar af hér á landi um hvernig málverk fólk vildi sjá. Var blái liturinn í mestu uppáhaldi aðspurðra (undantekning frá þessu var Rússland þar sem ljósblár var vinsælastur og í Úkraínu var hann jafnvinsæll og sá græni). Flestir vildu sjá landslagsmyndir og við nánari útfærslu kom í ljós að fólk átti líka að vera á myndinni, dýr og tré (mismunandi eftir löndum þó). Já og Íslendingar vilja auðvitað hafa fjall á sínu uppáhaldsmálverki.

Niðurstöðurnar voru gaumgæfðar og síðan máluðu Komar og Melamid málverk eftir þeim, málverk sem sýna hvað kemur útúr því þegar farið er eftir óskum fjöldans um það sem hann vill sjá.

Og þetta er semsagt val fólksins.

Ef tekið er mið af niðurstöðum skoðanakönnunarinnar — og meðfylgjandi mynd — get ég fullyrt fyrir mína parta að ég vil heldur að listamenn sem höfða minna til almennings fái styrki til að vinna að list sinni, jafnvel þó hún sé óskiljanleg, óseljanleg og falli fáum í geð.

___
* Góður punktur hjá Steinunni: „Starfslaun listamanna nema um 350 milljónum króna, eða 0,35 milljörðum svo notuð séu tölugildi sem eru tamari í umræðunni þessa dagana. Reykjavíkurborg ætlar að verja 230 milljónum í stækkun golfvallarins á Korpúlfsstöðum um níu holur, úr 18 í 27, á næstu fjórum árum svo tekið sé annað dæmi úr fréttum vikunnar.“ Merkilegt annars hvað fjárstuðningur opinberra aðila til íþróttaiðkunar ýmiskonar virðist hafinn yfir gagnrýni meðan sunginn er árlegi söngurinn um listamenn sem afætur á samfélaginu.

** Eftirfarandi fann ég og lími lítið breytt en mikið stytt hér inn:
Umræður um skáldalaun hefjast á Alþingi 1879, en tillögur um þau voru ekki samþykktar fyrr en 1891.
Þannig var, að aIlt frá 1875 var Benedikt Gröndal veitt nokkurt fé árlega (600 kr. frá byrjun 9. áratugarins) ,,til að halda áfram myndasafni yfir íslensk dýr og til að semja þjóðmenningarsögu Norðurlanda, og 200 kr. ,,til efna og áhalda til að varðveita náttúrugripi".
En líklega hafa menn smámsaman farið að líta þessa fjárveitingu sem skáldastyrk, enda var Benedikt kunnastur sem skáld. Og þá var fordæmið komið, 1891 bætast þau Matthías Jochumsson og Torfhildur Hólm við á 15. grein fjárlaga, en 1902 færist Matthfas yfir á 16. grein (sem síðar varð 18. grein), eftirlaun ríkisstarfsmanna, sem prestur á eftirlaunum, en í vitund manna var hann auðvitað fyrst og fremst skáld. Þetta varð afdrifaríkt, því á eftir fylgdu síðar ýmsir listamenn í þessa grein fjárlaga. Síðar var farið að skipa þeim í sérstakan kafla innan hennar, og hann kallaður heiðurslaunaflokkur listamanna.
1930 samþykkti Alþingi að tillögu Haralds Guðmundssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar að setja Halldór Laxness á fjárlög næsta árs með 2000 kr. styrk. Honum hélt hann nokkurnveginn óskertum síðan, og 1935 var hann færður yfir á 18. gr. með 5000 kr. árlega fjárveitingu, m. a. að tillögu Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Seinna á því ári birtist síðari hluti Sjálfstæðs fólks. Þetta var hámarksstyrkur, Halldór var þá gerður jafn Einari Benediktssyni, virtasta ljóðskáldi landsins og Einari H. Kvaran, sem þá var í einna mestum metum sem skáldsagnahöfundur.
Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins stóðu gegn þessum fjárveitingum til Halldórs, allt frá 1930, á þeim forsendum, að bækur hans myndu miður hollar siðferðislega, einkum börnum og konum!

** Það er ástæða til að benda á ágæta heimildarmynd Steingríms Dúa Mássonar um háðungarsýningu Jónasar.

**** Einnig kom út bók með niðurstöðum könnunarinnar, Val fólksins! Eftirsóttasta og síst eftirsóttasta málverk þjóðarinnar. Reykjavík: Kjarvalsstaðir, 1996.

Efnisorð: