þriðjudagur, janúar 19, 2010

Andstaða við flugvöll

Ég hef verið á móti flugvellinum í Vatnsmýrinni svo lengi sem ég man. Líklega hvarflaði það þó ekki að mér að agnúast útí hann áður en ég heyrði Flosa Ólafsson gagnrýna hávaðamengunina frá flugvélum í aðflugi. Síðar áttaði ég mig á slysahættunni sem stafaði af flugvellinum í miðri borginni, eftir það hef ég verið sannfærð um að hætta eigi að nota Reykjavíkurflugvöll og flytja starfsemina annað.*

Ég kættist því mjög þegar Reykjavíkurflugvöllur varð bitbein borgarfulltrúa og um hann voru skrifaðir margir pistlar í blöð þar sem flestir Reykvíkingar virtust sammála mér um að losna við flugvöllinn. Það leið langur tími þar til ég áttaði mig á að sumir þeirra sem tjáðu sig, og þaraf líklega allir borgarfulltrúarnir, vildu losna við flugvöllinn til þess að byggja íbúðahverfi — og gott ef ekki nýjan miðbæ — í staðinn. Þetta kom mér mjög á óvart því ég hafði haldið í barnslegu sakleysi mínu að allt fólk sem væri á móti flugvellinum hlyti að vera sammála mér um að fuglarnir ættu að hafa Vatnsmýrina í friði fyrir sig ef flugvöllurinn færi, eins og þeir höfðu hann líklega alla tíð fram að lagningu hans.

Mér sveið að sjá hvernig kríubyggðin á Seltjarnarnesi hraktist til og frá og lagðist niður á þeim stöðum sem byggð voru enn fleiri einbýlishús og raðhús fyrir fólk sem greinilega hataði fugla. Svanirnir hurfu af Tjörninni** og eftir að Hringbrautin var breikkuð og gerð að hraðbraut — og gleymdist að setja ræsi undir hana milli Vatnsmýrar og Tjarnarinnar — komust aðeins örfáir stokkandarungar á legg.*** Og ég hélt semsé að fuglar fengju að eiga Vatnsmýrina og Tjörnina en við hin létum okkur nægja restina, því nóg virtist vera af byggingarlandi. En svona reyndist ég þá ósammála öllum hinum sem vildu losna við flugvöllinn bara til að græða á fasteignabraski en ekki síður til að nota sem pólitíska skiptimynt í endalausum borgarstjórnarskiptingum.

Nú segir Egill Helgason að málgagn LÍU og Sjálfstæðisflokksins sé að skensa Vinstri græn fyrir að álykta um verndun votlendis á flokksráðsfundi sínum. Umræðurnar á síðu hans eru reyndar (enn sem komið er) flestar á þann veg að fólk virðist ekki bara sammála Vinstri grænum heldur segjast sakna fugla og benda á að mun meiri koltvísýringur streymi úr framræstum mýrum á Íslandi en frá bílaflotanum og álverum til samans; fuglaskoðun sé mikilvæg í ferðamennsku og að náttúran kemst alveg af án mannsins en maðurinn alls ekki án náttúrunnar.

Kannski var ég þá ekki ein um þá skoðun að Vatnsmýrin ætti að vera fyrir fuglana eftir allt saman.

___
* Að mínu mati er Keflavíkurflugvöllur gáfulegasti kosturinn og allar hugmyndir um að byggja nýjan (fokdýran flugvöll) annarstaðar útí hött.
** Hnúðsvanirnir hurfu, stóru fuglarnir sem sigla nú um Tjörnina eru álftir, ekki svanir.
** Ég hef svosem ekki hugmynd um hvort stærð andastofnsins hefur eitthvað með hina fáránlegu gleymsku að gera og hve miklu máli þetta ræsi hefði skipt, en minnir að einhver hafi samt sagt að þetta spili eitthvað saman.

Efnisorð: , ,