þriðjudagur, mars 16, 2010

Verstu tíðindin í uppsiglingu

Nú mun skýrsla rannsóknarnefndarinnar vera í prentun og fljótlega hlýtur að vera tilkynnt hvenær skýrslan verður birt. Páll Hreinsson formaður rannsóknarnefndarinnar sagði að nefndin myndi með henni flytja þjóðinni verstu tíðindi síðari tíma. Einhverra hluta vegna virðast margir hafa skilið það svo að í skýrslunni verði afhjúpuð einhver hneykslismál, lögbrot, svik, landráð eða þaðanaf verra, það séu þessi „verstu tíðindi“. Einn þeirra sem almennt er álitinn bera sök á hruninu mun nú halda því fram að það standi ekkert „svakalegt“ um sig í skýrslunni og það muni líklega svekkja þá sem er illa við hann almennt og yfirleitt.

Ég er nokkuð viss um að skýringin á orðum Páls Hreinssonar sé sú að verstu tíðindi skýrslunnar séu þau að hún sýni að útrásarvíkingarnir, bankamennirnir og aðrir fjárglæframenn sem tóku þátt í að koma þjóðinni á hausinn, hafi meira og minna starfað innan ramma laganna, aðeins séu örlítil frávik hér og hvar, ekkert sem varðar háar fjársektir eða fangelsisdóma. Ástæðan er sú að rammi laganna hafði verið færður útúr öllu korti og hér mátti nánast allt á sviði fjármálagerninga. Stjórnmálamennirnir sem fengu milljónir á milljónir ofan í beina og óbeina styrki fyrir sig prívat og flokkinn sinn og hlýddu síðan fyrirmælum Viðskiptaráðs og annarra sem 'ráðlögðu' þeim hátt og í hljóði, greiddu síðan götu lagabreytinga og reglugerðarniðurfellinga með þeim afleiðingum að ekki verður hægt að sækja auðrónana til saka. Skýrslan mun enn fremur segja með einhverjum hætti að ekki sé hægt að sanna mútuþægni stjórnmálamanna eða að þeir hafi sjálfviljugir tekið að sér þingsetu í boði stórfyrirtækja.*

Þegar þessi ónafngreindi auðróni segir að fólk verði fyrir vonbrigðum og Páll segir að skýrslan innihaldi verstu hugsanlegu tíðindi þá er það einmitt vegna þess að hún verður yfirlýsing um að þetta sé engum að kenna og að enginn verði sóttur til saka. Lætin sem munu brjótast út verða ekki vegna þess að við heyrum að stjórmálamenn séu spilltir, bankamenn og tryggingafélagsforstjórar hafi sóað peningum, útrásarvíkingar hafi keypt allt út á krít og ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Seðlabankastjóri flokksins hafi haldið uppi frjálshyggjuflagginu — heldur vegna þess að okkur verður sagt að við því sé ekkert að gera.

Það eru vondu tíðindin.

___
* Á sveitarstjórnarstiginu er eitthvað aðeins verið að hnýta í hreppsnefndir sem raka inn peningum fyrir að samþykkja virkjanir, bæði í Ölfusi og við Þjórsá, en það verður seint álitið lögbrot þó augljóst sé að það fólk þiggi mútur eða hafi jafnvel boðið sig fram til þess eins að greiða götu virkjana — og þiggi greiðslur fyrir.

Efnisorð: , , ,