miðvikudagur, febrúar 17, 2010

Vodafone hættir að dreifa klámi vegna þrýstings

Skyndilega og alltíeinu berast góðar fréttir mitt á milli allra þeirra vondu.* Ekki það, í fyrstu voru það líka vondar fréttir. Sagt var frá því að Vodafone væri að dreifa klámi sem hægt væri að skoða í gsm símum. Upplýsingafulltrúi fyrirtækisins sagði að reynt væri að koma í veg fyrir að börn sæu efnið — eins og það væri aðalmálið. Málið er auðvitað að það er ólöglegt og fullkomlega siðlaust að dreifa klámi, hver sem svo skoðar það.

Félagar í Femínistafélaginu kærðu dreifingu klámefnis árið 2005 með engum árangri því kærunni var vísað frá. Engar skýringar hef ég heyrt á því hversvegna var ekki látið reyna á lögin sem banna dreifingu kláms.**

,,Ef klám birtist á prenti, skal sá sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum. Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum."


Kæra feministanna um árið sneri að klámsýningum á vegum Skjásins og 365 (sem hét eitthvað annað þá en er fjölmiðlafyrirtækið sem m.a. rekið hefur Stöð 2) og enn er því efni dreift í sjónvörp þeirra sem borga áskrift fyrir klámrásirnar.

En góðu fréttirnar eru semsagt þær, að Vodafone hefur ákveðið að hætta dreifingu og sölu á klámi í gegnum vefgátt fyrir farsíma. Sömuleiðis verður hætt að bjóða slíkt efni á Leigunni, sem er stafræn leiga á myndefni fyrir sjónvarp. Þessi ákvörðun var greinilega tekin eftir þrýsting frá fólki sem hefur þá skoðun að klám og hin ólöglega dreifing þess sé ekki sæmandi. Og húrra fyrir því!

___
* Vondu fréttirnar eru m.a. þær að barnanauðgari var sýknaður í Hæstarétti og að Sveinn Andri skuli fenginn í sjónvarpssal til að lýsa því yfir að það sé iðulega lygi þegar fólk kærir nauðgun. Þá fannst mér það einnig vondar fréttir að karlmaðurinn sem ætlaði að skjóta þá menn sem höfðu nauðgað kærustu hans og áreitt fleiri konur var dæmdur í sex ára fangelsi. Það munar ekki um refsigleðina þegar líf karlmanna á í hlut. Líklega fær náunginn sem reyndi að stinga konu í „bringusvæði“ og aðra höndina ekki svo þungan dóm, enda varla tiltökumál að ætla að stinga kvenfólk í hjartað.
** Einhver fáviti í Moskvu hélt að hann væri að gera samborgurum sínum greiða með því að sýna klámmynd sem blasti við öllum sem áttu leið um fjölfarna götu. Hann á nú yfir höfði sér tveggja ára fangelsi fyrir tölvuglæpi og ólöglega dreifingu á klámefni. Rússar líta semsagt svo á að fara beri eftir lögum sem banna dreifingu á klámi. Húrra fyrir Rússum!

Efnisorð: , , ,