laugardagur, mars 13, 2010

Meiri menningu, minna af fótbolta

Það er skemmtileg tilviljun, en eftilvill óheppileg fyrir RÚV, að í sömu vikunni og niðurstöður könnunar Félagsvísindadeildar á menningarneyslu eru birtar skuli vera skýrt frá því að Sjónvarpið hafi tryggt sér sýningarrétt á öllum leikjunum í heimsmeistarakeppni karla í fótbolta.

Líklega hefðu þessi „gleðitíðindi“ verið á forsíðu Fréttablaðsins í dag í stað þess að lenda í fingurbjargarstærð á innsíðum blaðsins ef ekki hefði verið fyrir niðurstöðurnar úr menningarneyslukönnuninni. Þar kom nefnilega í ljós að fleiri sækja menningarviðburði en íþróttaviðburði og fleiri sækjast eftir umfjöllun um menningu og listir en íþróttir í fjölmiðlum. Samt er fjármagni Ríkissjónvarpsins varið í endalausa knattleiki karla og tíma allra sjónvarpsáhorfenda sóað í sýningar á leikjum sem hlutfallslega fáir horfa á.* Menningarþættir í Sjónvarpinu eru afturámóti svo fáir að þeir rúmast í einu orði: Kiljan. Og er það þó fjarri því góður eða fjölbreyttur þáttur.

Ef ég tek ekki með þá sem sækja bíóhús og menningar-og útihátíðir (vegna þess hve forsnobbuð ég er), þá eru helstu niðurstöður þessar.

61% heimsækja sögustaði
60% fara í leikhús, óperur eða á söngleiki
59% á tónleika (ég geri ráð fyrir að klassískir tónleikar teljist með)
53% sækja listasöfn eða fara á aðrar myndlistarsýningar
46% fara á söfn af öðrum toga (t.a.m. Þjóðminjasafnið)

Enda þó álykta megi að þessir hópar skarist að einhverju leyti (sumt fólk fari bæði á listasöfn og í leikhús) þá er hver hópur um sig stærri en þau 38% sem sækja íþróttaviðburði.

Þetta sýnir að áhugi landsmanna á íþróttum er mun minni en á menningu — samt fá íþróttaáhugamenn endalaust að ráða sjónvarpsdagskrá allra landsmanna.

Nýr dagskrárstjóri Sjónvarpsins verður ráðinn á næstunni. Það er vonandi að það verði A) kona, B) manneskja sem metur myndlist, leiklist, óperur, sagnaarfinn og klassíska tónlist, C) láti ekki háværa minnihlutahópinn sem kallast boltaáhugamenn og samanstendur aðallega af frekum körlum, hafa áhrif á stefnumörkun sína. Það væri þó allavega tilbreyting.

___
* 46% áhorfenda eru boltaáhorfendur en 56,5% vilja sjá sjónvarpsefni um menningu og listir.

Efnisorð: , ,