fimmtudagur, mars 18, 2010

Það er ekki sama hvaðan peningarnir koma

Þegar ég heyrði að hernaðarfyrirtæki einhverskonar vildi fá aðstöðu hér á landi hugsaði ég með mér að þetta væri bara upphlaup í fjölmiðlum og ætti sér álíka stoð í veruleikanum og þegar Davíð Oddsson þóttist hafa fengið lán hjá Rússum — sem auðvitað ekkert varð úr. Nennti því ekki einu sinni að æsa mig yfir þessu. En á öllum fréttaflutningi í dag að dæma virðist vera einhver alvara í málinu og þingmenn hafi vitað af þessu máli í einhvern tíma, a.m.k. segjast tveir þeirra hafa fylgst með þegar það var í uppsiglingu. Sjálfstæðismenn eru auðvitað æstir sem fyrr að leggja land undir stríðsglaða aðila og sjá fyrir sér peningana sem streymi í kjölfarið. Og Samfylkingarfólk virðist vera þessu hjartanlega sammála.*

Einhverstaðar heyrði ég sagt að ekkert mál hafi klofið þjóðina eins mikið og hersetan á Miðnesheiði. Inngangan í Nató og samningurinnn við Bandaríkin um her hér á landi á friðartímum hleypti illu blóði í stóran hluta landsmanna og greri aldrei um heilt meðan herinn var hér.

Er sú áætlun að leyfa þessu fyrirtæki að hasla sér völl partur af samstöðu- og samræðustjórnmálum Samfylkingarinnar?

Og hvað er að í höfðinu á fólki sem finnst í lagi að eiga viðskipti við, greiða götu fyrir, og stuðla að framgangi fyrirtækis sem á einn eða annan hátt snýst um hernað? Er mannfall útí heimi í lagi bara ef Suðurnesjamenn fá vinnu? Lík kvenna, karla og barna aukaatriði, örkuml og aðrar skelfilegar afleiðingar stríðsátaka bara smotterís fórnarkostnaður til að hægt sé að lækka tölur um atvinnuleysi í ríki Árna Sigfússonar? Sjaldan blasir eins við gróðahyggjan, skeytingarleysið og mannfyrirlitning eins og að hlusta á málflutning þeirra sem styðja hernað einhverskonar. Það að drápið, pyntingarnar og limlestingarnar fari ekki fram á Reykjanesinu skiptir engu máli; fólk annarstaðar í heiminum á líka rétt á lífi sínu.**

Og hvað er með þetta fyrirtæki? Það virðist í hæsta máta vafasamt. Engar upplýsingar fást um eigendur þess og það gæti þessvegna verið á vegum Bandaríkjahers*** eða í eigu útrásarvíkinga eða álíka kóna sem einskis svífast í fjárplógsstarfssemi sinni. Það er verið að tala um að kæfa Hells Angels í fæðingu**** en á sama tíma er verið að ræða að hleypa hingað fyrirtæki sem gæti haft enn skuggalegri ráðagerðir í huga. Og hvað ef (eins og einhver skrifaði í athugasemd við frétt um þetta mál) þetta fyrirtæki bakar sér óvild útí heimi sem yrði til þess að á það yrði ráðist hér á landi? Svo getur það plantað virkum vopnum í þessar flugvélar sínar og leigt þær til árásarherja eða tekið beinan þátt í stríði hvenær sem er — og við sæl og glöð að telja peningana á meðan.

Fyrst og fremst er hugmyndin galin. Það stendur uppá Vinstri græn að koma í veg fyrir þessa geðbilun.
___
* Eflaust er til Samfylkingarfólk, bæði launaðaðir pólitíkusar og aðrir, sem ekki vilja neinskonar hernaðarumsvif hér á landi en ég hef a.m.k. ekki enn séð yfirlýsingar þeirra. — Viðbót: Jú, Steinunn Valdís hefur talað gegn þessu og Mörður segir að við gætum alveg eins leyft urðun geislavirks úrgangs.
** Það viðhorf að stríð hafi alltaf verið til sem réttlæging á því að hleypa þessu fyrirtæki hér inn er sérkennilegt, því morð hafa líka alltaf verið framin.
*** Svo gæti þetta verið fyrirtæki eins og Blackwater sem hefur ekki beinlínis geðslegt orð á sér. Agnar K Þorsteinsson veltir upp ýmsum flötum á því hverskonar fyrirtæki gæti verið um að ræða og virðist álíka spenntur og ég yfir að flytja þetta inn til landsins. — Viðbót: Hér er grein þarsem starfsemi einkarekinna hernaðarfyrirtækja er lýst, kostum þeirra og göllum. Fyrir mér er þetta lykilatriði: „Hernaðarfyrirtækin fá greitt fyrir að takast á við aðstæður tengdar hernaði og hafi því ekki hag af því að koma á friði. Þvert á móti hagnist þau mest á ófriði, hamförum og upplausnarástandi í samfélögum. Það sé þeim í hag að umsvif herja séu sem mest og framlög ríkisstjórna til hernaðarmála sem hæst.“
**** Ég styð alla viðleitni í þá átt að koma í veg fyrir að Hells Angels eignist lögheimili hér á landi.

Efnisorð: , , ,